Máninn hátt á himni skín! Samanta Tina er drottning næturinnar í “The Moon is Rising”


Ef að þið hélduð eitt augnablik að Supernovastjarnan Samanta Tina væri eitthvað að slaka á, þá er það alrangt hjá ykkur! Hún er mætt í partýið og nú stefnir hún ekki bara til Rotterdam, heldur alla leið til tunglsins…þannig lagað séð.

Eftir að hafa keppt í lettnesku forkeppninni Supernova fimm sinnum og tvisvar sinnum í litháísku forkeppninni sálugu Eurovizija Atranka, hafði Samanta loksins erindi sem erfiði í fyrra. Þá fullvissaði hún landa sína um að hún væri sko ennþá í fullu fjöri í hinu stórskrítna en óneitanlega grípandi “Still Breathing”, þar sem hún semí rappaði, íklædd einum af Prúðuleikurunum (megi hann hvíla í friði) og umkringd sundfataklæddum bakröddum með spreybrúsa og andlitsgrímur, og það áður en Covid skall á af fullum krafti! Samanta vissi… ó hún greinilega vissi. Og hún er ekkert að tjúna niður stuðið í ár, heldur skrúfar það upp ef eitthvað er. Við kynnum framlag Letta, “The Moon is Rising”.

“Still Breathing” var epískur söngur um kvenlegan kraft og “The Moon is Rising” er á svipuðum slóðum, nema í þetta sinn er Samanta sjálfskipuð næturdrottning sem tryllir og tælir alla í kringum sig. Líkt og í fyrra, hefur Samanta tekið höndum saman við aðra og ekki minni Eurovision gyðju, en það er söngkonan og lagahöfundurinn Aminata Savodogo, sem landaði 5. sætinu í Vínarborg með snilldarvísunni “Love Injected”, og einnig er maður að nafni Oskars Uhans með í för.

Eftir að Eurovision var aflýst í fyrra, var ekki vitað hvort lettneska sjónvarpið myndi gefa Samöntu annan séns, eða skella í eina Supernova, og var Samanta sjálf engu nær. En í sérstökum sjónvarpsþætti sem sýndur var á undan Júrójarðaförinni Europe: Shine a Light var henni komið á óvart þegar forsvarsmenn LTV tilkynntu henni í beinni útsendingu að hún yrði fulltrúi þeirra áfram. Og ekki nóg með það, heldur fékk Samanta sérstaka fimm þátta sjónvarpsseríu undir sig, þar sem fylgst var með undirbúningi hennar fyrir Eurovision 2021. Þáttunum lauk þann 12. mars sl, þegar Samanta steig á svið á lettnesku tónlistarverðlaunahátíðinni Zelta Micrafons þar sem hún frumflutti lagið með bravúr. Það verður því þvottekta tunglgyðja sem stígur á svið í Rotterdam þann 20. maí næstkomandi og við megum búa okkur undir eitthvað rosalegt á sviðinu.