Lokaspretturinn hjá Ara hafinn


Nú er farið að styttast í stóru stundina hjá íslenska hópnum. Nú er hafið svo kallað pressu-rennsli og í kvöld syngur Ari á dómararennslinu. FÁSES er mætt í blaðamannahöllina og við munum segja frá því sem fyrir augu ber. Fréttin verður uppfærð eftir því sem á líður.

Ari er búinn með sitt og stóð hann sig mjög vel. Póstkortið sýnir Ara læra strengjabrúðugerð. Það er greinilegt að honum leið vel á sviðinu og myndvinnslan lofar góðu, mikið um nærmyndir og flottar skiptingar.

Tékkinn Miklolas Josef er orðinn nokkuð hress eftir bakmeiðslin á fyrstu æfingu og var orkumikill á sviðinu. Hann lætur þó dansarana um áhættuatriðin.

Mynd: Andres Putting

Netta frá Ísrael þurfti að stoppa flutninginn í miðju atriði vegna tæknilegra vandamála. En hún lét það ekki á sig fá og flutti lagið sitt af miklu öryggi. Hún er ekki með loop-tækið sitt með sér á sviðinu en í staðinn er hún með gervi-loop tæki sem er nýtt til að sýna grafík þegar myndavélin er fyrir ofan hana. Dansararnir úr myndbandinu fara á kostum og í lokin fara öflugar sápukúluvélar í gang og blása sápukúlum upp í loftið eins og enginn sé morgundagurinn.


Mynd: Andres Putting

Það var klappað í blaðamannahöllinni fyrir Elinu frá Eistlandi. Atriðið er stílhreint og einfalt. Kjóllinn frægi sér um allt sjónarspilið og flutningurinn var mjög góður.

Mynd: Thomas Hanses

Hin gríska Yianna virkaði frekar þreytt á sviðinu og bláa höndin var horfin. Það kom þó alls ekki niður á sviðsetningu og myndvinnslu. Atriðið er draumkennt þar sem Yianna stendur á stóru skýi og verður svo umkringd nokkrum gufuhverum. Þrátt fyrir þreytuna var klappað fyrir henni í blaðamannahöllinni.

Mynd: Thomas Hanses

Ólíkt Yiönnu bar Saara Aalto engin merki þreytu og mætti full orku á sviðið. Saara fær extra prik í kladdann fyrir að geta sungið á hvolfi en hún byrjar atriðið föst á eins konar lukkuhjóli sem snýst. Inneyrað hennar Söru hefur verið „blingað“ upp í stíl við búninginn og kemur það mun betur út heldur en inneyrað hjá Ievu frá Litháen. Ieva var með hárið frá eyranu og einhverra hluta vegna var mikið um nærmyndir frá þeirri hlið þannig að óskreytt inneyrað hennar virtist vera í aðalhlutverki. En Saara er enginn nýgræðingur og og þekkir mátt blingsins. Saara nýtir sér eins konar neyðarblys í lokin við mikinn fögnuð í blaðamannahöllinni.

Mynd: Andres Putting

Írum hefur tekist að koma myndbandinu sínu stórglæsilega yfir á stóra sviðið. Fókusinn er fyrst og fremst á dansarana tvo sem nýta sér brúna milli ramps og aðalsviðsins og koma boðskap lagsins dásamlega til skila. Undir lokin fer að snjóa og er gervisnjórinn mjög raunverulegur… allt þar til fótspor eftir dansarana sjást á sviðinu. Þá er mjög augljóst að snjórinn er gerður úr raksápu. Ryan var mjög öruggur í falsettunni og fékk lófatak í blaðamannahöllinni.

Mynd: Thomas Hanses

Það er í hlutverki kynbombunnar Eleni að slútta þessu rennsli. Og þvílík veisla! Búningur Eleni er mjög litríkur og glitrandi, líkt og hún sé í ljósum logum og það er ekki mikið skilið eftir fyrir ímyndunaraflið. Eleni er hörku dansari og mjög kraftmikil en því miður kom allur krafturinn einstaka sinnum niður á söngnum þar sem hún hitti ekki alveg inn á tónana. Það er ekki hægt að syngja um eld án þess að kveikja í einhverju og Kýpverjar eru með tilkomumiklar eldvörpur sem poppa atriðið vel upp. Fullkominn endir á vel heppnuðu rennsli.

Mynd: Andres Putting