Eurovisionsviðið í Tórínó bilað


Síðast þegar Eurovision var haldið á Ítalíu árið 1991 gekk það ekki áfallalaust fyrir sig. Toto Gutugno, sigurvegarinn sem söng Insieme: 1992, hafði lent í því svarti hárliturinn rann í hvítu jakkafötin þegar hann söng sigurnúmerið að nýju árið 1990 og keppninni 1991 hefur verið lýst sem Allora-keppninni því Toto, sem var þá kynnir sagði í sífellu þegar vandræði voru í útsendingunni (sem var oft!): Allora!

Svo virðist sem bölvun Totos lifi enn því skipuleggjendur Eurovision í Tórínó eiga ekki sjö dagana sæla. Ítalir voru með metnaðarfull plön fyrir hönnun sviðsins í ár sem er hannað af Francescu Montinaro. Sviðið líkist sól með hreyfanlegum bogum og hefur verið kallað “kinetic sun”. Öðru megin á sólinni eru ljós en hinum megin eru LED-skjáir. Á þessu myndbandi má sjá hvernig sviðið á að virka.

Frá því að æfingar hófust í Tórínó 30. apríl hafa borist fréttir af því að sviðið virki ekki sem skyldi og að nokkrar þátttökuþjóðir hafi þurft að breyta sviðsetningu sinni til að aðlaga atriðið að breytingunni. Málmbogarnir sem voru hannaðir til að vera á hreyfingu hreyfast víst alls ekki. Nokkrar ástæður hafa verið nefndar, m.a. sú að bogarnir hreyfist ekki vegna þess að vatn komst í mótorinn. Því hefur einnig verið fleygt að sviðið geti hreyfst en það taki bara of langan tíma að snúa bogunum til þess að það sé hægt að nota þá. Á blaðamannafundi með sviðshönnuðinum, Francescu Montinaro, kom fram í máli hennar að sviðið virkaði vel og keppendur hefði verið mjög ánægðir með það. Hún vildi þó ekki svara spurningum um hvernig það virkaði því það ætti að koma á óvart.

Í gær sagði DR frá því að danska sendinefndin hefði þurft að breyta sviðsetningu danska lagsins sem Reddi flytur. Var upphaflega áætlað að Reddi myndi nota þá hlið sólarinnar sem er þakin LED skjám en vegna erfiðleika við að hreyfa sólina hefur verið ákveðið að eingöngu ljósahlið sólarinnar snúi fram. Þetta hefur gert það að verkum að breyta hefur þurft sviðsetningu danska lagsins á elleftu stundu. Lettneska sendinefndin hefur einnig látið hafa eftir sér að ekki verði hægt að sviðsetja atriði Moniku Liu eins og upphaflega var áætlað. Heyrst hefur að ekki náist að lagfæra vandamálið áður en beinar útsendingar Eurovision hefjast. Til að viðhafa jafnræði við sviðsetningu allra 40 framlaganna hefur EBU, í samráði við ítalska sjónvarpið RAI, ákveðið að eingöngu ljósahlið sólarinnar snúi fram.

FÁSES.is hafði samband við Salóme Þorkelsdóttur, upptöku- og útsendingastjóra RÚV sem er úti í Tórínó, til að kanna hvort þessi sviðsbilun hefði haft áhrif á atriði Systranna. Að sögn Salóme stóð til upphaflega að hafa málmbogana á hreyfingu á sviðinu en eftir að hópurinn fékk að skoða stand-in æfinguna (prufuæfing fyrir íslenska atriðið sem er gerð af skipuleggjendur keppninnar í aðdraganda Eurovision) þá hafi þau séð að þetta hafi ekki verið virka. Íslenski hópurinn óskaði því eftir því að sólin yrði óhreyfð á sviðinu. Engin vandræði fylgja því að ljósahlið sólarinnar snúi fram fremur en LED-skjárinn því það hentar íslenska atriðinu betur því stemningin í “Með hækkandi sól” er 70’s tónleikafílingur. Bilunin í sviðinu í Tórínó hefur því ekki áhrif á sviðsetningu íslenska framlagsins.

Það er léttir að fá þetta staðfest og við getum ekki annað sagt en að íslenska atriðið líti stórkostlega út á sviðinu í Tórínó.