Malik Harris vinnur Germany 12 points


Þjóðverjum hefur ekki gengið vel undanfarin ár í Eurovision. Ef frá er talið 4. sæti Michael Schulte árið 2018 þá hefur uppskeran verið ansi slök. Þeir hafa ýmist valið innbyrðis eða verið með undankeppni og í ár var keppandinn valinn í undankeppni þar sem símaatkvæði giltu 50% á móti 50% netkosningu hjá opinberum útvarpsstöðvum allra sambandsríkjanna innan Þýskalands.

Yfir 900 lög voru send í undankeppnina, Germany 12 points, og af þeim voru 6 lög valin til flutnings. Reynt var að halda í fjölbreytnina og voru keppendur allt frá ungum upprennandi tónlistarmönnum til miðaldra rappara. Keppnin var þó ekki án dramatíkur frekar en aðrar undankeppnir þetta árið. Hljómsveitin Eskimo Callboys og aðdáendur þeirra voru mjög ósáttir við að vera ekki valdir áfram og hafa herjað á samfélagsmiðla og forsvarsmenn keppninnar til að láta í ljós óánægju sína.

Lífið í Evrópu hefur breyst hratt undanfarna daga og bar útsending Germany 12 points þess merki. Ákveðið var að skella á fjáröflunarþætti til styrktar flóttafólki frá Úkraínu sem fléttaðist saman við útsendingu undankeppninnar. Greinilegur samhugur var með úkraínsku þjóðinni þar sem bláu og gulu fánalitirnir voru áberandi í sjónvarpssal og meðal annars breytti einn af þátttakendum keppninnar, rapparinn Nico Suave & Team Liebe texta sínum vegna átakanna.

Sigurvegarar netkosninga útvarpsstöðvanna var indí popptvíeykið Maël & Jonas með hið útvarpsvæna I Swear to God. Það hlaut fullt hús stiga frá nær öllum útvarpsstöðvunum og fengu þeir, Maël & Jonas 106 stig.

Malik Harris, ungur tónlistarmaður og rappari, var með 90 stig og Felicia Lu, ung söngkona sem áður hefur tekið þátt í undankeppninni 2017 var með 74 stig. Henni gekk þó ekki vel í símakosningunni né Maël & Jonas sem urðu aðeins þriðju og var það Malik Harris sem á endanum vann hana og tryggði þar með sigur sinn. Nico Suave & Team Liebe fengu næstflest stig í símakosningunni.

Malik Harris er ungur þýsk-bandarískur rappari og söngvari sem skaust fram á sjónarsviðið 2018 og hefur meðal annars verið opnunaratriði fyrir James Blunt. Pabbi hans, Ricky Harris er einnig tónlistarmaður en líklega betur þekktur sem þáttastjórnandi og þáttakandi í raunveruleikaþættinum Jungle Camp. Hann var staddur á keppninni og grét gleðitárum yfir sigri sonarins.

Lagið hans Malik, Rockstars, er á persónulegum nótum, hann vísar í eigin persónulega erfiðleika og hversu gott það var að vera saklaust barn sem telur sig ósigrandi. Lagið er popplag með ljóðaslammi um miðbikið og ekki laust við að það minni mann á lag hins sænska Frans If I were sorry. Þjóðverjar yrðu án efa mjög sáttir ef Rockstars fær svipaðar viðtökur og If I were sorry.

Það var þó Jamala sigurvegari Eurovision 2016 sem að öðrum ólöstuðum var hápunktur keppninnar. Jamala sem nú er orðin flóttamaður vegna stríðsins í Úkraínu flúði fyrir örfáum dögum til Rúmeníu og þaðan til Tyrklands með börn sín en maðurinn hennar varð eftir enda á herskyldualdri. Jamala mætti til Þýskalands til að tala máli þjóðar sinnar og vekja athygli á hryllilegum aðstæðum fólks. Sigurlag hennar 1944 fjallar um nauðungarflutninga krímverskra Tatara sem Stalín fyrirskipaði árið 1944 þegar á milli 200-300 þúsund Tatarar voru fluttir nauðugir til Úzbekistan og létust tugþúsundir á leiðinni eða á áfangastað þar sem bjargráð voru nær engin. Tatarar fengu ekki að snúa til baka fyrr en um hálfri öld seinna. Í dag flýja milljónir manna vegna stríðs Pútíns og segir Jamala það vera skyldu sína að vekja athygli á því enda aðrir flóttamenn ekki í sömu aðstöðu og hún. Flutningur hennar á laginu var gríðarlega áhrifamikill og féllu mörg tár í sjónvarpssal sem og annars staðar. Í framhaldi af því minnum við á að bæði UN Women og Rauði krossinn er að safna fyrir fólk á flótta. Hægt er að senda sms KONUR í síma 1900 í söfnun UN Women til styrktar konum og börnum á flótta og sms HJALP í síma 1900 í neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir flóttafólk.