Úrslit í söngvakeppni Litháa fyrir Eurovision, Pabandom iš naujo! Eða „Reynum aftur!“ fór fram á laugardaginn. Undankeppnir fóru fram tvo síðustu laugardagana í janúar þar sem 15 lög kepptu hvort kvöld og tíu komust áfram. Lögin sem höfðu komist áfram kepptu næstu tvo laugardaga í febrúar, tíu hvort kvöld, og komust fimm lög áfram í úrslitin hvort kvöld. Það voru því tíu lög sem kepptu til úrslita 18. febrúar. Kynnar voru Giedrius Masalskis, Augustė Nombeko og Richardas Jonaitis.
Úrslit réðust með atkvæðum níu manna dómnefndar og símakosningu almennings til helminga. Meðal þeirra sem voru í dómnefnd voru Jievaras Jasinskis, meðlimur InCulto, Vaidotas Valiukevičius, söngvari The Roop og Monika Liu sem var fulltrúi Litháa í Eurovision í fyrra. Hún flutti einnig tvö lög á keppninni, nýtt lag og auðvitað Sentimentai. Auk þess tróðu upp á úrslitakvöldinu Tvorchi, sem eru fulltrúar Úkraínu í ár, og Duncan Laurence sem sigraði keppnina 2019. Annars er öll keppnin á YouTube og áhugasamir geta horft á hana hér.
Í þriðja sæti varð Beatrich með lagið Like a Movie. Hún varð í 3ja sæti bæði í símakosningu og hjá dómnefnd. Í öðru sæti varð Rūta Mur með lagið So Low. Hún vann símakosninguna en varð í öðru sæti hjá dómnefnd. Einungis munaði 147 atkvæðum í símakosningunni á hennar lagi og laginu sem vann. Reglur keppninnar eru þannig að við þessar aðstæður er það dómnefndin sem hefur úrslitavald og því fór sem fór. Mörg höfðu spáð Rūta Mur sigri.
Niðurstaðan varð því sú að sigurvegarinn var aftur dama að nafni Monika, núna er það Monika Linkytė sem flytur lagið Stay og sigraði semsagt naumlega eftir æsispennandi keppni. Lagið samdi Monika sjálf ásamt Krists Indrišonoks og Jānis Jačmenkins. Samkvæmt Moniku fjallar lagið um mikilvægi þess að taka smá hlé og koma aftur til sjálfs sín.
Monika er ekki ókunnug Eurovision og er í raun sjálf að reyna aftur, eins og nafn keppninnar gefur til kynna. Hún tók þátt í Junior keppninni árið 2007 og svo tók hún þátt í litháensku forkeppninni árlega frá 2010-2015. Árið 2015 sigraði hún og fór í stóru keppnina. Þá söng hún lagið This Time ásamt Vaidas Baumila. Þau komust í úrslit og enduðu í 18. sæti.
Litháar voru fyrst með í Eurovision árið 1994 og fengu þá heldur betur skellinn; núll stig. Það tók þá fimm ár að safna kjarki og reyna aftur. Stay verður framlag númer 23. Litháar hafa enn ekki náð inná topp fimm, en hafa þrisvar endað á topp tíu; 2006, 2016 og 2021. Nú er spennandi að sjá hver niðurstaðan verður í ár. Monika keppir í seinni undankeppninni fimmtudagskvöldið 11. maí eins og við Íslendingar.