Sælar elskurnar mínar og gleðileg jólin og áramótin og allt þar á milli. Nú ætlar eftirlætis Gróan ykkar aldeilis að feta nýjar slóðir, því þess var farið á leit við hana á haustmánuðum, að skella í einn sjóðheitan áramótaannál þar sem stiklað verður á stóru á þessu epíska júróári sem er að líða. Og þar sem stjórn FÁSES eru sérstakir vinir Gróunnar var auðsótt mál af hennar hálfu að verða við þessari litlu bón, enda er Gróan ávallt með puttann á púlsinum og með einkaaðgang að heitustu fréttunum og ekki-fréttunum. Það borgar sig að þekkja rétta fólkið, krakkar mínir, o já. En nóg um það. Júró Gróan ykkar er nú ekki þekkt fyrir að blása í eigin lúður ef svo má að orði komast. Við skulum bara vinda okkur í fyrri hluta léttrar yfirferðar á júróárinu 2021-2022.
Desember 2021 – Búlgarska sjónvarpið tilkynnti í nóvember að rokksveitin Intelligent Music Project myndi vera fulltrúi landsins í Eurovision og Gróan var nú bara pínku spennt, enda blundar lítil rokkdrusla inn við beinið á henni, hvort sem þið trúið því eða ekki. Og lagið var ekki langt á eftir, því “Intentions” lenti þann 7. desember og var fyrsta framlag ársins þar með. Húrra!
Venjulega markaði desember alltaf upphaf júróársins þegar Festival i Kenges er hleypt af stokkunum. En það bar svo við um þessar mundir að krúttin í Albaníu voru bara ekkert að drífa sig í að koma með jólin til okkar, því FiK (eins og Gróan stakk upp á að skammstafa keppnina hérna á fundinum með albanska sjónvarpinu í den) var ekki á dagskrá fyrr en milli jóla og nýárs! Júróaðdáendur panikkeruðu næstum því… þangað til að elsku Tékkarnir redduðu málunum og skelltu í eina lauflétta forkeppni þann 16. desember. Dásamlegt að fá fyrsta framlagið með plötu af nýbökuðum engiferkökum. Og framlagið var nú ekkert slor. Tékknesk/norska tríóið We Are Domi komu sko með stuðið og jólin til okkar þegar þau teknódönsuðu sig inn í hjörtu okkar með smellinum “Lights Off”. Þeir láta nú ekki að sér hæða þarna í Prag og Þrándheimi.
En FiK var ekki langt undan, og þegar landinn og Gróan voru að renna niður síðustu hangikjöts tartalettunni, rúllaði hún Ronela Hajati í hlað í Tirana og færði okkur etníska vampírupoppið “Sekret”, skreytt með gervinöglum og attitjúdi fyrir allan peninginn. Og Ronela var sko ekki einu sinni hálfnuð með að setja sinn svip á júróvertíðina, því hún var og er sko ekki týpan sem læðist bara með veggjum og kinkar krúttlega kolli án þess að leggja orð í belg. Og gott hjá henni!
Janúar – Apríl 2022 – Ó já, nú var sko allt að gerast! Vertíðin var komin á fúll svíng og Gróan hafði vart undan að fylgjast með öllu havaríinu í Evrópu. Og hérna heima var nokkuð öflugt plotttvist í uppsiglingu líka! Gulir geimúlfar áttu hug og hjörtu frændsystkina okkar í Noregi og þar sem þeir voru grímuklæddir frá toppi til táar. Auðvitað komu upp mýmargar kenningar um hverjir væru svona feimnir og þyrftu að fela sig á bakvið grímur. Lífsseigasta sagan var sú að þetta væru bjútíbræðurnir í Ylvis, þeir Végarður og Bárður, en þeir sóru allt af sér og þá varð Gróan satt að segja pínulítið vonsvikin. En það átti eftir að koma í ljós seinna meir hverjir höfðu brugðið sér í úlfslíki og geimúlfarnir voru ekki alveg hættir að rugla í fólki. Meira um það síðar.
Í Svíþjóð kom snúllumúsin Cornelia Jakobs, sá og gjörsigraði Melodifestivalen, sem því miður var án hans Kristins Bjarkasonar, því kauðinn sá ákvað að elta ameríska drauminn og starta einhverju stórslysi sem hann kallaði American Song Contest. Liðið í Ameríkuhreppi var nú ekkert sérlega ginkeypt þrátt fyrir að stórstjörnur á borð við Kelly Clarkson, Snoop Dogg og Michael Bolton væru viðloðandi. Ég var búin að reyna að segja honum þetta á árlega spa-deginum okkar í Cannes, en hann var greinilega með eyrun full af þangi eða eitthvað, því hann hunsaði ráð Gróunnar algjörlega. Hann um það. En hún Cornelia virtist ekkert sakna hans því hún átti sko ekki í vandræðum með að trítla inn á topp fimm í stóru keppninni. Bra jobbat.
Allavega… Finnar voru við sama heygarðshornið og færðu okkur strangheiðarlegt léttmálmarokk og hljómsveitina The Rasmus, með litla, sæta skógarpúkann Lauri Ylönen í broddi fylkingar. Gróa man svo skýrt þegar sveitin var ennþá í bílskúrnum í Tampere að reyna að meika það og eftir að hún hringdi eitt eða tvö símtöl í Nuclear Records um aldamótin, fór loksins að rofa til hjá sveitinni. En ekki segja þeim neitt, Gróan er voða mikið fyrir að vera bara bak við tjöldin og samgleðjast einfaldlega blessuðum öðlingunum.
En í Danmörku voru þeir hjá DR ekki alveg að kveikja á hvað það er sem dregur athyglina að. Í staðinn fyrir að kjósa harðhausarapparana í Fuld Effekt og megaslagarann “Rave med de hårde drenge”, sem fékk nú fólkið aldeilis til að dilla sér (Gróan viðurkennir fúslega að hafa skellt í sig nokkrum Jägermeister skotum og hoppað þar til spandexbrækurnar rifnuðu) var danska þjóðin algjörlega á bandi stelpurokksveitarinnar REDDI, sem voru ekki alveg reddí. Dásamlegar stúlkur, og einstaklega viðkunnalegar og skemmtilegar, en lagið fór víst fyrir ofan garð og neðan í Tórínó. Elsku ljósin.
Hér á hinu ástkæra skeri okkar var svo sannarlega mikið um dýrðir þegar Söngvakeppninni var hleypt af stokkunum eftir tveggja ára hlé. En þar sem við megum svo sjaldan eiga eitthvað fallegt, ákvað einhver ólukkans framherðishornklofi að leka öllum keppnislögum á intervefinn nokkrum klukkutímum á undan áætlun og skemma þar með upplifun þeirra sem voru að bíða eftir kynningarþættinum með popp og kók. Jæja þá, þeir allra hörðustu ákváðu að hlusta ekki fyrr en búið væri að kynna þau opinberlega. Og það var mál manna að í ár væri keppnin okkar ástsæla með rólegra móti, en það var ákveðið met slegið í ballöðum. Auðvitað var nú stuð inn á milli og loksins ákváðu Reykjavíkurdætur að heiðra keppnina með nærveru sinni og flytja landanum kvennaóðinn “Tökum af stað”. Töldu flestir það formsatriði að halda keppnina því dætur höfuðborgarinnar væru vísir sigurvegarar. En aldrei skal taka neinu sem gefnu og aldrei skal vanmeta lágstemmt og notalegt álfakántrí í boði okkar allra dásamlegustu Lay Low og tríósins Systra (ásamt Eyþóri litla bróður þeirra) sem sungu sig algjörlega inn í hug og hjörtu Íslendinga og tryggðu sér miðann til Tórínó, flestum og ekki síst þeim sjálfum, að óvörum. Gróan var nú samt ekkert hissa. Hún þekkir sitt heimafólk. En kántríið fór til Tórínó og það var ekki eina kántríið, því Eistland og Armenía hoppuðu líka á kántrívagninn og þeir sem segja að kántrí sé týnd tónlistarstefna í nútímapopptónlist höfðu greinilega aldrei hitt hana Rosu Linn frá Armeníu. Stúlkan sú hefur sko aldeilis ekki sungið sitt síðasta.
To be continued…