Þann 2. mars síðastliðinn, sama dag og við Íslendingar völdum okkar framlag í Eurovision, fór fram keppnin O melodie pentru Europa 2019 í Chișinău höfuðborg Moldóvu. Sigurvegarinn var Anna Odobescu með lagið Stay.
Lagið var valið með jafn miklu vægi símakosningar og dómnefndar. Hér er um að ræða nokkuð hefðbundna ástarkraftballöðu. Lagið er eftir Georgious Kalpadidis, Thomas Reil, Jeppe Reil og Mariu Broberg og er það því nokkuð alþjóðlegur kokteill sem stendur að laginu. Anna er fædd í desember 1991, er frá Dubasari og lærði tónlist og leiklist. Það fer heldur ekki milli mála að hún er hæfileikarík. Hún segist finna innri frið með því að syngja. Undirritaðri telst til að Anna Odobescu sé tíunda Annan sem tekur þátt í Eurovision (hér er bara átt við nafnið Anna, ekki skyldar útgáfur af því góða nafni).
Moldóva var fyrst með í Eurovision árið 2005 og sungu þá eftirminnilega um ömmu sem spilar á trommur. Þeir hafa verið með óslitið síðan og er Stay því þeirra fimmtánda framlag. Þeir hafa komist upp úr forkeppninni í 71% tilvika. Besti árangur Moldóvu í Eurovision er 3. sætið árið 2017 þegar Sunstroke Project með epíska saxófónleikarann fremstan í flokki komu með heldur betur hressandi “kombakk”.