Pattstaða í Úkraínu


Úrslitakvöld Vidbir, undankeppninnar í Úkraínu fyrir Eurovision, fór fram síðastliðið laugardagskvöld í skugga pólítísks óróa vegna forsetakosninga sem haldnar verða í landinu eftir mánuð. Keppendur Vidbir fóru ekki varhluta af því þegar þeir voru grillaðir í beinni um tengsl sín við Rússland og hertekinn Krímskaga og þurftu að sannfæra dómnefnd um hollustu sína við Úkraínu. Það hefur reyndar gengið á ýmsu í undankeppninni í ár. Sá keppandi sem fyrirfram var talinn langsigurstranglegastur, Tayanna, dró sig úr keppni á síðustu stundu og var þá haft samband við listakonuna Hönnu Korsun sem betur er þekkt undir listakonunafninu Maruv og henni boðið að taka þátt sem hún og þáði. Einnig var kynnir keppninnar mikið gagnrýndur þegar hann gerði grín að líkamsárás sem annar keppandi varð fyrir og þótti lykta fullmikið af hómófóbíu.

En allt þetta hvarf í skuggann af síðasta laugardagskvöldi þegar sex atriði kepptu til úrslita. Í upphafi var tekið fram að stjórnendur UA:PBC, úkraínsku sjónvarpsstöðvarinnar, hefðu fullt vald til að breyta niðurstöðum dómnefndar og símakosningar almennings teldu þeir þörf á því. Þar með var tóninn fyrir kvöldið settur og keppendur urðu t.d. að svara fyrir tengsl sín við herstjórnina á Krímskaga og tónleikahald í Rússlandi. Dómnefndin, sem meðal annars var skipuð af sigurvegara Eurovision 2016, Jamölu, var aðgangshörð við keppendur, svo mjög að sumir táruðust á sviðinu. Og svo gerðist þetta.

Þetta er tónlistarkonan Maruv sem lenti þarna í skothríð Jamölu. Eftir undanúrslitin var hún talin líklegust til að vinna úrslitakeppnina. Hún nýtur mikilla vinsælda meðal Eurovisionaðdáenda sem margir hverjir voru handvissir um að hún myndi vinna sjálfa Eurovisionkeppnina og þar með færa Úkraínu sinn 3. sigur með gríðarlega grípandi lagi og sláandi eldheitri sviðssetningu.

Hún stóð sig eins og hetja í orrahríð dómnefndar og svo fór að hún vann sigur, stóð uppi stigahæst eftir að hafa lent í öðru sæti hjá dómefnd og fyrsta sæti í símakosningu. Það var þó ekki fyrr búið að krýna hana sem sigurvegara að stjórnmálamenn landsins fóru að skipta sér af vali hennar. Aðstoðarforsætisráðherra tvítaði að listakona, sem komið hefði fram í Rússlandi, væri ekki þess verðug að koma fram fyrir hönd Úkraínu í Eurovision. Einnig er komin fram krafa frá stjórnmálamönnum á úkraínska þinginu að banna skuli listafólki að taka þátt í Eurovision sem hafi tengsl við Rússland og jafnvel að hægt verði að sekta það fyrir það.

Í dag opinberaði síðan Maruv að henni hefðu verið settir afarkostir frá UA:PBC ætli hún sér að taka þátt í Eurovision fyrir hönd Úkraínu. Hún þurfi að bera allan kostnað sjálf, allt listrænt frelsi tekið af henni, henni sé ekki í sjálfsvald sett hvar, hvenær eða hvort hún komi fram til að kynna framlag sitt til Eurovision, hún megi ekki tjá sig við blaðamenn eða annað pressufólk án þess að UA:PBC fari yfir það sem hún megi og megi ekki segja og þungar sektir liggi við því að brjóta reglur þessar. Maruv ákvað að hafna þessum reglum og mun því ekki fara sem fulltrúi Úkraínu í Eurovision söngvakeppnina.

Slúðrið segir að UA:PBC hafi þegar haft samband við Freedom Jazz sem lentu í 2. sæti með lagið Cupidon en sveitin hafi einnig hafnað tilboði þeirra auk þess sem vitað er að hún spilaði á tónleikum í Rússlandi á síðasta ári.

Það er því enn alls óvíst hvaða lag verður framlag Úkraínu í ár, hugsanlega hljómsveitin KAZKA sem reyndar lenti í 2. sæti í símakosningunni en ekki nema í 4. sæti hjá dómnefndinni eftir að Jamala bauðst til að kenna söngkonunni að syngja.

FÁSES mun að sjálfsögðu fylgjast með framgangi mála í Úkraínu og upplýsa lesendur um leið og niðurstaða í málinu berst. Það hefur heyrst að Úkraína muni jafnvel hætta við þátttöku í ár og hver veit, kannski verður Tayönnu boðið að koma aftur og verða fulltrúi Úrkaínu en sú ákvörðun hennar að draga sig úr keppni varð til þess að hrinda allri þessari atburðaráð af stað. Og kannski ætti Úkraínu bara að handvelja klæðskerasniðinn keppanda á næsta ári.