Fjölþjóðlegt rafpopp – beint frá hjartanu – og Kýpur


Það fór engin forkeppni fram á Kýpur í ár þegar framlag þeirra til Eurovision 2020 var valið. Kýpverjar hafa notað ýmsar aðferðir til að velja lagið sitt í gegnum tíðina. Fyrir fimm árum var fyrirkomulagið til dæmis þannig að hvorki meira né minna en 54 lög kepptu um að verða framlagið og tók það ferli níu vikur. Síðastliðið haust valdi kýpverska sjónvarpið CyBC úr 120 möguleikum, en þá hafði það bæði fengið hugmyndir af lögum og flytjendum. Þann 29. nóvember síðastliðinn var tilkynnt að söngvarinn Sandro yrði fulltrúi Kýpur í Eurovision 2020.

Þann 11. febrúar var svo tilkynnt á Instagram að lagið heitir Running. Það var frumflutt í forpartýi Melodifestivalen í Svíþjóð þann 6. mars síðastliðinn. Lagið er eftir Sandro, Alfie Arcuri, Sebastian Rickards, Octavian Rasinariu og Teo DK. Sandro hefur sjálfur lýst laginu þannig að það sé eitthvað sem komi beint frá hjartanu. Robyn Gallagher hjá Wiwibloggs lýsir laginu sem rafpoppi í djúpum house-stíl með föstum takti sem undirstrikar rödd Sandros.

Sandro eða Alessandro Rütten eins og hann heitir, er fæddur árið 1996 í Þýskalandi og ólst þar upp. Hann á gríska móður og bandarískan föður. Hann keppti í The Voice of Germany árið 2018 og ári síðar keppti hann fyrir Bandaríkin í New Wave, sem er  alþjóðleg söngvakeppni fyrir unga söngvara. Sú keppni hefur verið haldin í Lettlandi eða Rússlandi síðan árið 2002. Sandro endaði þar í 5. sæti. Einn lagahöfunda Running er Ástrali, svo það má segja að lagið sé fjölþjóðlegt.

Kýpur var fyrst með í Eurovision árið 1981 og Running átti að verða þeirra 37. framlag. Eins og staðan er núna er Kýpur það land sem hefur beðið lengst eftir sigri af þeim sem hafa aldrei unnið. Kýpur hefur tekið 36 sinnum þátt í Eurovision án sigurs en Ísland og Malta hafa tekið þátt 32 sinnum hvort. Það ætti því að vera okkur Íslendingum kappsmál að vinna keppnina á undan hinum eyþjóðunum. Kýpur hefur þrisvar verið í fimmta sæti, með löngu millibili og var þar þeirra besti árangur ansi lengi eða þar til fyrir tveimur árum. Þá varð Íslandsvinurinn Eleni Foureira í öðru sæti með lagið Fuego sem flestir ættu að muna eftir.