Spánverjar hafa valið lagið sem hann Blas Cantó mun flytja á stóra sviðinu í Rotterdam!
Lagið Universo var valið af innanbúðarfólki hjá spænska ríkismiðlinum Televisión Española (TVE) og var það valið úr hópi 50 laga sem kom til greina að senda í keppnina. Lagið er samið af fjórmenningunum Dan Hammond, Dangelo Ortega, Mikolaj Trybulec og Ashley Hicklin. Sá síðastnefndi hefur eignast margar platínumplötur á ferlinum enda samið tónlist fyrir ekki ómerkari listamenn en Tiësto, Tom Dice, Mélovin og Waylon, svo einhverjir séu nefndir. Hammond og Trybulec eru svo mennirnir á bakvið Tékkneska framlagið í fyrra, „Friend of a Friend“.
Texti lagsins er á spænsku og er í sjálfu sér mjög opinn til túlkunar. Blas syngur um það hvernig listamenn reyna sífellt að vera aðrir en þeir eru og týna þannig sjálfum sér. Í laginu óskar Blas þess að heimurinn sýni honum miskunn fyrir að fela sitt sanna sjálf. En hvað hefur hann verið að fela? Hvað þorir hann ekki að sýna heiminum? Lagið fellur misvel í kramið á íbúum Júró-lands en það er að mati undirritaðrar mjög útvarpsvænt og auðvelt að fá það á heilann.
Í myndbandinu má sjá Blas Cantó dansa með tveimur glimmer-verum og klifra í klettum þar sem fólk í regnstökkum með netagrímur tekur á móti honum. Blas er greinilega smekksmaður, en hann sést í SJÖ mismunandi jakkafötum í myndbandinu(!!!) en það er tekið upp á þremur spænskum eyjum. Landslaginu sem fyrir augu ber má líkja við hrjóstrugt landslag Íslands og minnir lítið á Spán eins og við þekkjum það, sem sagt engar sólarstrandir eða kokteilar.
Þegar Blas flutti lagið í fyrsta sinn live mátti sjá að hann er afar sjálfsöruggur og með sterka sviðsframkomu en hár falsettutónn í miðju laginu virðist aðeins vefjast fyrir honum. Vonandi verður hann búinn að slípa þetta allt saman þegar að því kemur.
Árið 2020 markar tímamót í sögu Spánar í Eurovision en í ár keppir þjóðin í 60. sinn frá árinu 1961. Á þessum 60 árum hefur Spánn aðeins tvisvar unnið keppnina (í annað skiptið af þessum tveimur deildu þeir fyrsta sætinu með þremur öðrum löndum). Spánn er eitt af stóru ríkjunum fimm og fer því beint í úrslitakeppnina 16. maí.