María Ólafs þrítug


María Ólafsdóttir fæddist á Blönduósi 2. febrúar 1993 og náði því hinum virðulega þrítugsaldri á dögunum. Árið 2015 tók María þátt í Söngvakeppninni með lagið Lítil skref. Lagið er eftir Sæþór Kristjánsson og bræðurna Ásgeir Orra Ásgeirsson og Pálma Ragnar Ásgeirsson. Saman hafa þeir félagar samið þónokkur lög og hafa tekið upp enn fleiri undir nafninu StopWaitGo. Árið 2015 sendu þeir tvö lög í Söngvakeppnina. Hitt heitir Í síðasta skipti sem Friðrik Dór Jónsson flutti. Það endaði svo að lögin urðu þau tvö efstu og kepptu þeir félagar þvi við sjálfa sig í einvíginu á úrslitum Söngvakeppninnar þann 14. febrúar 2015. Lagið sem María söng sigraði. Viðbrögð Maríu þegar hún sigrar fóru eins og eldur um sinu um netheima, enda stórkostleg. Hún átti alls ekki von á þessu!

Fyrir úrslitakvöld Söngvakeppninnar var búið að gera enskan texta við lagið sem þá hét Unbroken. Textann sömdu lagahöfundarnir ásamt Maríu. Þau kepptu svo á seinna forkeppniskvöldinu á stóru Eurovisionkeppninni í Vínarborg í Austurríki þann 21. maí. Með Maríu á sviðinu voru í bakröddum áðurnefndur Friðrk Dór, Íris Hólm, Alma Rut Kristjánsdóttir, Ásgeir Orri Ásgeirsson og Eurodívan Hera Björk Þórhallsdóttir. Lagið náði því miður ekki að komast í úrslit, endaði í 12. sæti af 17 lögum, en það þurfti að ná allavega tíunda sæti til að komast áfram.

Eftir keppnina hefur María ekki verið mikið áberandi og þá jafnvel frekar sem leikkona en söngkona. Hún gaf þó út tvö lög í samstarfi við StopWaitGo eftir keppnina. Einnig gaf hún út lagið Hækka í botn í samstarfi við Hands Up Music árið 2018. FÁSES.is færir Maríu innilegar afmælisóskir.