Ulrikke flaggar fána Noregs með lagið “Attention”


Í tilefni af 60 ára afmæli hinnar norsku söngvakeppni, Melodi Grand Prix, ákváðu Norðmenn að skella í metnaðarfulla söngvakeppnisveislu með fimm undankvöldum sem áttu stað í Osló og einu stærsta úrslitakvöldi í sögu norsku söngvakeppninnar sem staðsett var í Þrándheimi.

Eftir mikla spennu og mikið drama, sem meðal annars innihélt kosningaskandal, var það hin 24 ára Ulrikke Brandstorp sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið “Attention”. Einn af höfundum lagsins er Kjetil Mørland, góðkunningi Eurovision sem samdi og var annar flytjandi framlags Noregs árið 2015 “A Monster Like Me”. 

Síðustu ár hefur norska forkeppnin samanstaðið af einungis einu úrslitakvöldi en í ár var öllu tjaldað til og hent í fimm undankeppnir til að velja hluta þeirra laga sem fengu miða á úrslitakvöldið.

Til að flækja hlutina aðeins meira en venjulega tók norska sjónvarpið upp á því að velja innbyrðis fimm lög sem fengu beint flug til Þrándheims, en fimm til viðbótar voru valin í gegnum undankeppninnar. Til að gera þetta ennþá skemmtilegra var ákveðið að kjördæmaskipta undankeppnunum, þannig að í hverri undankeppni tóku þátt einstaklingar sem tengdust viðkomandi landsvæði hverrar keppni. Í úrslitunum voru það því 10 lög sem kepptust um hylli norsku þjóðarinnar.

  1. Wild” – Raylee
  2. Out Of Air” – Didrik & Emil Solli-Tangen
  3. Over The Sea” – Magnus Bokn
  4. Som du er” – Akuvi
  5. Pray For Me” – Kristin Husøy
  6. One Last Time” – Rein Alexander
  7. Hurts Sometimes” – Tone Damli
  8. Take My Time” – Sondrey
  9. “Attention” – Ulrikke Brandstorp
  10. I Am Gay” – Liza Vassilieva

Keppnin sjálf skiptist niður í þrjár umferðir. Í þeirri fyrstu stigu öll 10 lögin á svið og ætlunin var að kjósa í gegnum netkosningu þau fjögur lög sem kæmust í næstu umferð. Því miður var tæknin eitthvað að stríða Norðmönnunum þar sem netkosningin hrundi vegna álags og ekki var hægt að styðjast við þau atkvæði sem þar komust í gegn. Eins og í öllum góðum keppnum var þó búið að setja upp varaplan ef til þess kæmi að netkosningin virkaði ekki sem samanstóð af 30 manna sérvalinni dómnefnd sem valdi þau fjögur lög sem hleypt var áfram í aðra umferð.

Gagnrýnisraddir byrjuðu þó fljótt að hljóma vegna fyrirkomulags varaplansins, og átti svo eftir að koma í ljós að þessir 30 einstaklingar byggðu dóm sinn ekki einu sinni á lifandi flutningi laganna heldur einungis af hljóðútgáfu laganna. Eins og allir sem fylgjast með Eurovision og forkeppnum sem henni tengjast spilar lifandi flutningur og framkoma á sviði stórt hlutverk í keppninni.

En eins og Freddie Mercury heitinn söng, “The show must go own”. Hafin var ný netkosning á milli þeirra fjögurra laga sem komust í aðra umferð. Þau voru:

  • “Wild” – Raylee
  • “Pray For Me” – Kristin Husøy
  • “Attention” – Ulrikke Brandstorp
  • “I Am Gay” – Liza Vassilieva

Í þetta skiptið virkaði allt eins og áætlað var og norskur almenningur kaus lögin “Pray For Me” með Kristin og “Attention” með Ulrikke áfram í einvígið. Í þriðju og síðustu umferðinni voru lögin tvö flutt á ný og enn ein netkosningin sett í gang til að ákvarða hinn eina sanna sigurvegara.

Eftir æsispennandi stigagjöf, þar sem stig frá hverju kjördæmi voru tilkynnt af fyrrum keppendum í norsku söngvakeppninni, var það eins og áður sagði Ulrikke sem vann með 200,345 atkvæðum. Kristin og lag hennar “Pray For Me” var þó ekki langt frá sigrinum, en það hlaut 194,667 atkvæði. Það munaði því einungis rétt tæplega 6000 atkvæðum á fyrsta og öðru sætinu.

Ulrikke var ekki að stíga sín fyrstu skref í norsku forkeppninni, en hún tók þátt árið 2017 með lagið “Places” sem endaði í fjórða sæti. Hún hefur verið dugleg að nýta sér þær söngkeppnir sem norskt sjónvarp býður uppá. Þannig tók hún þátt í norsku útgáfunni af Idol árið 2013, The Voice árið 2015 og svo í norska þættinum Stjernekamp árið 2018. Næst á dagskrá er stóra Eurovision-sviðið og nú er bara að bíða og sjá hvort að Ulrikke nái að heilla Evrópu á sama hátt og sigurvegarar símakosningarinnar, Keiino, gerðu í fyrra.

Keiino tróð einmitt upp sem partur af upphafsatriði keppninnar í ár og hér má sjá þá frábæru framkomu.