Það var eins og áður, Rússar létu aldeilis bíða eftir útgáfu Eurovisionframlags þeirra árið 2020 og héngu eins og svo oft í efstu sætum veðbanka án þess að nokkurt lag hefði komið út. Menn búast alltaf við einhverju rosalegu frá Rússlandi og því voru væntingar í hámarki þegar rússneska sjónvarpið tilkynnti í byrjun mars að hljómsveitin Little Big yrði fulltrúi þeirra í Rotterdam. Lagið Uno var síðan gefið út 12. mars sl.
Little Big er pönkpoppreifband frá Sankti Pétursborg og hefur verið að síðan 2013. Hljómsveitarmeðlimir eru Ilya Prusikin (söngvari), Sergey Gokk Makarov (DJ), Sonya Tayurskaya (söngkona) og Anton Boo Lissov (MC). Sveitin gerði aprílgabbvideo sem varð mjög vinsælt. Í kjölfarið var þeim boðið að hita upp fyrir Die Antwoord og urðu þá að semja sex lög í hvelli og allt í einu varð bandið til. Little Big hefur gefið út þrjár plötur og notið mikill vinsælda fyrir háðsádeilugjörninga sína. Lögin eru hress elektródansmúsík með poppreifívafi og myndböndin eru litrík með grípandi danssporum.
Lag Little Big Skibidi hefur notið mikilla vinsælda og þá ekki síst fyrir dansinn í myndbandinu sem er vinsælasta jarmið (e. meme) í Rússlandi fyrr og síðar (#SkibidiChallenge). Dansinn smellur eflaust eins og flís við rass hjá TikTok kynslóðinni en miðaldra pistlahöfundur eins og undirrituð klórar sér bara í kollinum yfir þessum 400 milljónum sem hafa horft á þetta á YouTube. Í framhjáhlaupi má geta þess að myndbandið við Skibidi hefur hlotið Global Film Festival verðlaunin.
Eurovisionframlag Little Big, Uno, er á ensku og spænsku og hefur hlotið þó nokkra athygli fyrir að kunna ekki að telja upp á þremur. Hugmyndina að laginu fékk sveitin í fríi í Los Angeles í febrúar sl. Fyrir Uno bætti bandið sig við tveimur sveitarmeðlimum, Yuriy Muzychenko og Florida Chanturia ásamt einu stykki kung-fu-dansara í bláum samfestingi, Dmitry Krasilov, jú og fullt af útvíðum buxum í anda þessa 70’s diskódanslags.
Þegar Eurovision var aflýst 18. mars sl. sat Little Big í 4. sæti veðbanka. Ekki hefur verið gefið út hvort Little Big taki þátt 2021 en forsprakki sveitarinnar hefur látið hafa eftir sér að hann sé til í tuskið.
Margir hafa velt stöðu dansarans Dmitry í myndbandinu fyrir sér í ljósi þess að einungis sex mega á standa á Eurovision sviðinu. Áður en Eurovision var aflýst staðfesti Little Big að dásamlegi dansarinn hefði komið með til Rotterdam (en lesendur vita samt að sjálfsögðu að Adrean úr Hatara var fyrstur til að framkvæma death-drop á Eurovision-sviðinu og ekki orð um það meir!).