Í dag æfa Króatar, Matverjar, Litháar, Rússar, Albanir, Norðmenn, Hollendingar, Norður-Makedónar og Aserar. Fréttaritarar FÁSES.is munu að sjálfsögðu fylgjast með blaðamannafundunum á eftir æfingunum og segja frá því helsta sem fram kemur.
Fréttin verður uppfærð eftir því sem blaðamannafundum vindur fram.
Roko frá Króatíu
Roko er með dansarana sína með sér á fundinum og talar um að það sé heiður að fá að vinna með svona miklu hæfileikafólki. Lagahöfundarnir eru engar smá sleggjur; Jacques Houdek sem keppti fyrir Króatíu árið 2017 í dúett með sjálfum sér, Charlie Mason sem samdi sigurlag Eurovision 2014 Rise Like a Pheonix og Andrea Čubrić sem hefur samið lög í króatísku forkeppninni. Roko var afslappaður á sviðinu á æfingunni í dag. Hann segir að þó að dansararnir hans séu betri dansarar en hann erum við í grunninn öll eins sem manneskjur. Mörgum gæti þótt textinn klisja, en Roko segir að við viljum öll vera elskuð. Lykillinn að því að gera þennan stað að betri stað er ást og Roko vill dreifa ástinni með söng. Roko hefur verið lýst sem hinum króatíska Michael Bublé og honum finnst það mikill heiður að vera líkt við hann. Roko tók svo Bublé lag blaðamönnum til mikillar hrifningar. Roko segir að Eurovision þátttakan sé erfitt ferli með mikið af æfingum en á móti fær hann ótrúlega reynslu. Hann segist þurfa að sofa í mánuð eftir Eurovision og þegar hann verður eldri mun hann eflaust hugsa “wow, ég var í Eurovision!”.
Michela frá Möltu
Farastjóri Möltu segir að atriði þeirra í ár sé eitt það erfiðasta í ár frá tæknilegu sjónarhorni m.a. vegna þess að ljós og grafíska bakgrunna þarf að stilla saman. Þeir segja að það eigi eftir að slípa til einhver atriði en þetta muni allt koma á endanum. Michela, sem er 18 ára, kemur frá litlum bæ á Möltu og þau fá mikinn stuðning að heiman. Malta hefur m.a. tekið þátt í X Factor þar sem Ira Losco var dómari. Hún gaf Michela mörg góð ráð, m.a. um stressið sem fylgir keppninni, enda hefur hún tekið þátt tvisvar í Eurovision. Michela hefur einnig tekið þátt í söngvakeppni með sinfóníuhljómsveit og segir að það hafi verið dýrmæt reynsla. Michela kemur úr músíkalskri fjölskyldu og hafa þau stutt hana vel en hún sér mest eftir að hafa ekki byrjað að læra á píanó fyrr eins og þau lögðu til. Myndbandið við Chameleon er eitt af þeim flottustu í ár en það er það fyrsta sem Michela hefur gert – talandi um að henda henni í djúpu laugina, myndband með páfagauki og kamelljóni!
Jurij frá Litháen
Að mati Jurij gekk æfingin vel. Jurij hefur hlaupið með refum þegar hann var bakrödd í Eurovision en nú hleypur hann með ljónum! Að öllu gamni slepptu þá segir Jurij að þetta sé töluvert breytt hlutverk að vera í aðalhlutverki. Hann sá ekki hversu mikil vinna fer í að vera frontmaðurinn, sem bakrödd mætti hann bara á æfingar (hann var bakrödd 2013 og 2015). Jurij hefur hitt hinn ástralska Guy Sebastian og varð algjörlega orðlaus, starstruck eins og maður segir á lélegri íslensku. Guy ráðlagði honum að njóta hvers andartaks – núvitindundin alla leið. Jurij segir að hann sé með fimm bakraddarsöngkonur með sér sem séu þær bestu í Litháen. Velgengni sína þakkar Jurij því að hann vilji virkilega ná árangri í tónlist en hann er einmitt að gefa út plötu, My Dreams, fljótlega. Djúp og kynþokkafull rödd Jurij vekur athygli blaðamanna hér en hann hefur víst náð miklum árangri sem símsölumaður.
Sergey Lazarev frá Rússlandi
Sergey segir að það séu tæknilegir örðugleikar sem þurfi að vinna í eftir æfinguna í dag en samanborið við þátttöku hans árið 2016 voru vandamálin léttvæg á æfingunni í dag. Þá var atriðið of dökkt á fyrstu æfingu en nú er atriðið of ljóst. Fundarstjórinn á blaðamannafundinum hafði orð á því að þetta væri fjölmennasti blaðamannafundurinn til þessa enda ekki furða því Sergey er stórstjarna í Austur-Evrópu. Með Sergey er sannkallað draumateymi. Philip Kirkorov frá Rússlandi þarf vart að kynna og Grikkjann Dimitris Kontopoulos sem hafa samið marga Eurovision smelli. Með Sergey á sviðinu eru sænskir bakraddasöngvarar og sviðsetningin er í höndum Grikkja. Sergey er einbeittur á sviðinu en er mjög meðvitaður um umhverfi sitt á meðan. Í heildina er Sergey ánægður með æfinguna og fannst mikilvægt að upplifa sviðið og hljóðið í salnum. Teymið er mjög meðvitað um að þetta sé sjónvarpsþáttur og allt þurfi að líta vel út í sjónvarpi. Rússar eru hér til að keppa en um leið þarf að njóta sín á sviðinu til að geta komið laginu og tilfinningunum á framfæri. Á sviðinu birtast átta Sergeyjar sem eiga að tákna fortíð hans. Hann standi fyrir framan í nútímanum og þurfi að skilja fortíðina eftir fyrir aftan sig. Sagan sem lagið segir hefur persónulegt gildi fyrir Sergey sjálfan. Hann segist vilja hætta að draga fortíðina á eftir sér og horfa til framtíðar. Philip Kirkorov gekk mikið á eftir Sergey að taka þátt í Eurovision því hann vildi sýna Evrópu fleiri hliðar á Sergey því hann sé svo hæfileikaríkur. Sergey var ekki til í það í byrjun en lét eftir þegar hann heyrði lagið Scream.
Jonida Maliqi frá Albaníu
Albanski hópurinn er með nokkur atriði sem þau vilja láta laga fyrir næstu æfingu og eru þess fullviss að framleiðsluteymið muni koma því í lag. Jonida segir að skilaboðin í laginu séu að gleyma ekki rótunum sem menn eiga á jörðinni. Jonida á mikið af skóm og hefur gaman af fatnaði. Hún tók með sér 30 kjóla til Tel Aviv og 21 pör af skóm úr skóherberginu heima – já hún er með sérherbergi fyrir skóna sína. Þrátt fyrir það segir hún að það skipti meira máli fyrir sig að túlka tónlistina en að koma vel fyrir og hugsa um útlitið. Henni finnst mikilvægt fyrir listamenn að líta vel út en aðalástæðan fyrir því að hún er hér er fyrir tónlistina. Í Albaníu eins og í fleiri löndum dreymir fólk um að flytja til annarra landa til að reyna að eignast betra líf þar. Lagið fjallar líka um þá tengingu sem fólk sem flytur frá heimalandinu hefur til heimalandsins. Þau eru viss um að fleiri Evrópubúar tengi við þá tilfinningu. Jonida endaði fundinn á því að prófa sterkan ísraelskan pipar því hún elskar sterkan mat.
KEiiNO frá Noregi
KEiiNO komu til landsins í dag og fóru beint á fyrstu æfingu. Fred varð mjög hissa hvað sviðið er stórt. Þau hafa öll verið í þeirri stöðu að vera ekki samþykkt fyrir það að vera þau sem þau eru og lagið fjallar um það. Fred útskýrði hvernig Samar hafa eigin menningu og að jók (söngstíllinn e. joik) sé 2.000 ára gömul hefð og elsta lifandi tónlistarhefð í Evrópu. Tónlistarmyndbandið við lagið er mjög sérstakt. Þau voru hrædd um að fólk myndi ekki taka eftir boðskapnum í laginu og vildu fá það til að hlusta af athygli. Þau sömdu lagið Spirits in the Sky eftir að hafa fyrst ákveðið þemað sem þau ætluðu að vera með, svo sömdu þau textann þegar lagið var tilbúið. Bandið er ekki bara hugsað til þátttöku í Eurovision og þau eru með plötu í smíðum. MGP norska undankeppnin verður 60 ára á næsta ári og KEiiNO lofuðu Norðmönnum að þau myndu vinna Eurovision í ár svo hægt væri að halda upp á afmælið með því að halda Eurovision í Noregi. Alexandra segir að þau finni fyrir pressu en Tom bætti við að það skipti ekki öllu máli fyrir þau að vinna, heldur að gera sitt besta og skemmta áhorfendum. Það vakti athygli að KEiiNO komu fram í öllum stóru fyrirpartýunum fyrir Eurovision í ár nema í Rússlandi. Tom sagði ástæðuna fyrir því vera að það væri ekki rétt fyrir sig að koma fram á tónleikum í Rússlandi þar sem hann er samkynhneigður og lagið fjalli um að fólk fái að vera samþykkt fyrir það hver það er en því miður séu margir í Rússlandi sem ekki séu samþykktir fyrir að vera hinsegin. Fred er leikskólakennari og kennir tónlist. Hann er ekki sannfærður um að það sé rétt að láta börn keppa í keppnum eins og Junior Eurovision þar sem börn eigi ekki að vera undir svona mikilli pressu. Alexandra keppti í norsku barna MGP keppninni og hún segir að þar hafi allt snúist um að koma saman og gleðjast en Eurovision sé miklu meiri keppni. Nafnið KEiiNO er dregið af nafni bæjarins sem Fred er alinn upp í. Ástæðan fyrir því að það eru tvö i í nafninu er að Keino var þegar upptekið á svo mörgum samfélagsmiðlum að þau bættu við einu auka i í nafnið. Það er skemmtilegt að geta þess að Tom hefur samið jólalag fyrir japanskt band. Hann segir það ekki skipta máli hvaða hóp hann er að semja fyrir. Það sem skiptir máli er að hann þarf að koma ákveðnum tilfinningum á framfæri og það eru sameiginlegar tilfinningar með öllu fólki sama hverrar þjóðar fólk er.
Duncan frá Hollandi
Það sem kom Duncan mest á óvart við æfinguna í dag er hvað þetta er allt saman stórt og vel skipulagt. Hver mínúta er skipulögð frá því lagt er af stað frá hótelinu á fyrstu æfingu og þangað til komið er til baka eftir að blaðamannafundinum lýkur. Aðspurður út í tónlistarmyndbandið við lagið Arcade segir hann að hugmyndin hafi verið sú að hann sé að synda úr myrkrinu á botninum upp í ljósið þar sem vonin leynist. Myndbandið er tekið upp í vatnsstúdíó í stórum vatnstanki sem Duncan þurfti að dýfa sér í 30 sekúndur í senn í tankinn til að ná öllu myndefninu. Það eru aðeins tveir hlutir sem Duncan tekur með sér úr myndbandinu á sviðið, lagið og hann sjálfur (svo sem ekki mikið annað til að taka með úr myndbandinu nema vatnið, enda maðurinn berrassaður í myndbandinu). Duncan hefur tró´nað á toppi veðbankanna frá því lagið kom út og Hollendingar eru farnir að undirbúa sig að þurfa að halda keppnina á næsta ári. Duncan hefur ekki bókstaflega dreymt að vinna Eurovision, en hann segir samt að hann leyfi sér að vona að sigra Eurovision – annars væri hann ekki að taka þátt í keppninni. Duncan hefur ekki mikla reynslu af því að koma fram opinberlega og spilaði í fyrsta skipti opinberlega að syngja eigin lög á tónleikum fyrir viku síðan þar sem hann söng fyrir 450 manns. Ilse sem var hluti af Common Linnets sem lentu í öðru sæti árið 2014 hefur verið Duncan innan handar við undirbúninginn og sat hún í salnum (beint fyrir aftan fréttaritara FÁSES.is). Duncan segir að það sé frábært að vinna með henni og að hún hafi kennt sér margt. Þó að lagið hafi þungt yfirbragð þá er Duncan ánægður með lífið og nefnir í þeim samanburði að Adele syngi oft dapurleg lög en er samt ánægð í lífinu. Duncan samdi lagið á píanó og þess vegna fannst honum viðeigandi að vera með hljómborð á sviðinu og spila viðlagið. Í laginu er fjallað um strákinn frá litla bænum sem staddur sé í spilasal (“small town boy in a big arcade”) og það má yfirfæra það yfir á stöðu Duncans í Eurovision búbblunni. Hann var hræddur við athyglina í byrjun en þegar hann fékk svo góðar viðtökur varð hann afslappaðri.
Tamara frá Norður-Makedóníu
Tamara segir að æfingin í dag hafi tekist vel, hún sé ánægð, auðmjúk og stolt. Að sjálfsögðu lærir hún að fara með titil lagsins síns Proud á hebresku og gengur það furðu vel. Kvennabaráttulagið Proud var það ekki frá upphafi heldur sú hugmynd frá Tamöru þegar þau veltu fyrir sér innihaldi myndbandsins við lagið. Í myndbandinu er m.a. að finna transkonu sem sýnir að þau séu að taka lítil skref í átt að frjálslyndi. Lagið er þó ekki eingöngu kvennabaráttulag heldur lag fyrir alla, enda geta allir verið stoltir af einhverju. Kjóll Tamöru er emeraldgrænn sem táknar bata og endurhæfingu. Hún staðfestir að í lok lagsins sé að finna mynd af henni og dóttur hennar. Þetta er fjórða skiptið sem Tamara keppir í Eurovision og það sér þess merki í salnum því margir blaðamenn þekkja vel til hennar og hrósa henni hástert. Hún svara ávallt til á móti; “Thank you, I’m proud”. Tamara finnst betra að syngja ballöður því þannig er hægt að skila tilfinningunum betur til áhorfenda. Þau komu sex speglaskjám fyrir á sviðinu með Tamöru því hún sé svo æðisleg að þau vildu sjá meira af henni. Systir Tamöru, Tijana og keppandi frá Makedóníu 2014, er ákaflega stolt af systur sinni og er alltaf ákaflega stressuð og um leið glöð þegar systir hennar er á sviðinu. Það vekur nokkra eftirtekt að Tijana er ekki í bakröddum hjá systur sinni en hún er víst heima í Makedóníu að gæta dóttur Tamöru.
Chingiz frá Aserbaídsjan
Æfingin gekk vonum framar en Chingiz er fullviss um að næsta muni ganga enn betur. Róbótarnir sem Chingiz er með á sviðinu heita Parkishe og Igbol. Atriðið á að vera skapandi, áhugavert og litríkt. Chingiz langar að koma aserskri þjóðlagatónlist á framfæri og blanda saman nútímatónlist við þjóðlagahefðina. Í laginu Truth syngur Chingiz um að halda kúlinu undir pressu (stay cool under pressure) sem fundarstjóra fannst lýsa Chingiz vel sem lenti í tæknilegum erfiðleikum í einum þætti þegar hann tók þátt í Idolinu í Aserbaídsjan og hélt kúlinu ótrúlega vel. Chingiz finnur fyrir mikilli orku á sviðinu og er með fimm frábæra bakraddasöngvara sér til aðstoðar sem standa baksviðs. Einn bakraddarsöngvarinn forfallaðist og þá voru góð ráð dýr og 6. maí gekk nýjasti meðlimurinn í hópinn sem er ísraelsk söngkona sem hitti hópinn fyrst þegar þau komu til Ísrael. Chingiz er með tyrkneskar rætur og finnst hann ekki bara vera að koma fram fyrir hönd Asera heldur líka Tyrkja. Fólk misskilur oft Chingiz og heldur að hann sé upptekinn af sjálfum sér. Hann útskýrir að það sé ekki þannig heldur eigi hann auðvelt með að detta inn í eigin heim og gleyma sér að hugsa um eitthvað allt annað en stað og stund. Hann er einfari í eðli sínu og finnst hann ekki þurfa að vera í kringum fólk til að vera í samhljómi við sjálfan sig.