Boðið var til þriðju útgáfu Júró-stiklna sunnudaginn 24. apríl sl. á Sólón í Bankastræti þar sem farið var í gegnum öll 42 Eurovision framlögin í ár ásamt því að Greta Salóme leit við og flutti Hear them calling. Þar sem FÁSES er töluvert öðruvísi samsettur en hinn týpíski OGAE aðdáendaklúbbur erlendis og fleira fjölskyldufólki innanborðs er ákaflega skemmtilegt að geta boðið upp á viðburð sem hentar breiðum aldurshópi.
Greta Salóme opnaði viðburðinn með einlægri frásögn af umfjöllunarefni íslenska Eurovision framlagsins. Lagið Hear them calling fjallar um allar þær mismunandi raddir sem við heyrum út um allt í kringum okkur – bæði þær jákvæðu en ekki síður þær neikvæðu. Greta Salóme bað síðan alla viðstadda um að halda á lofti jákvæðu röddunum í lífinu og reyna vera góð fyrirmynd með því að dreifa jákvæðum boðskap í nærsamfélagi okkar. Því næst flutti Greta tónleikaútgáfuna af laginu sínu sem hefst á ákaflega hjartnæmu fiðlusólói (sem við getum því miður ekki fengið að heyra í Eurovision því þá verður lagið lengra en þrjár mínútur!). Áhorfendur voru greinilega með á nótunum því klöppin, hey-in og kúnstpásan (sem vefst fyrir mörgum) var allt á réttum stað. Að flutningi loknum gaf Greta Salóme sér góðan tíma til að spjalla við viðstadda og sitja fyrir á hinum ó-svo-vinsælu sjálfum. Takk fyrir okkur Greta!
Var því næst komið að verkefni kvöldsins, að kíkja á stiklur úr öllum 42 Eurovision framlögunum (43 eiginlega því við kíktum að sjálfsögðu á Rúmenana þó þeir verði ekki með í Stokkhólmi) í ár og drekka í sig allan fróðleikinn sem Steinunn mataði viðstadda á með miklum snilldarbrag. Áður en leikar hófust dróu gestir úr forlátum Eurovision-poka fána lands sem þeir áttu að vera í dómnefnd fyrir. Var löndunum síðan gefin stig í samræmi við stigakerfi Eurovision í lok sýningarinnar á þar til gert eyðublað á netinu. Var að sjálfsögðu óheimilt að gefa því landi stig sem viðkomandi var í dómnefnd fyrir. Ákaflega gaman var að fylgjast með FÁSES liðum leggja sig í líma við dómnefndarstörfin – en auðvitað héldu menn sig við að velja bara einfaldlega það sem þeim fannst best í anda þessa skemmtilega samkvæmisleikar!
Mikil spenna var þegar niðurstöður voru kunngerðar en í ljós kom að Ísland lenti í þriðja sæti (alveg eins og á Stiklunum í fyrra), Rússland í öðru sæti og Frakkland í því þriðja. Það voru tvær afar kátar hnátur, Júlía Heiðrún og Helena Sólrún, sem fóru fyrir frönsku dómnefndinni og hlutu vegleg verðlaun; alls konar skemmtilegt kynningarefni frá Eurovision í Vín 2015 ásamt DVD diskunum um Söngvakeppnina í 30 ár.
Niðurstöður atkvæðagreiðslu Júró-Stiklna 2016:
1. Frakkland 274
2. Rússland 235
3. Ísland 197
4. Ástralía 183
5. Aserbaídsjan 108
6. Svíþjóð 95
7. Kýpur 87
8. Búlgaría 83
9. Spánn 81
10. Holland 68
11. Pólland 68
12. Ítalía 58
13. Króatía 57
14. Belgía 56
15. Malta 54
16. Austurríki 52
17. Úkraína 46
18. Litháen 42
19. Finnland 40
20. Noregur 40
21. Írland 40
22. Grikkland 36
23. Tékkland 32
24. Lettland 30
25. Moldóva 28
26. Þýskaland 28
27. Danmörk 20
28. Eistland 19
29. Armenía 13
30. San Marínó 13
31. Ísrael 13
32. Bretland 12
33. Makedónía 9
34. Svartfjallaland 8
35. Bosnía 6
36. Serbía 6
37. Georgía 4
38. Ungverjaland 3
39. Albanía 1
40. Slóvenía 1
41. Hvíta-Rússland 0
42. Sviss 0
Þess ber að geta að kosningin á Júró-stiklunum er ekki hin opinbera OGAE kosning sem allir aðdáendurklúbbarnir framkvæma í aðdraganda keppninnar. Hin eina sanna OGAE BIG POLL, eins og hún er kölluð, hefur þegar farið fram meðal FÁSES meðlima og má sjá niðurstöður könnunarinnar hér.
Fleiri myndir af viðburðinum koma síðar!