Rússar bjóða upp á sterka(r) rússneska(r) konu(r) í formi Manizha með lagið “Russkaya zhenschina (Russian woman)”


Síðustu ár hafa Eurovision aðdáendur verið látnir bíða með öndina í hálsinum varðandi val Rússa á framlagi þeirra. Árið í ár var engin undantekning og náðu Rússarnir meira að segja að hækka spennustigið meira en vanalega.

Margir aðdáendur óskuðu eftir því að hljómsveitin Little Big, sem átti að keppa fyrir hönd Rússlands í fyrra með lagið “Uno“, fengi nýtt sett af flugmiðum til Rotterdam og lengi vel staðfesti orðrómur þá ósk. En Rússarnir tóku því ekki fagnandi að vera fyrirsjáanlegir og ákvaðu að henda í eina af heitustu sögufléttum ársins í staðinn.

Förum yfir tímalínuna:

Í lok febrúar héldu rússneskir fjölmiðlar því fram að búið væri að velja Little Big sem fulltrúa Rússlands fyrir Eurovision 2021.

2. mars var hins vegar staðfest að framlag Rússa yrði valið í gegnum forkeppni sem yrði haldin þann 8. mars og bæði lag og flytjandi yrði valinn með símakosningu.

Næstkomandi viku voru miklar vangaveltur um hverjir myndu taka þátt í forkeppninni og hvort hún myndi yfir höfuð vera haldin. Voru Rússarnir kannski bara að draga okkur aðdáendurna á asnaeyrunum og ætluðu sér að tilkynna þann 8. mars að Little Big yrðu eftir allt saman fulltrúar Rússlands í ár? Eða höfðu Little Big kannski verið búin að samþykkja að flytja framlag Rússlands í ár en eitthvað ósætti komið upp á milli hljómsveitarinnar og rússneska sjónvarpsins? Eða voru Rússar kannski bara með buxurnar algjörlega á hælunum og voru að reyna að fela það með því að búa til atburðarás til að halda aðdáendum á tánnum? Þetta eru einungis nokkur dæmi af skýringum sem flökkuðu á milli manna í aðdáendaheimi Eurovision.

7. mars, degi fyrir áætlaða forkeppni, hafði enn ekki komið nein staðfesting á því hverjir myndu taka þátt í þessari forkeppni. Little Big var ennþá á lista yfir mögulega keppendur en ekkert heyrðist í rússneska sjónvarpinu.

8. mars, á keppnisdaginn sjálfan, var ennþá verið að velta því fyrir sér hverjir myndu taka þátt í forkeppninni. Hér var þó nánast orðið ljóst að Little Big myndu ekki taka þátt og að glænýr fulltrúi Rússa yrði valinn. Það var svo ekki fyrr en forkeppnin sjálf byrjaði að svör fengust.

Á einungis klukkutíma tókst rússneska sjónvarpinu að bjóða okkur upp á þrjú keppnisatriði, kanónur á borð við Dima Bilan, Polinu Gagarina og Philipp Kirkorov flytja skemmtiatriði ásamt því að Dina Garipova (Rússland 2013), Yulia Savicheva (Rússland 2018), Dmitry Koldun (Belarús 2007) og Rushlan Alehno (Belarús 2008) heiðruðu áhorfendur með nærveru sinni. Að auki náði Little Big að flytja lag sitt “Uno” sem átti að vera framlag Rússa í fyrra. Vonandi hefur tæknifólkið fengið vel borgað fyrir þennan klukkutíma.

Að lokum var það hin 29 ára gamla Manizha sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið “Russkaya zhenshchina (Russian Woman)”.

Hér er um að ræða valdeflingu kvenna í formi etnísks rafhiphops, með augljósri vísun í “We can do it” veggspjaldið í klæðnaði Manizhu.

Manizha er fædd í Tajikistan en flúði með fjölskyldu sinni yfir til Rússland í kjölfar borgarastyrjaldar í heimalandinu og settist að í Moskvu. Þar hóf hún snemma tónlistarnám og birtist fyrst á sjónarsviðinu árið 2003, einungis 12 ára gömul. Á leið sinni á Eurovision-sviðið stoppaði hún í London og New York þar sem Manizha nam söngnám, ásamt því að taka þátt í ýmsum söng- og tónlistarkeppnum í Rússlandi og nágrannalöndum.

Sigur Manizhu var nokkuð naumur, með 39,7% atkvæða, en lagið “Bitter Words” flutt af #2Mashi endaði í öðru sæti með 35,7% atkvæða.

Í þriðja sæti með 24,6% atkvæða endaði lagið “Future is Bright” flutt af Therr Maitz.

Til gamans má geta að þetta er í fyrsta skiptið síðan 2012 sem framlag Rússa er valið af almenningi í gegnum forkeppni, en rússneska sjónvarpið hefur alfarið séð um ákvörðunartöku þess á milli.

Nú er bara að bíða og sjá hvort að valdefling og “girl power” komi Rússum á kortið í Rotterdam 2021.