30 ár í dag: Sigurganga Íra á tíunda áratugnum hefst


Toto Cutugno söng um sameinaða Evrópu árið 1992 í sigurlagi sínu Insieme: 1992 í Eurovisionkeppninni 1990. Evrópa hefur ekki sameinast enn, en Evrópusambandið var stofnað þann 7. febrúar 1992, þannig að spár Totos rættust að vissu leyti. En Eurovisionkeppni númer 37 var haldin þann 9. maí 1992 í Malmö Isstadion í Svíþjóð eða fyrir nákvæmlega 30 árum. Níundi maí er einmitt svokallaður Evrópudagur, dagur Evrópusambandsins, og er þetta ekki í eina skiptið sem Eurovision hefur verið á þeim degi eftir þetta.

Kynnar keppninnar voru Lydia Capolicchio og Harald Treutiger. Nýtt þáttökumet var sett en 23 þjóðir tóku þátt. Þetta voru allt þjóðir sem höfðu einhvern tímann tekið þátt til þessa nema Mónakó og Marokkó. Júgóslavía var með í síðasta skiptið, enda var hún hreinlega ekki til ári síðar, og lönd fyrrum Júgóslavíu fóru strax að taka þátt ári síðar. Við Íslendingar náðum 7. sæti sem var okkar næstbesti árangur þá og fimmti besti árangur núna þegar Heart 2 Heart flokkurinn flutti lagið Nei eða Já. Blindur maður keppti í fyrsta sinn, Serafín Zubiri fyrir Spán. Hann keppti einnig átta árum síðar. Gestgjafarnir sjálfir, Svíar, enduðu í næstsíðasta sæti þegar Christer Björkman söng lagið I morgon är en annan dag. Tíu árum síðar tók Christer við framleiðslu Melodifestivalen og starfaði við það í 20 ár en hans síðasta keppni var í fyrra. Hann tók svo til við að aðstoða Bandaríkjamenn við stofnun American Song Contest sem hófst í mars sl. en lokakvöld keppninnar er einmitt í nótt.

Lögin sem enduðu í þremur efstu sætunum voru öll sungin á ensku. Við það hófst umræða um hversu ósanngjarnt það væri að þjóðir þurfi að syngja á opinberu tungumáli þjóðarinnar. Þessi umræða var ekki að fara fram í fyrsta og heldur ekki síðasta skipti. Malta varð í þriðja sæti, Mary Spiteri með lagið Little Child. Mary hafði reynt að vera fulltrúi Möltu í Eurovision áður, en hún tók þátt í undankeppninni þar í landi árin 1971 og 1975. Hún reyndi síðan aftur 2008 en hafði þá ekki erindi sem erfiði.

Bretar urðu enn og aftur í öðru sæti, Michael Ball með lagið One Step Out of Time. Michael hafði slegið í gegn í söngleikjunum Les Misérables og The Phantom of the Opera á níunda áratugnum. Hann náði svo öðru sæti breska vinsældarlistans árið 1989 með lagið Love Changes Everything sem hann söng ásamt Il Divo tríóinu. Lagið er úr söngleikum Aspects of Love.

Sigurvegarinn kom frá Írlandi. Linda Martin söng lagið Why me eftir Johnny nokkurn Logan. Það var trúlega lítil sigurvon strax í upphafi fyrir aðra keppendur. Linda hafði einnig sungið lag Johnnys Terminal Three í keppninni 1984 og þá urðu þau í öðru sæti. Linda var nýorðin fertug þegar hún vann keppnina og er enn elsta konan sem hefur unnið Eurovision. Hún hélt því upp á sjötugsafmælið sitt í mars síðastliðnum. Johnny Logan á tvær aðrar Eurovisionþátttökur að baki eins og trúlega flestir sem þetta lesa vita. Hann vann með lagið What´s Another Year árið 1980 og sjö árum síðar sigraði hann aftur með eigið lag, Hold me Now. Þarna var einnig að hefjast sigurganga Íra en þeir unnu þrjár af næstu fjórum keppnum. Johnny Logan er enn eini flytjandinn sem hefur unnið Eurovision tvisvar. Þótt Johnny sé eini flytjandinn sem hefur náð því hafa fjórir aðrir náð því að semja tvö Eurovision sigurlög. Það eru Willy van Hemert, Yves Dessca, Brendan Graham og Rolf Løvland.