Ísböð og heimsfrægir lagahöfundar


Í gær var tilkynnt um lag og flytjanda sem freista á gæfunnar í Rotterdam fyrir hönd Breta en það verður hann James Newman sem mun stíga á stokk með lagið My Last Breath. Keppnin hefur í seinni tíð ekki verið heilladrjúg fyrir Bretana en fram til ársins 1997 sigruðu Bretar Eurovision fimm sinnum en hafa allar götur síðan endað ansi neðarlega og þar af fjórum sinnum í neðsta sæti, nú síðast í fyrra.

James Newman er frá bænum Settle í Norður-Englandi og er þekktur lagahöfundur í heimalandinu. Hann hefur samið lög fyrir heimsfræga listamenn eins og Ed Sheeran, Kaiser Chiefs, Little Mix, Olly Murs, Kesha, Toni Braxton og Backstreet Boys. Hann hlaut hin eftirsóttu Brit-verðlaun árið 2014 fyrir besta breska lagið Waiting All Night sem flutt var af hljómsveitinni Rudimental. James er stóri bróðir John Newman – vel þekkts poppsöngvara og lagahöfundar í Bretlandi sem hefur selt yfir 1,3 milljón plötur í heimalandinu. Litli bróðir segist afar stoltur af bróður sínum en þetta er í fyrsta sinn sem James syngur lag einn og óstuddur. Lagið er samið af James sjálfum ásamt þeim Adam Argyle, Ed Drewett og Iain James. Sá síðastnefndi er góðkunningi í Eurovision-keppninni en hann var annar höfunda sigurlagsins árið 2011, Running Scared sem flutt var af þeim Ell & Nikki fyrir Aserbaídjan. Hann samdi einnig framlag Belga árið 2013, Love Kills sem flutt var af Roberto Bellarosa og hafnaði í 12. sæti.

John vonast til þess að lagið sigri hjörtu Evrópu (og Ástralíu) og að áhorfendur tengist sögunni sem liggur á bakvið. Kveikjan af lagasmíðinni er sú að höfundarnir sáu heimildarmynd um breskan kafara sem bjarga þurfti úr Norðursjó árið 2012 eftir að hann varð viðskila við hópinn sinn og var í kafi, án súrefnis í 30 mínútur. Það er því viðeigandi að aðalstjarnan í myndbandinu er Hollendingurinn Wim Hof sem er heimsfrægur fyrir að stunda ísböð (reyndar er hann líka heimsmethafi í slíkum dugnaði) og aðferðir hans eru meðal annars kenndar hér á Íslandi. Í myndbandinu fer Wim Hof afar léttklæddur í ísbað og fer í kjölfarið í gönguferð í snævi þöktum skógi, berfættur!  Hvað gerist svo á sviðinu verður spennandi að sjá, en Bretland er eitt af stóru löndunum fimm og fer því beint í úrslitakeppni Eurovision 16. maí.