Baráttusöngurinn sem enginn talar um 60 ára


Sjötta Eurovisionkeppnin var haldin í kvikmyndaborginni Cannes þann 18. mars 1961 eða fyrir nákvæmlega 60 árum í dag. Keppnin var haldin í Palais des Festivals et des Congrès, eins og tveimur árum áður. Þetta var fyrsta keppnin sem var haldin á laugardagskvöldi, sem varð fljótlega eftir þetta reglan. Kynnir var Jaqueline Joubert og hefst keppnin á því að hún kynnir öll löndin og þátttakendur segja nöfnin sín. Þetta er eins og var tekið upp fyrir nokkrum árum, keppnin hefst á því að keppendur eru kynntir til leiks. Þátttökumet var slegið, en hvorki meira né minna en 16 lönd tóku þátt. Finnland, Spánn og Júgóslavía voru með í fyrsta skiptið. Það þótti merkilegt strax þarna að Júgóslavía fengi að vera með, það var fyrsta landið austan járntjaldsins sem tók þátt. Og talandi um tjöld, þessi keppni var pínu leikhúsleg, það var tjald sem sem var dregið frá og fyrir í byrjun og lok hvers atriðis. Sviðið sjálft átti svo að vera einhvers konar garður. Í fyrsta sinn í Eurovision var skemmtiatriði í hléi (interval act) og var það einskonar ballet-leiksýning.

Enginn Eurovisionkeppandi er fæddur fyrr en Lale Anderson sem keppti fyrir Þýskaland með lagið Einmal sehen wir uns wieder. Hún er fædd 23. mars 1905, en lést árið 1972. Hún er þekktust fyrir að hafa sungið upprunalegu útgáfuna af laginu Lili Marleen og þá líka á þýsku. Lagið er einnig þekkt í flutningi Marlene Dietrich og svo á dönsku með Bubba Morthens og hljómsveitinni Das Kapital.

Bretar urðu í öðru sæti þriðja árið í röð. Núna voru það John Alfor og Bob Day eða The Allisons sem fluttu lagið Are You Sure? Það er í anda laga Everly bræðra sem höfðu átt mörg vinsæl lög. Dúettinn varð þó ekki langlífur, starfaði aðeins í um tvö ár.

Sigurvegarinn var Jean-Claude Pascal sem keppti fyrir Lúxemborg með lagið Nous Les Amoureux. Það gæti þýtt á íslensku Við, elskhugarnir. Það fjallar um tvo elskhuga og um að einhverjir vilji skilja þá sundur. Sólin skín á þá samt jafn og aðra og Guð samþykkir þá og þeirra samband. Það er nokkuð ljóst að hér er á ferðinni fyrsta innleggið í baráttu samkynhneigðra í Eurovision.  Á þessum tíma var samkynhneigð ólögleg í nærri helmingi þátttökulanda. Það varð þó engin bylting í framhaldi af þessu, þetta komst lítið í umræðuna.  Þetta var fyrsti sigur Lúxemborgar í Eurovision. Jean-Claude keppti aftur í Eurovision 20 árum síðar með lagið C´est peut-être pas l’Amérique og endaði í 11. sæti. Jean-Claude er Frakki, fæddur í París árið 1927 og lést árið 1992. Hann starfaði við fleira en söng um ævina. Eftir að hafa klárað herskyldu starfaði hann við hönnun hjá Christian Dior og síðar sem leikari. Hann lék í nokkrum fínum myndum fyrir Eurovision sigurinn með miklum gyðjum t.d. Anouk Aimee, Brigitte Bardot og Ginu Lollobrigidu en var að mestu í sjónvarpsverkum eftir sigurinn.

Keppnin þótti takast vel og áhorf jókst enn milli ára. Árið 1961 fór í fyrsta skipti fram keppnin Sopot Song Festival í Póllandi og var það söngvakeppni fyrir þjóðir Austur-Evrópu. Hún var haldin til ársins 1980 á svipuðu formi. Á tíunda áratugnum fóru svo þessar austantjaldsþjóðir að taka þátt í Eurovision.