Þá hefjast æfingar í Kænugarði fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, stærsta skemmtiþátt veraldar sem sendur er út í beinni útsendingu. Nú hefst undirbúningur fyrir þá 200 milljón áhorfendur um allan heim sem munu fylgjast með keppninni í næstu viku.
Keppendur í fyrri undankeppninni æfa í fyrsta skipti í dag, þ.e. Svíþjóð, Georgía, Ástralía, Albanía, Belgía, Svartfjallaland, Finnland, Aserbaídsjan og Portúgal. Dagskrá keppenda er þétt. Um leið og þeir koma í International Exibition Center, en það er heiti Eurovision hallarinnar í ár, hér í Kænugarði fá þeir öryggisfyrirlestur og fara síðan beint á æfingu með inneyra. Fyrsta æfing landanna stendur yfir í 30 mínútur og reyna menn að ná nokkrum góðum rennslum laga sinna á þeim tíma. Eftir æfingu fara að hámarki 10 manns úr hverri sendinefnd í sýningarherbergið til að skoða hvernig atriðið kom út á sviðinu og koma með athugasemdir við myndvinnslu og fleira. Fararstjórinn velur síðan 20 sekúndna klippu og 15 sekúndna klippu úr atriðinu til að nota í upprifjun á meðan á símakosningu stendur. Því næst er aðeins farið yfir make up og hár áður en keppandi fer í sjónvarpsviðtöl, t.d. hjá eurovision.tv eða einhverri ríkissjónvarpsstöðinni. Eftir alla þessa dagskrá er síðan gert ráð fyrir að keppendur fari á svokallað “meet&greet” (eftir fyrstu æfingu) eða blaðamannafund (eftir aðra æfingu landanna) með blaðamönnum og aðdáendum hér í Kænugarði.
Svíþjóð
Robin Bengtsson mætir á sviðið með fjóra dansara með sér sem allir hafa mikrafóna. Eflaust treystir Robin til viðbótar á eina bakrödd utan sviðs. Atriðið byrjar utan sviðs eins og í Melodifestivalen en síðan stormar hersingin inn á fjólublátt, bleikt og blátt lýst svið, beint á hlaupabrettin. Robin er klæddur í ljósfjólublá jakkaföt með buxurnar stuttar eins og svo mikið er í tísku í dag og er í lakkskóm við herlegheitin. Atriðið er mjög svipað og í úrslitum Melodifestivalen og ljóst að hér ætla menn að keyra upp kynþokkann (áhorfendur verða þó eflaust fyrir vonbrigðum með að klippt er of snemma á “klobbaatriðið” svokallaða. Myndvinnslan virðist ekki alveg vera komin saman en auðvitað eru þessar æfingar til þess að laga m.a. það. Robin renndi laginu I can’t go on í gegn þrisvar sinnum og það er ljóst að það mun eitthvað trufla hann að hafa ekki bakraddir á playbackinu eins og leyfilegt er í Melodifestivalen (og Svíar eru þessa dagana að berjast fyrir að leyft verði í Eurovision).
Georgía
Tamara Gachechiladze mætir á svið skrýtt rauðum ljósum (hefðbundið fyrir georgísku framlögin) og syngur lagið Keep The Faith. Tamara nýtur sín í sviðsljósinu ein á sviðinu og bakraddirnar eru utan sviðs. Í handbók blaðamanna hér í Kænugarði segir að flytjendur verði að vera í Eurovision búningnum á fystu æfingu en Tamara mætti bara frekar casual í gallabuxum og án alls farðar. Í öðru rennsli lagsins var hún búin að sveipa um sig rauðri siffon skikkju sem hún fleygir síðan af sér til að auka á dramatíkina. Baklýsingin á sviðinu er mjög sjarmerandi og minnir á georgíska fánann. Í þriðja og síðasta rennsli Tamöru í dag var dramatíkin keyrð upp með flugeldum og ljóst að Georgía ætlar að veðja á að heilla Evrópu og Ástralíu upp úr skónum með pýrótækninni.
Albanía
Lindita Halimi kemur á svið í bleikum leðurjakka og gallabuxum og hunsar þar með einnig búningaregluna fyrir æfinguna. Hún er með fjórar bakraddir á sviðinu og ánægjulegt að sjá að þær fá að vera með í stuðinu á sviðinu. Einhvers konar klukkur og arkir sveima um í bakgrunninum lagsins World og sviðið lítur stórkostlega út. Það var því miður ekki að hjálpa Linditu mikið í dag þar sem hún var ekki mjög tónviss og átti erfitt með að horfa í myndavélina. Vonandi hristir hún af sér ofleikinn og stendur sig vel í undankeppninni 9. maí.
Ástralía
Isaiah kemur á svið í dökkum, síðum flókajakka og stuttum dragtarbuxum. Hann er einn á sviðinu og bakraddirnar eru því einhvers staðar baksviðs. Gimmik Ástralanna í ár er hringsólandi platform sem Isaiah stendur á og fer hring eftir hring. Í einu rennslinu vour þeir greinilega að prófa að láta Isaiah ganga á platforminu og minnir atriðið þá á sænska framlagið með hlaupabrettin. FÁSES.is frétti í blaðamannahöllinni að Ástralarnir hefðu komið upp í höll í gær til að freista þess að æfa þessa gimmik en fengu ekki enda eiga allir keppendur að sitja við sama borð að sjálfsögðu þegar kemur að æfingum. Myndir af Isaiah birtast í bakgrunninum og hann er því ekki alveg nógu öruggur í söngnum. Fínpússa þarf myndvinnsluna fyrir atriðið því Isaiah virðist alltaf ganga í burtu frá myndavélinni þegar hann ætti að vera kyrr – en það er eitthvað sem smellur eflaust á komandi æfingu.
Blaðamannafundur með Robin Bengtsson – Svíþjóð
FÁSES.is laumaði sér á blaðamannafund með Robin svona rétt á milli æfinga. Þar komumst við m.a. að því að þó að Svíum hafi gengið vel síðustu árin í Eurovision og geri kröfur til sinna keppenda upplifir Robin ekki mikla pressu á sér einmitt út af því að Svíþjóð hefur unnið svo oft því þá þarf hann ekki færa þeim sigra. Hann nefndi einnig að það var hans hugmynd að byrja lagið baksviðs en danshöfundur þeirra átti hugmyndina að hlaupabrettunum. Hlaupabrettin ku vera sérsmíðuð og tók það heila tvo mánuði. Þetta gerði það að verkum að Robin og félagar höfðu bara 2-3 daga til að æfa á hlaupabrettunum fyrir undankeppnina í Melodifestivalen. Eftir þvi sem við komumst næst er þetta í fyrsta skipti í sögu Eurovision sem lag byrjar baksviðs og einnig í fyrsta skipti sem við sjáum svona hlaupabretti á sviðinu (allir muna nú eftir hamstrahjólinu sem er nú kannski einhvers konar bretti?). Robin var að lokum spurður hvaða lög hann væri hrifnastur af í ár og nefndi hann fyrst Danmörku en belgíska, franska og portúgalska lagið eru einnig góð að hans mati.
Belgía
Margir hér eru spenntir fyrir belgíska framlaginu í ár og hefur lagið m.a. verið spilað mikið í útvarpinu. Blanche syngur lagið City lights og hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að hún hafi aldrei sungið svo djúpt áður (enda bara 17 ára). Hún ku vera með tvær kvenkynsbakraddir með sér sem eru utan sviðs. Lagið er sett fram á einfaldan máta og margir myndu kannski segja að Belgar hafi verið of sparsamir í sviðsetningu. Á sviðinu birtast laserljós og fallegur hnöttur í bakgrunni en Blanche stendur sem steinrunnin á sviðinu í anda lagsins fyrir utan að hreyfa hendurnar upp í fjórgang. Blanche var ekkert að stressa sig á að mæta í búningnum en við skulum vona að hann grípi augað því þetta lag á sko skilið athyglina!
Svartfjallaland
Já sælir nú! Hér er kominn algjör konfektmoli fyrir Eurovision aðdáendur á sviðið sem menn mega sko ekki missa af. Slavko Kalezic flytur lagið Space og gerir það svo sannarlega með eftirminnilegum hætti. Hann byrjar atriðið einn á sviðinu í síða bláa pilsinu sem einnig var notað í myndbandi lagsins en flettir sig fljótlega klæðum og í ljós koma glimmerbuxum Eurovision style! Í bakgrunni sviðsins eru myndir af Slavko sjálfum (eða aðallega bringunni hans). Og haldið ykkur nú – hann hermir eftir sænska bakraddarsöngvaranum og tekur eitt stykki klobbaskot! Ef þetta endaði bara þarna ó nei – Slavko leggst í gólfið þar sem birtist gríðarstór mynd af andliti hans. Síðan tekur hann nokkur vel valin dansspor með fléttuna að vopni. Á einu tímapunkti virðist hann sópa sviðið með fléttunni! Eftir fyrsta rennsli Slavko var mikið klappað hér í blaðamannahöllinni, í fyrsta sinn í dag. Eftir svona gríðarlega góða skemmtun þýðir ekkert að velta sér upp úr slæmum eða góðum söng en í framhjáhlaupi má nefna að Slavko reynir sig m.a. í falsettusöng í atriðinu.
Finnland
Finnski dúettin Norma John flytur lagið Blackbird. Lasse situr í svörtum fötum við svart píanó og Leena er í svörtum blúndukjól við svartan og rauðan bakgrunn. Eina breytingin frá finnsku undankeppninni, UMK2017, virðist vera sú að píanóið hefur verið fært frá hægri til vinstri á sviðinu. Einhverjir eru farnir að líkja Leenu við Reese Witherspoon og það er kannski eitthvað smá til í því en þetta eru allavega fyrstu keppendurnir í dag sem eru alveg tónvissir. Margir spá því að þetta lag verði ofarlega hjá dómnefndum í ár en það er spurning hvernig áhorfendum líkar öll dramatíkin.
Aserbaídsjan
Dihaj syngur lagið Skeletons fyrir Asera í ár. Aserbaídsjan veldur ekki vonbrigðum með sviðsetningu framlags sín frekar en fyrri daginn. Við sjáum Dihaj í nokkurs konar krítartöflukassa og við hlið hennar er málarastigi þar sem efst situr dansari með hestshaus. Minnir aðeins á film noir og kannski er hún að leika einhvern leik með hestshausinn sem peð í skákinni, hver veit? Dihaj er sjálf í síðum kampavínslituðum frakka og nútímadansararnir í hefðbundnum Selmujökkum ef svo mætti segja. Hún gerir síðan kross aftan á dansarana með krítinni – þýðir það að þeir verði teknir af lífi og hesthausinn þá tilvísun í mafíuna? Sumsé frekar listræn sviðsetning hjá Aserum í ár, kannski ekki svo aðgengileg fyrir almenning og maður vonar að lagið drukkni ekki í allri þessari merkingaþrungnu framsetningu.
Portúgal
Louisa Sobral steig á svið og söng Amar Pelos Dois í stað bróður síns Salvador sem vegna veikinda getur ekki tekið þátt í fyrstu og annarri æfingu fyrir fyrri undankeppni Eurovision. Salvador mætir fyrst á sviðið í fyrstu generalprufunni í næstu viku þar sem læknateymið hans vill ekki sleppa honum úr landi í tvær heilar vikur. Atriðið heldur einfaldleika sínum frá portúgölsku undankeppninni en það sem er nýtt að flytjandinn verður staðsettur á litla sviðinu framar í salnum. Lýsingin verður í mínímal stíl – bara eitt eltiljós á söngvaranum og við þóttumst taka eftir smávegis vind úr vindvél. Portúgalar eru því í “less is more” í stílnum hér í Kænugarði enda er það í anda lagsins sem nýtur sívaxandi vinsælda í Evrópu.
Færslan verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram í Kænugarði.