Aserbaídsjan dömpar Kleópötru og ættleiðir Mata Hari.


Þá er komið að því að kíkja lengst yfir Kákasusfjöllin og alla leið til Baku og athuga hvað Azerar hafa upp á að bjóða í ár. Og þar er kyrjað um frægar og sterkar konur (en ekki hvað?). Í fyrra var það Kleópat-RRRA! sem var í aðalhlutverki, en í ár ætlar söngkonan Samira Efendi að heiðra gestgjafana og gera hollenska stríðsnjósnaranum Mata Hari hátt undir höfði í samnefndu lagi.

Samira Efendi var tilbúin í slaginn ásamt egypsku drottningunni fyrir ári síðan, en fékk ekki frekar en aðrir, að fara alla leið til Rotterdam. En hún var nú ein af þeim ofsaheppnu flytjendum sem fengu annað tækifæri til að keppa í Eurovision, því nánast sama dag og keppninni var aflýst í fyrra, tilkynnti azerska sjónvarpið ÍTV að Efendi yrði áfram þeirra fulltrúi á hollenskri grundu í maí og mun hún að þessu sinni flytja lagið “Mata Hari”.

En þrátt fyrir að Efendi sjálf hefði verið valin innbyrðis, ákvað ÍTV að hafa pínu fútt í hlutunum og kallaði í upphafi árs, eftir áhugasömum lagahöfundum til að senda inn lög. Yfir 200 lög bárust og fækkaði þeim svo snarlega niður í sex lög sem kosið var svo á milli í kosningu sem samanstóð bæði af ákvörðun ÍTV, sem og netkönnun sem opin var fyrir tónlistarfólk og Eurovision aðdáendur. “Mata Hari” varð hlutskarpast í þeirri kosningu en lagið er ekki ósvipað “Cleopatra”, enda samið af sama gæja, en það er hollenski lagahöfundurinn Luuk Van Beers.

Samira Efendi eða bara Efendi, er 29 ára gömul popp og jazzsöngkona frá Baku og hóf feril sinn, eins og svo margir aðrir, í allskyns hæfileikakeppnum í heimalandinu. Hún hefur verið í bransanum síðan hún var einungis 17 ára og er vel þekkt bæði innanlands og utan. Þetta er í fjórða skipti sem hún er fulltrúi Azerbaijan í söngkeppni á erlendri grundu, en hún keppti fyrir land sitt árið 2017 í keppninni Silk Way Star (sem fáir hafa heyrt um) þar sem hún náði þriðja sæti og svo aftur árið 2019 á tónlistarhátíðinni The Voice of Nur-Sultan (sem engin hefur heyrt um) en sú hátíð er haldin í Kazakhstan. Efendi hefði eflaust gengið glimrandi í fyrra með skrítna en skemmtilega lagið sitt “Cleopatra” og spurning hvort njósnakvendið “Mata Hari” uppgötvi leyndarmálið á bakvið sigurformúluna og landi Azerbaijan öðrum sigri.