Fyrir þrjátíu árum fæddist lítil stúlka í Kaupmannahöfn. Það var engin önnur en Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, díva og Eurovisionstjarna með meiru. Jóhanna var aðeins níu ára þegar hún gaf út sína fyrstu plötu, Jóhanna Guðrún 9 árið 1999. En síðar átti hún meðal annars eftir að lenda í Eurovisionævintýrum sem verður farið nánar yfir hér.
Jóhanna Guðrún tók þátt í Söngvakeppninni árið 2009 með lagið Is It True? Hér fyrir neðan má sjá flutning lagsins úr undankeppninni hér heima. Hún hafði sigur í þeirri keppni eftir einvígi milli hennar og Ingólfs Þórarinssonar (Ingós veðurguðs) sem söng lagið Undir regnbogann. Hann minntist svo líka á að hann hafi orðið í öðru sæti á eftir Jóhönnu í laginu Gestalistinn sem kom út sama ár.
Jóhanna fór svo til Moskvu í stóru keppnina. Hún keppti fyrst í forkeppni þriðjudaginn 12. maí og var í síðasta umslaginu yfir þá sem komust áfram í lokakeppnina. Það kom svo í ljós að hún vann þessa forkeppni, fékk tveimur stigum meira en tyrkneska lagið. Þannig að tæknilega hefur Ísland unnið Eurovision. Lokakvöldið rann svo upp 16. maí og þar landaði Jóhanna öðru sætinu eftir algjörlega fullkominn flutning lagsins. Þess má geta að Jóhanna var tæplega 19 ára þegar keppnin fór fram. Alexander Rybak frá Noregi hafði öruggan sigur í þessari keppni, en Jóhanna var í æsispennandi keppni um annað sætið við Aysel og Arash frá Azerbaijan. Hún fékk að lokum 11 stigum meira en þau eða 218 stig alls sem þá voru þau flestu sem íslenskt atriði hefur fengið í Eurovision. Is it true er eftir Óskar Pál Sveinsson og í bakröddum með Jóhönnu voru Erna Hrönn Ólafsdóttir og Eurovisionstjörnurnar Friðrik Ómar og Hera Björk. Jóhanna sló í gegn með laginu víða og lagið var sérstaklega vinsælt í Skandinavíu.
Tveimur árum síðar keppti Jóhanna aftur í Söngakeppninni og komst í úrslit. Lagið heitir Nótt og er eftir Beatrice Eriksen, Maríu Björk Sverrisdóttur, Marcus Frenell og Magnús Þór Sigmundsson.
Jóhanna er í dag ein þekktasta söngkona landsins og kemur mikið að tónleikahaldi. Hún hefur einnig komið fram í Söngvakeppninni nokkrum sinnum, meðal annars árið 2019 þegar 10 ár voru liðin frá þátttöku hennar í Eurovision. Þá söng hún Kosningalagið sem er útgáfa af laginu Shallow ásamt Fannari Sveinssyni og Benedikt Valssyni og tók svo að sjálfsögðu Is it True? Eiginmaður Jóhönnu, Davið Sigurgeirsson, leikur undir á gítar.
Ritstjórn FÁSES.is sendir Jóhönnu Eurovisiondrottingu hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.