Gróa og vinir hennar voru með hitting á Zoom á sunnudagskvöldið þar sem þau reyndu að endurskapa Euroklúbbinn epíska – sem gekk líka svona vel að hún var allan mánudaginn að díla við afleiðingarnar sem voru vægast sagt þunnar.
Norski Tix er yfir sig hrifinn af asersku Efendi og syngur henni ástaróð á hverju kvöldi af svölunum á hóteli norska hópsins. Gróa er ekki parsátt með hann Tix sinn og skilur ekki hvers vegna hann syngur ekki til sín frekar en Efendi.
Góðar tengingar Gróu í Eurovision heiminum leiða hana oft á diplómatískar slóðir. Aserska sendinefndin er einmitt búin að vera í bandi við hana og biðja hana um að hjálpa sér að koma af stað kosningablokk með nokkrum þátttökuþjóðum. Úkraínskir fjölmiðlar eru komnir á snoðir um málið og segja að í bandalaginu séu auk Asera; San Marínó, Króatía, Malta og Georgía.
Margir öfunda Gróu og þá sem eru í sömu stöðu og hún með aðgang að rafrænu blaðamannahöllinni. Svo mikil er öfundin að menn eru til í að afhenda myndir af einkastöðum sínum í skiptum fyrir rafræna aðganginn – Gróa hefur reyndar ekki fengið boð, en spurning hvort hún sé á rétta stefnumótaforritinu til að þessi skilaboð komist til skila til hennar.
Gróa lenti á spjalli við einn góðan vin sinn á Zoom sem einmitt vill svo skemmtilega til að er búinn að vingast við makedónísku sendinefndina úti í Rotterdam. Gróa stóðst ekki mátið að spyrja hann út í húðflúrin á upphandlegg Vasils en sá vildi nú ekki segja mikið annað en það að þau hafa sérstaka meiningu í heimi samkynhneigðra karlmanna.
Þangað til næst.