Í skugga milliríkjadeilu við Rússa gerðu Úkraínumenn sér glaðan dag á laugardagskvöldið síðastliðið til að velja framlag sitt í Eurovision í stórglæsilegri sjónvarpsútsendingu frá Kænugarði. Ekkert var til sparað til að gera útsendinguna sem flottasta og fáar þjóðir sem geta státað af jafn fjölbreyttri og skemmtilegri keppni með aðeins átta lögum sem tekur fjórar klukkustundir að flytja – því afhverju að hafa útsendinguna bara tvær klukkustundir þegar þú getur haft þær fjórar? Lögin sem mættu til keppni voru allt frá eðal latínópoppi (að sjálfsögðu á úkraínsku), óðs til Pollapönks og Lake Malavi í einum hrærigrauti, þjóðlegri tóna og allt þar á milli. Í lok kvölds þegar fréttaritari var kominn með vænt legusár í sófanum af langsetunni og eftir u.þ.b. hálftíma stigagjöf sem fréttaritarinn skildi ekkert í, var það söngkonan Alina Pash sem stóð uppi með pálmann í höndunum með lagið Tini zabutykh predkiv sem gæti útlagst á íslensku sem Skuggar gleymdra forfeðra.
Á þessari stundu er ekki ljóst hvort að Alina verði fulltrúi Úkraínu í Eurovision þar sem rannsókn er í gangi hvort hún hafi falsað pappíra til að komast inn í keppnina. Eftir heilmikið havarí í Vidbir 2019 þegar söngkonan Maruv sigraði keppnina og neitaði að falla frá skipulagðri tónleikaferð til Rússlands í aðdraganda Eurovision dró úkraínska sjónvarpið sig úr keppni í Eurovision. Þess vegna steig Maruv aldrei á svið í Tel Aviv, nokkuð sem Eurovision aðdáendur syrgja enn. Í kjölfarið var reglum Vidbir breytt þannig að til að vera gjaldgengur í keppninni mega keppendur hvorki hafa spilað á tónleikum í Rússlandi frá árinu 2014 né hafa ferðast yfir landamæri Krímskaga frá Rússlandi. Rannsóknin á Alinu og fölsuðum pappírum hennar gengur einmitt út á það að fá úr því skorið hvort hún hafi brotið síðarnefndu regluna og ferðast til Krímskaga frá Rússlandi.
En saklaus uns sekt er sönnuð svo við höldum áfram umfjöllun um Alinu þangað til nýjar fréttir berast um kjörgengi hennar frá Kænugarði. Alina er fædd á því herrans ári 1993 í litlum smábæ í suðvestur Úkraínu nálægt landamærum Rúmeníu. Hún byrjaði að syngja opinberlega þegar hún var þrettán ára á hinum ýmsu tónlistarhátíðum víðsvegar um Úkraínu og eins og margir keppendur í forkeppnum Eurovision reis hún upp á stjörnuhimininn eftir að hafa tekið þriðja sætið í X-Factor í Úkraínu árið 2015.
Söngstíll Alinu er blanda af hipp hoppi, rappi og Karpatafjalla söngstílnum sem er kenndur við næst lengsta fjallgarð Evrópu sem teygir sig frá Póllandi til Rúmeníu framhjá heimabæ hennar Bushtyhána. Lagið Skuggar gleymdra forfeðra er byggt á bestu kvikmynd úkraínskrar kvikmyndasögu sem kom út árið 1964 og gerist á heimaslóðum Alinu. Í laginu reifar hún sögu heimkynnanna og kallar eftir frið og von til framtíðar sem snertir djúpt áheyrendur á þessum víðsjárverðu tímum í sögu Úkraínu og Evrópu. Í laginu heyrast kunnuglegir lúðrablæstrir frá trembítum, samskonar lúðrum og Ruslana notaði í Wild Dancers. Alina syngur bæði á úkraínsku og ensku, en í upphafi og lokum flutningsins gaggar hún tóna sem fréttaritara hefur ekki tekist að finna út úr hvort að sé tegund af Karpatafjalla söng eða bara eðal flipp.
Söngvakeppnin sem heitir reyndar á frummálinu Yevrobachennia: Natsionalnyi Vidbir er í daglegu tali kölluð Vidbir eða einfaldlega Valið á íslensku , hefur verið haldin með svipuðu sniði síðan árið 2016. Í ár var óskað eftir innsendum lögum og dómnefnd valdi úr 27 lög til að taka þátt í áheyrnarprófum þar sem átta lög komust áfram og fengu tækifæri til að stíga á svið í beinni útsendingu frá Miðstöð menningar og lista í þjóðarflugháskólanum í Kænugarði (já, það er víst ein af undirstofnunum þjóðarflugháskólans). Dómnefnd kvöldsins var skipuð Tinu Karol (2006), Jamölu (sigurvegarans 2016) og Jaroslav Lodyhin sem var fulltrúi útvarpsráðs úkraínska sjónvarpsins og höfðu þau helmings atkvæði á móti símakosningu.
Í beinni útsendingu getur allt gerst og það varð svo sannarlega raunin sem mætti kynnum kvöldsins Mariu og Timur. Sem betur fer eru þau reynsluboltar úr faginu eins og Eurovision aðdáendur muna eflaust frá Eurovision 2005 þar sem Maria var kynnir og 2017 þegar Timur var kynnir. Alina var í uppáhaldi hjá dómnefndinni en þegar átti að kynna stig þjóðarinnar bilaði stigataflan svo það kom því í hlut Timur að lesa upp stigin af blaði þar sem kom í ljós að Alina lenti í öðru sæti hjá þjóðinni. Þessi bilun átti eftir að verða afdrifarík því silfurmedalíuhafarnir í Kalush Orchestra hafa kært niðurstöðu kosningarinnar og sjónvarpsstöðina fyrir að hafa falsað niðurstöðurnar. Úkraínska sjónvarpið og endurskoðendur keppninnar hafa stigið fram og halda því fram að niðurstöðurnar séu réttar og að tæknilegir örðugleikar hafi ekki haft nein áhrif á niðurstöðurnar. En hvað sem því líður þá var það Alina okkar sem stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins – hvort sem hún fær svo að vera fulltrúi Úkraínu í Tórínó eða ekki.
Úkraínumenn buðu upp á stórkostleg skemmtiatriði á milli þess sem við kynntumst keppendum nánar (þ.e.a.s. þeir sem skilja úkraínsku). Fyrst ber að nefna Íslandsvinina í Go_A sem fluttu lagið Shum og opnuðu útsendinguna eins og þeim einum er lagið. Dómnefndarfulltúrarnir Jamala og Tina Karol fluttu báðar lög og svo fluttu fjórar stjörnur úr Eurovision unga fólksins syrpu af úkraínsku Eurovision smellunum 1944, Shum, Danshing Lasha Tumbai og Wild Dances.
Úkraína tók fyrst þátt í Eurovision árið 2003 og hefur aldrei setið eftir í undankeppninni í þau fimmtán skipti sem þau hafa tekið þátt í Eurovision. Ekki nóg með það heldur hafa þau fjórtán sinnum endað í tíunda sæti eða ofar, fimm sinnum verið í topp þremur og sigrað tvisvar, geri aðrir betur! Það er því ljóst að ef Alina tekur þátt í Eurovision í Tórínó verður pressan mikil – en á sama tíma verður það að teljast harla ólíklegt að hún komist ekki áfram í úrslitin, enda hefur lagið allt það sem þarf til að gera flott atriði.
Fyrir áhugasama er hægt að horfa á útsendinguna alla í myndbandinu hér að neðan: