Vasil stendur keikur austur í Makedóníu í “Here I Stand”


Hann Vasil Garvanliev er mættur aftur á svæðið og að þessu sinni tekur hann okkur með í Disneylegan tilfinningarússíbana í kraftballöðunni “Here I Stand”, sem er framlag Norður Makedóníu í Eurovision 2021. Og að sjálfsögðu tökum við honum fagnandi.

Vasil mætti með klúbbaslagarann “You” í fyrra, sem var þægilegt popp með föstum danstakti og minnti kunnuga á bæði Sophie Ellis-Bextor sem og 90´s sveitina Everything But the Girl. En í ár tók hann U beygju og mætir með hjartþrunginn tilfinningasöng, sem hann segir að sé hans uppgjör við seinasta ár og aflýsingu Eurovision, eins og hann segir sjálfur í byrjun myndbandsins við “Here I Stand”.  “Þegar keppninni var aflýst í fyrra, var ég gjörsamlega eyðilagður. Draumar mínir voru farnir. Ég man að ég sat á rúminu mínu með litla hljómborðið mitt og ég byrjaði bara að syngja eitthvað og spila, með tárin í augunum. Svo kom “there are times” og ég vissi um leið að þetta væri lagið!” 

Vasil hafði sumsé gengið með lagið í hausnum í næstum heilt ár, áður en MRT staðfesti hann sem sinn keppanda í janúar á þessu ári, og hafði því nógan tíma til að dútla við það þangað til hann var ánægður. Og afraksturinn hjá þessum geðþekka 37 ára gamla söngvara er ekkert slor heldur. Gullfalleg strengjaballaða með gospel kór frá Chicago í bakröddum og Vasil túlkar hana af mikilli innlifun, enda er lagið upprunnið frá dýpstu hjartarótum hans. En það er aldrei logn í Eurolandi og Vasil hefur svo sannarlega fengið að finna fyrir því upp á síðkastið.

Upprunalega myndbandið við “Here I Stand” var tekið upp á Þjóðlistasafninu í Skopje, þar sem finna má mörg af helstu nútímalistaverkum þjóðarinnar. Í myndbandinu sést Vasil labba fram hjá listaverki eftir makedónsku listakonuna Zanetu Vangeli, sem lítur út eins og búlgarski fáninn. Og það fór mikið fyrir brjóstið á mörgum löndum hans þar sem samskipti ríkjanna tveggja hafa lengi verið þvinguð vegna ótal ástæðna sem óþarfi er að fara nánar út í hér. Og ekki skánaði dæmið þegar bent var á að Vasil hefur ríkisborgararétt í báðum löndum, enda er hann fæddur í bænum Strumica sem stendur á landamærum Búlgaríu og Norður Makedóníu, er af búlgörskum ættum og finnst hann vera jafn búlgarskur og hann er makedónskur. Fannst því mörgum að hann ætti ekkert með að vera að keppa fyrir hönd Norður Makedóníu, og kölluðu eftir því að myndbandið yrði endurskoðað og að Vasil yrði hreinlega skipt út fyrir annan söngvara sem félli betur að þeirra smekk. Vasil sjálfur var fljótur að verða við óskunum um að breyta myndbandinu og biðjast afsökunar á þessari yfirsýn sinni í eftirfarandi yfirlýsingu sem ég hef þýtt lauslega:

“Elsku allir. Það eina sem vakti fyrir mér við gerð Eurovision myndbandsins, var að tjá tónlist og list. Mér þykir ákaflega leitt að listaverk eftir okkar frægu listakonu, Zanetu Vangeli, hafi verið mistúlkað. Hvorki meðlimir framleiðsluteymisins né forstöðufólk listasafnsins höfðu nokkur áhrif á listræna umgjörð myndbandsins og talsmenn safnsins hafa staðfest og fullvissað okkur um að verkið sé búið að hanga þarna í mörg ár. Þar sem við viljum forðast neikvætt umtal og almennan misskilning, munum við klippa þennan hluta myndbandsins í burtu. Þakka ykkur fyrir ómetanlegan stuðning ykkar seinustu daga og fyrir að trúa á einlægan ásetning minn. Í 20 ár hef ég verið fulltrúi Makedóníu og sungið stoltur undir merkjum makedónska fánans, og það mun ég alltaf gera”

Falleg skilaboð en skýr. Hann ætlaði sér ekkert illt. En fyrir suma var þetta alveg kjörið tækifæri til að senda honum allskyns ógeðsleg skilaboð sem höfðu ekkert með þjóðernisást að gera, heldur eingöngu þá staðreynd að hann er opinberlega samkynhneigður, sem ku víst ekki vera flott í veröld þessa leiðindapakks. Ekki auðvelt að vera Vasil þessa dagana og við sendum honum að sjálfsögðu stuðningsstrauma yfir álfuna.

MRT sendi einnig frá sér yfirlýsingu vegna málsins, sem þó segir í raun ekki neitt annað en að þeir séu “að skoða öll mál tengd þátttöku Norður Makedóníu í Eurovision 2021 og muni láta almenning vita af ákvörðun sinni þegar þar að kemur”. Ekki mikið sagt um hvort Vasil verður með eður ei. En hatrið sigrar vonandi ekki í þessu tilviki, því þrátt fyrir neikvæðnisbylgjuna sem hann hefur fengið yfir sig undanfarið, er líka hellings ást og stuðning að finna. Í augnablikinu er undirskriftasöfnun í gangi þar sem MRT er hvatt til þess að hlusta ekki á þessa kreddufullu einstaklinga, og halda Vasil sem keppanda Norður Makedóníu. Við að sjálfsögðu vonum að það verði niðurstaðan, því hann er skemmtilegur tappi með mikla útgeislun og það ætti ekki að skipta nokkru einasta máli hvort hann er samkynhneigður og hvort hann er með eitt vegabréf eða tvö. Vasil Garaliev mun vonandi standa keikur í brúnni þann 18. maí næstkomandi og freista þess að koma Makedónum aftur í aðalkeppnina.