Ingibjörg Stefánsdóttir fimmtug


Ingibjörg Stefánsdóttir söng- og leikkona fæddist þann 31. ágúst 1972 og fagnar því 50 ára afmæli í dag. Ingibjörg eða Inga eins og hún er oftast kölluð, starfar sem jógakennari í dag og hefur gert um árabil. Hún tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins fyrir 29 árum.

Ingibjörg flutti lagið Þá veistu svarið í Söngvakeppninni árið 1993 og fór þar með sigur af hólmi. Lagið er eftir eftir hinn norska Jon Kjell Seljeseth með texta eftir Friðrik Sturluson. Þau fóru því í stóru keppnina sem þá var haldin í smábænum Millstreet á Írlandi. Með Ingu á stóra sviðinu voru Erna Þórarinsdóttir, Eva Ásrún Albertsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Einar Bragi Bragason og Eyjólfur Kristjánsson. Jon Kjell var hljómsveitastjóri. Þá veistu svarið endaði í þrettánda sæti.

Inga hefur lítið sungið opinberlega eftir Eurovisionævintýrið. Hún kom fram í syrpunni á Söngvakeppninni þegar íslensku framlögin voru flutt í upphafi keppninnar árið 2016 í tilefni af 30 ára þátttökuafmæli okkar. Hún hefur verið gestur á Söngvakeppninni eftir það og söng eitt sinn Eurovisionstefið, Eurovision Theme Song eða Te-Deum ásamt Gísla Marteini Baldurssyni í upphitun fyrir keppnina. FÁSES.is færir Ingbjörgu innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.