Angurvær Ochman og áin unnu í Póllandi


Pólland hefur tekið þátt í Eurovision söngvakeppninni frá árinu 1994 og náði þá strax 2. sæti með lagi Edyta Górniak, To nie ja! Það er reyndar besti árangur Póllands nokkru sinni. Pólland hefur aðeins lent tvisvar til viðbótar á topp tíu, meðal annars með hinu frábæra lagi Michał Szpak, Color of your life, með tvöföldu júróhækkuninni sem lenti í 8. sæti árið 2016. En undanfarin ár hafa verið fremur mögur og komust Pólverjar síðast í úrslit 2017.

Í ár var þó mikil spenna í loftinu enda spurðist út að Ochman, vinsæll sigurvegari The Voice þar sem mentorinn hans var fyrrnefndur Michał Szpak, hefði sent lag inn í pólsku undankeppnina. Voru ýmsir júróspekingar handvissir um að þar færi besti möguleiki Póllands til að ná góðum árangri. En það voru þó fleiri sem sendu lög inn í keppnina. Þar á meðal fyrrum keppandi Póllands í Eurovision 2009, Lidia Kopania, annar The Voice keppandi Daria og hljómsveitin Unmute en þau syngja lag sitt á táknmáli.

Úrslitakeppnin var haldin 22. febrúar og var fyrirkomulagið þannig að tíu keppendur fluttu sín lög og síðan var það dómnefnd og símakosning (með 50% vægi hvor fyrir sig) sem völdu þrjú stigahæstu lögin áfram í lokaumferðina þar sem enn og aftur var það dómnefnd og símakosning áhorfenda sem réði hver niðurstaðan yrði. Það fór svo að Ochman með lagið River, Daria með lagið Paranoia og Unmute með lagið Głośniej niż decybele fóru áfram í lokaumferðina. Þar lenti Unmute í 3. sæti með þetta stórskemmtilega lag Głośniej niż decybele sem samkvæmt google translate þýðir háværari en desíbel.

Daria vann dómnefndakosninguna en lenti í 2. sæti í heildina. Lagið hennar nýtur þó mikilla vinsælda nú þegar í Póllandi og öðrum löndum í kring enda skemmtilegt popplag.

Eins og áður sagði var það Krystian Ochman sem syngur undir listamannsnafninu Ochman sem vann að lokum og er Pólland núna í 4. sæti veðbankanna yfir líklegustu sigurvegara Eurovisionkeppninnar. Ochman syngur lagið River gullfallega eins og hann á ættir til að rekja enda afi hans þekkur tenórsöngvari í Póllandi. Krystian Ochman fæddist reyndar í Bandaríkjunum og ólst þar upp en þegar hann hafði lokið framhaldsskóla var það afi gamli sem fékk hann til að flytja til Póllands og hefja nám við tónlistarháskóla í heimaborg sinni Katowie. Reyndist það happafengur enda hefur tónlistarferill Ochmans blómstrað síðan þá.

Það er þó ekki hægt að ljúka þessum pistli án þess að tala um aðalmál pólsku undankeppninnar. Skömmu eftir að henni lauk birtu lagahöfundarnir og sænsku systurnar Linda og Ylva Person færslu á Facebook þar sem þær lýstu því yfir að lagið sem Lidia Kopania flutti í undankeppninni hefði alls ekki verið það lag sem þær sömdu og fengu Lidiu til að flytja. Lýstu þær yfir vonbrigðum með þessa ákvörðun hennar og ófagmennsku. Lidia sjálf veitti viðtal eftir keppnina þar sem hún sagðist vissulega hafa breytt textanum. Ýmsar ástæður gjörningsins voru taldar upp; hún er aðdáandi Monty Python, hún vildi minnast föður síns og bróður sem létust báðir á síðasta ári og hún taldi fullvíst að hún væri aldrei að fara að vinna keppnina og því best að gera eitthvað ógleymanlegt. Það er þó ekki víst að lagahöfundar muni bíða í röðum að biðja hana um að flytja lög sín eftir þetta. Hér er flutningur Lidiu á laginu.

Og hér er lagið í þeirri mynd sem átti að flytja það á sviðinu. Dæmi hver sem vill hvor flutningurinn er betri og líklegri til vinnings.