Undankeppnir Eurovision: Esko spjallar við FÁSES um UMK í Finnlandi

eskoNú þegar forkeppnir fyrir Eurovision 2016 ráða dagskrá hvers sanns Eurovision aðdáanda fékk FÁSES.is nokkra erlenda aðdáendur í spjall um undakeppnir þeirra landa. Fyrstu ríður á vaðið Esko Niskala frá Finnlandi en margir þekkja hann sem einn af Eurovision DJ-unum.

Hvernig fannst þér Uuden Musiikin Kilpailu, finnska forkeppnin, 2016?

UMK hefur tekið miklum framförum síðustu árin en það eru fimm ár síðan skipulagi keppninnar var breytt úr ruglingslegum og leiðinlegum raunveruleikaþætti í hefðbundna Eurovision forkeppni. Annað árið í röð voru mörg sterk lög í úrslitaþættinum og showið var skemmtilegt og fagmannlega unnið. Það eina sem maður getur kvartað yfir var að úrslitaþátturinn var haldinn í sjónvarpssal og það var nánast ómögulegt að fá miða. Stærri áhorfendahópur hefði gert þáttinn skemmtilegri og ég tel alls ekki útilokað að fylla stærri tónleikastað af fólki væru aðgöngumiðarnir á sanngjörnu verði. Ég er nokkuð ánægður með fjölda laga (18) og undanúrslitaþátta (3) í UMK – en við aðdáendurnir getum að sjálfsögðu alltaf hlustað á fleiri lög! Kynnarnir þetta árið skiluðu góðu starfi, voru hnyttnir og skemmtilegir, sérstaklega Krista Siegfrids en hún hefur aldrei verið sjónvarpskynnir áður. Í ár var fimmtugasti finnski keppandi í Eurovision valinn og af því tilefni voru vinsælir flytjendur fengnir til að taka gömul finnsk Eurovision lög í nýjum búningi og það heppnaðist sérlega vel. Kosningakerfið í UMK er fengið að láni frá Melodifestivalen og að mínu mati hafa dómnefndirnar of mikið vald þar en það er nú klassískt umkvörtunarefni.

Hverjir voru sterkustu keppendurnir í ár?

Uppáhaldið mitt í keppninni í ár var Schlager drottningin Eini en ég átti aldrei von á því að hún myndi vinna. Að mínu mati voru Sandhja, Mikael Saari og Saara Aalto sterkustu keppendurnir án þess að eitt þeirra stæði upp úr. Cristal Snow var eflaust með besta lagið en því miður hafði hann ekki sönghæfileika til að bakka það upp. Saara Aalto er mjög mikill Eurovision aðdáandi og það er eins og það séu hennar örlög að lenda í öðru sæti (var í 2. sæti í the Voice og nú í annað skipti í 2. sæti í UMK) – hún á alla mína samúð. Saara sagði fyrir nokkru síðan að hún myndi halda áfram að keppa í UMK, ekki bara þar til hún kæmist fyrir Finnlands hönd í Eurovision, heldur þangað til hún ynni alla keppnina! Svo ég vona að hún komi aftur í UMK með enn betra lag. Mikael Saari var uppáhaldskeppandi Eurovision aðdáendanna í ár en að mínu mati var lagið hans aðeins of flókið og melankólískt fyrir keppnina. Ég er mjög ánægður með sigur Sing It Away – þetta er jákvætt feel-good-lag sem er sungið af hæfileikaríkri konu.

Hvernig heldur þú að laginu ykkar gangi í Stokkhólmi?

Það er of snemmt að segja til um gengi Finnlands í ár þar sem ekki öll lögin hafa verið valin og við vitum ekki í hvaða röð þau verða flutt. Ég held samt að lagið hennar Sandhja falli í kramið hjá dómnefndum og að við náum naumlega í úrslitakeppnina 14. maí.  Ég hef ekki glæstar vonir fyrir hennar hönd – Finnland mun eflaust enda í kringum 20. sætið eins og vanalega. Að mínu mati er það mikill sigur að ná inn í úrslitakeppnina svo ég yrði alls ekki svekktur með þá niðurstöðu.

Hvað er besta undankeppnin fyrir Eurovision?

Ég hef ekki fylgst með undankeppnunum vel þetta árið en Dansk Melodi Grand Prix var frábært show eins og alltaf þó að sigurvegarinn hafi ekki verið í uppáhaldi hjá mér. Opnunaratriði Söngvakeppninnar 2016 hlýtur að hafa verið það besta í þessari undankeppnisvertíð!

Hvernig líst þér á íslenska Eurovision lagið, Hear them calling?

Ég elska Gretu Salóme og lagið og því mun ganga mjög vel úti í Stokkhólmi. Þetta var uppáhaldslagið mitt í Söngvakeppninni í ár svo til hamingju Ísland með að hafa valið rétta lagið! Ég verð þó að játa að mér finnst íslenska útgáfa lagsins betri því það hljómar einhvern veginn dularfyllra og hæfir stemningu lagsins betur. Íslenskan er mjög fallegt tungumál og ég vona að við heyrum það í Eurovision einn daginn, henti það laginu. Gangi ykkur vel og ég vona að Eurovision komi til Reykjavíkur næsta ár!

Takk fyrir spjallið elsku Esko! Að lokum fylgir hér sigurlag Finna í ár.

https://www.youtube.com/watch?v=orJkfJ4LJqc