10 ár í dag: Hlaupandi hræðsla, brjáluð ást, vinsældir og dreifð stigagjöf


Eurovisionkeppnin árið 2011 fór fram í Espirit Arena í Düsseldorf 10, 12. og 14. maí. Lokakvöldið var því fyrir akkúrat 10 árum í dag. Kynnar voru Anke Engeleke, Judith Rakers og Stefan Raab. Stefan var ekki að koma að Eurovision í fyrsta sinn. Hann var höfundur og hljómsveitastjóri lagsins Guildo hat euch lieb árið 1998, flutti sjálfur eigið lag Wadde hadde dudde da árið 2000 og samdi lagið Can´t Wait Until Tonight árið 2004. Þessi lög voru öll framlög Þýskalands. Árið 2010 var hann svo stofnandi og formaður dómnefndar í þættinum Unser Star für Oslo þar sem framlag Þýskalands til Eurovisionkeppninar var valið. Það reyndist vel heppnað því Þýskaland vann Eurovision það árið þegar Lena Meyer Landrut sigraði með lagið Satellite. Lena keppti svo aftur þetta árið. Það hafði aðeins gerst einu sinni áður að sigurvegari árins á undan keppti aftur næsta ár á heimavelli, en Lys Assia gerði það árið 1957. Lena söng lagið Taken By a Stranger og endaði í 10. sæti.

Þátttökuþjóðir voru aftur 43 eins og árið 2008 og voru Ítalir með í fyrsta skiptið síðan 1997. Það hefur lengi verið algengt að Eurovisionlög heiti einföldum nöfnum. Árið 2011 kepptu meðal annars lögin Da Da Dam, Boom boom, Haba Haba og Ding Dong, það síðastnefnda flutt af fyrrum sigurvegara, Dönu International. En það var bara Da Da Dam sem komst áfram og eftir þetta tóku svona nafngiftir sér – kannski loksins – hlé. Það liðu átta ár þar til svona lag kom næst, Sehrat með lagið Say Na Na Na. Dana og Lena voru ekki einu keppendurnir sem kepptu aftur. Það á einnig við um Dino Merlin frá Bosníu-Herzegóvínu, Zdob si Zdub hópinn frá Moldavíu og Gunnar okkar Ólason. Lag númer 1200 var í þessari keppni, Live it Up frá Tyrklandi og var það meðal tíðinda ársins að það kæmist ekki áfram.

Fyrir Ísland kepptu Vinir Sjonna, en höfundur lagsins, Sigurjón Brink, lést í ársbyrjun 2011. Lagið sem þeir fluttu heitir Coming Home. Fremstur í flokki vinanna var Matthías Matthíasson. Meðan á dvölinni í Düsseldorf stóð hljóðrituðu þeir írska Eurovisionlagið What´s Another Year frá árinu 1980. Höfundur lagsins Shay Healy heyrði þessa nýju útgáfu af laginu í útvarpinu þegar hann var að keyra son sinn út á flugvöll. Hann hreyfst mjög af söngnum og fór bara að gráta. Hann hringdi í útvarpið og spurði hver hafi sungið og hafði samband við Matthías í framhaldinu. Shay agði honum að hann hafði alltaf dreymt um þessa útgáfu og þennan söng af laginu. Healy er nýlátinn, en hann lést þann 10. apríl síðastliðinn, 78 ára að aldri.

Svíar enduðu í 3ja sæti. Það var Eric Saade sem flutti lagið Popular eftir Fredrik Kempe. Saade braut ekki blað, heldur fyrsta glerið í Eurovision. Eric gerði garðinn fyrst frægan með strákabandinu What´s Up. Meðal annarra meðlima voru Robin Stjernberg sem var fulltrúi Svía árið 2013. Eric hefur lengi verið viðloðinn Melodifestivalen. Hann söng fyrst lagið Manboy árið 2010. Árið eftir vann hann svo semsagt. Árið 2015 keppti hann með lagið Sting og í ár keppti hann einu sinni enn með lagið Every Minute og endaði í öðru sæti. Eric var kynnir á Melodifestivalen árið 2019.

Ítalir urðu í 2. sæti, en þeir voru með í fyrsta sinn síðan 1997. Þessum árangri náðu þeir aðallega fyrir tilstilli dómnefnda sem eftir þetta hafa haft helmingsvægi á móti símakosningu. Lagið heitir Madness of Love og er fyrsta framlag Ítala sem er ekki eingöngu á ítölsku. Það var Raphael Gulazzi sem flutti, en lagið er eftir hann sjálfan. Raphael hefur tekið aftur þátt í San Remo keppninni eftir þetta og reynt að komast í Eurovision aftur. Árið 2013 flutti hann lögin Senza ritegno og Sai (ci basta un sogno). Ári síðar flutti hann lögin Liberi o no og Tando ci sei ásamt bandinu The Boody Beetroots. Hann tók svo síðast þátt árið 2020 með lagið Carioca.

Sigurlagið var aftur á móti frá Azerbijan, Running Scared. Ell og Nikki eða Eldar Gasimov og Nigar Jamal fluttu. Lagið er eftir Stefan Örn, Söndru Bjurman og Iain James Farquharson. Stefan og Sandra hafa samið nokkur önnur Eurovisionlög með góðum árangri, en Iain hefur samið lög fyrir ýmsa þekkta tónlistarmenn, eins og One Direction, Little Mix og Olly Murs. Ell og Nikki störfuðu saman í tónlist næstu tvö ár eftir keppnina. Eldar var kynnir á keppnini í Azerbaijan árið eftir.

Stigagjöfin var nokkuð dreifð og óvenju lítið fyrirsjáanleg. Þó voru nokkrir fastir fyrirsjáanlegir póstar. Kýpur gaf Grikklandi auðvitað fullt hús stiga, Moldóva gerði eins við Rúmeníu, San Marínó við Ítalíu og Ísland gaf Danmörku að sjálfsögðu 12 stig. Það krúttlega var að 20 af 25 þjóðum á lokakvöldinu fengu allavega einu sinni 12 stig. Það var þá met. Öll löndin nema aumingja Eistland fengu 8 stig eða meira og voru því lesin upp í stigagjöfinni. Þegar stigagjöfin var hálfnuð var Eric Saade efstur, en hafði þá enn ekki fengið 12 stig. Það var Bosnía-Herzegóvína sem fékk flestar tólfur, alls fimm, en endaði í sjötta sæti.