Þann 1. febrúar síðastliðinn var tilkynnt að söngkonan Brunette myndi flytja lag Armeníu í Eurovision í ár. Það var semsagt ekkert verið að splæsa í neina keppni. Þann 15. mars síðastliðinn var lagið svo opinberað. Það heitir Future Lover og er eftir Brunette sjálfa, en hún heitir réttu nafni Elen Yeremyan. Brunette er fædd í maímánuði árið 2001 og verður þvi 22ja ára í Eurovisionmánuðinum. Lagið sjálft, eins og titillinn gefur til kynna, fjallar um leitina að framtíðar elskhuganum og hvernig hann á að vera. Sjálf lýsir hún laginu sem ljóðrænum striga. Orðin hafi komið til hennar meðan hún var að skrolla í símanum sínum og sá þessa tilvitnun. Orðin urðu að lagi og komu af stað allskonar tilfinningum. Reyndar er orðið á götunni að texti lagsins komi beint úr beinum tilvitnum af Tumblr en við seljum það ekki dýrara en við keyptum það.
Aðeins fjögurra ára gömul hóf Brunette tónlistarferilinn. Í september 2019 gaf Brunette út fyrsta lagið sitt Love the Way You Feel í samstarfi við Hnvak Fundation en þá var hún aðeins 18 ára. Síðar varð hún meðlimur Project 12, sem var aðallega í því að troða upp á næturklúbbum. Brunette er líka meðlimur stelpubandsins En aghjiknery sem þýðir „þessar stelpur“. Bandið gaf út sitt fyrsta lag í fyrra og nokkur í framhaldinu. Lög hennar Night, Smoke Break og Light Blue Eyes hafa öll slegið í gegn á YouTube og eru með yfir milljón spilanir.
Armenía var fyrst með í Eurovision árið 2006 og er Future Lover fimmtánda Eurovisionlag Armena. Árangurinn hefur yfirleitt verið ágætur, best fjórða sætið sem Armenar náðu 2008 með Sirusho og 2014 með Aram MP3. Lagið í fyrra, Snap með Rosu Linn endaði í 20. sæti, en er trúlega vinsælasta og þekktasta Eurovisionlag Armena. Lagið sló í gegn á TikTok um sumarið og er í dag til dæmis næst mest streymda Eurovisionlagið á Spotify, komið með yfir 550 milljón streymi. Hið hollenska Arcade er eina lagið sem hefur oftar verið streymt. Nú er að sjá hvernig fer fyrir Armenum í ár. Eins og staðan er núna í veðbönkum er útlitið alveg þokkalegt.