Ofurstúlka frá Grikklandi


Grikkir hafa notað ýmsar aðferðir í gegnum árin til að velja framlag sitt til Eurovisionkeppninnar. Þeir hafa oft verið með söngvakeppni, en síðastliðin þrjú ár hefur ekki verið nein slík. Valið hefur farið þannig fram að dómnefnd velur lag og flyjanda. Í ár voru það fimm manns sem skipuðu dómnefndina. Lag og flytjandi var gert opinbert þann 1. mars síðastliðinn. Þá höfðu ýmsar sögusagnir verið í gangi um hver yrði fulltrúi Grikkja og var þar á meðal nefnt „strákabandið“ One sem keppti fyrir Kýpur árið 2002. En sú útvalda reyndist vera hin 19 ára gamla Stefania Liberakakis með lagið Superg!rl. Lagið er eftir lagateymi skipað þeim Dimitris Kontopoulus, Sharon Vaughn, Pavlos Manolis, Anastasios Rammos, Diverno og Gabriel Russell. Dimitris og Sharon hafa bæði margoft áður samið Eurovisionlög og lög sem Eurovisionstjörnur hafa flutt. Þau voru bæði í höfundateymi Rússlands í fyrra með lagið Scream sem Sergey Lazarev söng. Dimitris á hlut í alls 11 Eurovisionlögum, meðal annars laginu Prison frá Albaníu í ár. Hann hefur líka samið nokkur lög fyrir Sakis Rouvas. Sharon hefur átt lög sem Willie Nelsson, Kenny heitinn Rogers og Boyzone hafa flutt auk þess sem hún á hlut í Waterline með Jedward. Þetta er aðeins brot af löngum lista yfir þekkt lög með henni, en hún hefur verið virkur lagahöfundur í meira en 40 ár.

Þótt Stefania sé ung að árum er hún svo sannarlega enginn nýgræðingur í tónlistarheiminum og jafnvel á fleiri vigsstöðum, þar sem hún er einnig leikkona og vinsæl á YouTube. Stefania, sem á ættir að rekja til Hollands, hóf tónlistarferilinn árið 2013. Hún tók þátt í Junior Eurovision fyrir hönd Hollands árið 2016 sem hluti af stelpnabandinu Kisses með lagið Kisses and Dancin. Lagið Superg!rl á að vera hvatning fyrir ungt fólk um að elta drauma sína án þess þó að gefa eftir í námi og starfi.

Grikkir voru fyrst með í Eurovision árið 1974 og Superg!irl átti að verða þeirra fertugasta framlag. Þeir unnu keppnina eftirminnilega árið 2005 þegar Helena Paparizou varð númer eitt með lagið My Number One. Besta tímabil Grikkja í Eurovision var árin 2004-2011 en þá urðu þeir alltaf á topp tíu, átta ár í röð.