Í gær fengum við hörðustu aðdáendurnir hér í Stokkhólmi mikið fyrir okkar snúð. Boðið var upp á Meet&Greet með nokkrum þátttakendum Eurovision á Euro Fan Café (sérstakur skemmtistaður aðdáenda) hér í Stokkhólmi. Fram komu Gabriela frá Tékklandi, Minus One frá Kýpur, Rykka frá Sviss og Greta Salóme okkar! FÁSES var að sjálfsögðu á staðnum með fánana til að sýna okkur konu stuðning.
Það verður ekki tekið af okkur stelpu að hún kann að rúlla upp fjölmiðafyrirspurnum eins og enginn sé morgundagurinn. Hún byrjaði á að segja viðstöddum frá ferð sinni í Gröna Lund um morgunin en þar heimsótti íslenski hópurinn Tívólið á staðnum. Það er skemmst frá því að segja að þau skelltu sér í tæki og var Greta enn að jafna sig á ósköpunum! Hún fjallaði einnig um muninn frá því að keppa Baku í Aserbaídsjan og nú í Stokkhólmi. Aðalmunurinn væri að til þess að komast til Baku þurfti hún að fljúga 14 klukkustundum meira en til Stokkhólms. Greta gat þess einnig að hún hefði öðlast meiri reynslu síðan 2012, m.a. í gegnum Disney reynsluna sína.
Flosi Jón hefur tekið saman stórskemmtilegt myndband frá fundi Gretu Salóme með aðdáendum. Var m.a. komið inn á Panama-skjölin (Eurovision er ekkert óviðkomandi!), hina frægu afturendamynd, skort á gólfgrafík á fyrstu æfingu hópsins, Ikea-kjötbollur og súrsaða hrútspunga.