Ný stjórn FÁSES kjörin á aðalfundi 2022


Ellefti aðalfundur FÁSES var haldinn á Ölveri fimmtudaginn 15. september sl. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf, svo sem skýrsla stjórnar þar sem farið var yfir það helsta sem stóð upp úr síðasta starfsári og samþykkt ársreiknings. Fjörugar umræður urðu um viðburðahald FÁSES þar sem félagar kölluðu eftir fleiri viðburðum nú þegar COVID takmörkunum hefur verið aflétt að fullu. Sérstaklega var rætt um að halda árshátíð í því sambandi en árshátíðin 2019 þótti heppnast ákaflega vel. Ljóst er að viðburðir FÁSES í kringum úrslit Söngvakeppninnar vekja stormandi lukku og var óskað eftir því á aðalfundinum að annað Júrókrús yrði haldið sem fyrirpartý fyrir úrslitin og að Júróklúbburinn yrði á sínum stað. Loks var kallað eftir því að efnt yrði til samáhorfs á Eurovision fyrir FÁSES-liða sem ekki fara á aðalkeppnina hverju sinni í anda þeirra vel heppnuðu viðburða sem haldnar hafa verið á Kex hostel síðustu tvö ár. Á fundinum þakkaði stjórnin ritstjórn FÁSES.is sérstaklega fyrir vel unnin skrif á liðnu ári.

Svo óvenjulega vildi til að kosið var til allra embætta á fundinum, þ.e. til formanns og ritara til eins árs ásamt hefðbundnu kjöri í stöður gjaldkera, alþjóðafulltrúa og kynningar- og viðburðarstjóra til tveggja ára. Ástæður þessa má rekja til þess að ekkert framboð barst til formanns á aðalfundinum 2021 og þurfti stjórn því að nýta heimild samþykkta FÁSES til að skipa í stöður. Ritari FÁSES baðst síðan lausnar frá stjórnarstörfum síðsumars. Á fundinum var Ísak Pálmason, fyrrum gjaldkeri FÁSES, kosinn formaður, Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritstjóri FÁSES, var kjörin ritari, Halla Ingvarsdóttir frá Norðurlandsútibúi FÁSES var kjörinn gjaldkeri, Heiður Dögg Sigmarsdóttir, áður varafulltrúi FÁSES, var kosin alþjóðafulltrúi og Ásgeir Helgi Magnússon var kjörin kynningar- og viðburðarstjóri en hann kemur nýr inn í stjórn FÁSES. Fjögur buðu sig fram í tvö embætti varafulltrúa og voru Kristín H. Kristjánsdóttir og Gísli Ólason Kærnested kosin í varastjórn FÁSES en þau hafa bæði áður verið varafulltrúar.

Fyrir þau sem vilja kynna sér nánar hvað fór fram á aðalfundinum er fundargerð fundarins að finna hér á vef FÁSES.