Það er óhætt að segja að Hatari hafi sett mark sitt á árið 2019. Ekki aðeins á íslenskt samfélag heldur einnig Eurovisionsamfélagið, ísraelskt og palestínskt samfélagt og nú síðast rússneskt samfélag þar sem þeir fengu stórkostlega móttökur aðdáenda og voru hylltir sem hetjur þegar þeir lýstu yfir stuðningi við hinsegin fólk í Rússlandi og Andrean breiddi út regnbogavængina sína. Enda hefur það orðið eitt af aðalsmerkjum Hatara að ögra ráðamönnum sem kúga minnihluta hópa og standa með þeim sem eru minnimáttar. Það er þó gaman að segja frá því að þrátt fyrir tilraun rússneskra stjórnvalda til kúgunar og þöggunar á hinsegin fólki með lagasetningum þá leiðir ný rannsókn það í ljós að 62% rússneskra barna og ungmenna á aldrinum 10-18 ára hafa jákvæð viðhorf til hinsegin fólks en aðeins 17% líta neikvæðum augum á hinsegin fólk þrátt fyrir áróður yfirvalda.
Þrátt fyrir að hafa ekki formlega unnið Eurovision er enginn vafi á því að Hatari sigraði í keppninni um flesta aðdáendur. Eins og einn FÁSES-liði orðaði það: “Aumingja Duncan Laurence verður ávallt þekktur sem gaurinn sem vann Eurovision þegar Hatari keppti.” Aðdáendahópar hafa myndast á samfélagsmiðlum: Hatari Band – International Fans á Facebook (með yfir 2.700 meðlimum), Hatari Fanpage á Facebook,Twitter og síðast en ekki síst Tumblr. Kannski er aðdáandi jafnvel of milt orð, hugsanlega væri nær að nota orð eins og súperaðdáandi eða “stan” á ensku (sjá lag Eminem) sem fylgjast með öllu sem Hatari gerir hvort sem það er á tónlistarsviðinu, pólitíska sviðinu eða einkalífinu (vonandi þó á jákvæðari hátt en hinn upphaflegi Stan). Þeir leggja á sig að horfa á Vikuna hjá Gísla Marteini og Kappsmál á RÚV þrátt fyrir að kunna ekkert í íslensku bara vegna þess að Matthías var gestur þáttanna. Þeir eru meira að segja farnir að leggja það á sig að læra íslensku svo að hugsanlega getum við þakkað Hatara seinna meir fyrir að koma í veg fyrir að íslenska deyi út.
En eins og áður sagði þá hefur Hatari virkilega sett sitt mark á árið. Nú síðast kom í ljós á tumblr þar sem aðdáendur þeirra eru mjög virkir, að Hatari var 10. vinsælasta hljómsveitin sem bloggað var um, póstað myndum, gifum og líkað við árið 2019. Einu sæti frá Bítlunum! Það er allavega ljóst að það verður ákaflega erfitt að halda því fram að Eurovision sé endastöð íslenskra listamanna eftir þetta ár og vonandi að fleiri ungir og upprennandi listamenn sjái tækifæri í því að koma sér á framfæri við heiminn með því að taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins.