Blaðamannafundir dagur þrjú


FÁSES.is heldur áfram að fjalla um það sem fram kemur á blaðamannafundunum eftir æfingar keppenda í dag. Dagurinn hjá keppendum sem æfa í dag hefst á hálftíma inneyra æfingum baksviðs. Þá halda keppendur upp á stóra sviðið þar sem þeir fá æfingu í hálfa klukkustund með útsendingarteyminu. Eftir sviðsæfinguna fá keppendur að sjá atriðið sitt á tuttugu mínútu löngum fundi í áhorfs herberginu. Að honum loknum er fundur með smink ráðgjöfum. Samfélagsmiðlar Eurovision eiga svo stefnumót með keppendum í 35 mínútur og í lokin er svo blaðamannafundur í tuttugu mínútur þar sem blaðamenn fá að kynnast keppendum nánar.

Í þessum pistli munum við fara yfir það helsta frá blaðamannafundum dagsins. Pistillinn verður uppfærður eftir því sem líður á daginn. Löndin sem æfa í dag eru Noregur, Rúmenía, Serbía, San Marínó, Danmörk, Rússland, Moldóva, Holland og Ástralía.

Noregur – Alexander Rybak

Blaðamenn máttu bíða góða stund eftir sigurvegarar Eurovision 2009 hér í höllinni í dag. Fyrsta spurningin til Alexanders var að sjálfsögðu af hverju hann vildi taka aftur þátt í keppninni og það er einfaldlega af því að Eurovision er svo mikil hamingja! Alexander finnst það algjör heiður að vera fyrstu á svið í annarri undankeppninni og fá að flytja 1500. lagið í Eurovision. Stjórnandinn spurði hann hvort hann væri búin að fyrirgefa Portúgal fyrir að hafa ekki gefið honum tólfu árið 2009 og Alexander segir að hann hafi ekkert hugsað út í það. Þess má geta að Alexander hefur gert ábreiðu af sigurlagi Salvador Sobral frá því í fyrra. Það er augljóst að Alexander er feginn að vera búinn með fyrstu æfingu sína og hann segist hafa verið nokkuð stressaður fyrir henni. Rybak leikur á alls oddi hér í blaðamannahöllinni og faðmar fyrirspyrjendur þegar þeir spyrja hann góðra spurninga og kallar þau prinsessur. Alexander er að sjálfsögðu spurður út í fiðluna en hann segir að það besta við hljóðfæri sé að þau séu tungumál án orða. Talið berst að fjölda aðdáenda Alexanders og samfélagsmiðlum og það kemur á óvart að hann þarf 3-4 daga til að undirbúa mynd eða myndband til að setja á samfélagsmiðla, svo mikill fullkomnunarsinni er hann. Einhverjir kunna að hafa rekist á myndband sem Alexander setti á netið um daginn þar sem hann spilar á fiðluna nokkrum Eurovisionlögum þessa árs (Holland, Króatía, Portúgal, Frakkland og Ástralía) en hann segir að þessi lög séu í topp fimm hjá fiðlunni hans.

Rúmenía – The Humans

Hljómsveitin The Humans er fullskipuð hér á blaðamannafundinum í Altice Arena og það fyrsta sem þau segja er að þau hlakka til annarrar æfingar sinnar hér í Lissabon. Greinilega spenna í hópnum fyrir að taka þátt í Eurovision! Spyrjandinn biður þau um að kenna öllum viðstöddum að slamma (þeyta flösu eins og eldri kynslóðin kallar það) – greinilega fjör í þessum hóp! The Humans kynntust AWS frá Ungverjalandi mjög vel í fyrirpartýinu í Amsterdam og þau segja að það sé aldrei að vita nema þessar tvær hljómsveitir vinni saman í framtíðinni. Einn fyrirspyrjandi líkir The Humans við Hearts og Christina, aðalsöngkonunni, finnst það ekki leiðinlegur samanburður. Gínurnar og grímurnar á sviðinu eiga að tákna hvernig fólk í dag tekur ekki eftir því sem er í kringum það, er nokkurs konar vélmenni. Lagið Goodbye fjallar um hvernig við vöknum og fáum mennskuna aftur. The Humans eru spurð hvort það sé ekki pressa á þeim að komast í aðalkeppnina þar sem Rúmenía á fast sæti þar. Christina segir að þau séu ekki mikið að velta því fyrir sér heldur geri bara sitt besta á sviðinu.

Serbía – Sanja Ilic & Balkanika

Lagið Nova Deca (þýðir ný börn) er um framtíðina og skilaboðin eru að sjálfsögðu ást og kærleikur. Þegar þú ert ástfangin getur þú búið til nýjan heim með því að eignast börn og þar með nýja framtíð. Einn lagahöfunda lagsins Aleksandar Sanja Ilić samdi júgóslavneska Eurovision framlagið árið 1982. Reyndar samdi hann líka framlagið árið 1968 en þá var hann 16 ára og fékk ekki að ferðast með hópnum til Skopje. Með sviðsetningunni reynir serbneski hópurinn að blanda saman nýrri og eldri hefð og blanda smávegis gyðjuáhrifum með. Serbum er greinilega mikið í mun að syngja á móðurmálinu og vilja sýna hvað serbneskan er fallegt tungumál. Þau vona að allir muni syngja á sinni móðurtungu í Eurovision í framtíðinni því þannig er stutt best við tungumál og hefðir. Að lokum voru þau spurð hvað gerir heiminn betri og að þeirra mati er það ást, heiðarleiki, að vera góður við aðra, friður, bros, kærleikur, jákvæðni og engir glæpir. Þar höfum við það!

San Marínó – Jessika featuring Jenifer Brening

Það var víst smávegi panik í herbúðum San Marínó því Jessika týndi hringnum sem hún fékk eftir að eitt vélmennana á sviðinu bað hennar. En hún fann hann aftur sem betur fer! Lagið Who We Are fjallar um einelti og vélmennin tákna samfélag okkar í dag þar sem aðeins eitt brýst út úr vananum og sýnir mannlegar tilfinningar. Jessika og Jenifer segja að vélmennin séu svolítið öðruvísi og það sé gaman að gera eitthvað nýtt í Eurovision. Eins og margir vita er Jessika frá Möltu (hún er hin maltneska Sanna Nielsen – hefur reynt og reynt að komast í Eurovision!) og Jenifer er frá Þýskalandi. Þær hafa aldrei komið til San Marínó en þeim verður boðið þangað komist þær upp úr aðalkeppninni! Jessika og Jenifer voru spurðar hvað maltnesku og þýsku sendinefndinni þætti um þátttöku þeirra í Eurovision og þær eru víst bara sáttar að hafa fleiri landa í keppninni. Fyrsta undankeppni San Marínó var haldin fyrir Eurovision 2018 og eins og Eurovision aðdáendum er vel kunnugt var hún heljarinnar evrópsk hæfileikakeppni á netinu. Fararstjóri San Marínó segir ekki ákveðið hvort þeir haldi aðra svona keppni, fyrst ætla þeir að fá skýrslu um hvernig þessi fyrsta undankeppni San Marínó gekk.

Danmörk – Rasmussen

Það eru margir blaðamenn búnir að koma sér fyrir í tjaldinu þar sem blaðamannafundirnir hér í Altice Arena fara fram, Danirnir eru greinilega vinsælir. Rasmussen og félagar byrja á að útskýra að lagið sé um víking sem neitaði að berjast fyrir kónginn sinn heldur vildi heldur leysa deilur með samræðum. Jonas sjálfur tekur reyndar fram að hann er sjálfur friðarsinni og rólegur maður að eðlisfari. Laginu Higher Ground var vel tekið í fyrirpartýum Eurovision í apríl og við fáum að heyra órafmagnaða útgáfu af laginu á blaðamannafundinum. Eftir að hafa veitt góð ráð um umhirðu skeggs segir Jonas okkur að hann sé sjálfur Eurovision aðdáandi enda sé þetta fjölskylduþáttur í Danmörku. Uppáhaldslagið hans er að sjálfsögðu Fly on the wings of love með Olsen bræðrum. Einn blaðamannanna spyr af hverju hluti lagsins sé á íslensku og danska teymið svarar að það sé vegna þess að ef víkingarnir myndu ferðast inn í framtíðina væri langlíkast að þeir myndu skilja Íslendinga. FÁSES.is spurði í Jonas og félaga hvort það vantaði ekki finnskt þema í lagið þar sem lagið sé eftir sænska lagahöfunda um norskan víking flutt af Dönum með íslenskum texta. Rasmussen hafði ekki áttað sig á þessu og eigum við ekki bara að vona að þeir kippi þessu í liðinn.

Rússland – Julia Samoylova

Með Julia á blaðamannafundinum eru lagahöfundar lagsins, bakraddasöngvarar og farastjóri rússnesku sendinefndarinnar. Julia nýtur aðstoðar túlks. Julia sagði að æfing hennar í dag hafi gengið með ágætum en þó séu nokkur atriði sem þau vilja laga. Julia er ákaflega spennt fyrir því að Eurovision draumur hennar hefur loksins ræsts og uppáhaldslagið hennar er serbneska sigurlagið Molitva frá 2007. Athygli vakti að áður en opnað var fyrir spurningar blaðamanna var fólk beðið að hafa í huga að hún sé söngkona og tæki gjarnan á móti spurningum um tónlist sína. Þó að þátttaka Juliu hafi verið ákveðin fyrir löngu síðan tók það sinn tíma að finna rétta lagið fyrir hana því augljóslega var ekki hægt að nota lagið sem sent var inn í Eurovision 2017. Julia er feiminn að eðlisfari og hún notaði síðasta árið til að undirbúa sig fyrir stóra Eurovision sviðið. Þó að Julia tali ekki ensku skilur hún allt sem hún syngur en lagið er á ensku því það er mikilvægt að áhorfendur skilji lagið. Lagið fjallar um sögu Juliu og er ætlað að vera innblástur fyrir fólk um heim allan. Julia endar á að segja að þó að það væri skemmtilegt að vinna Eurovision er hún ekki hér í Lissabon til að keppa heldur vilji hún njóta, skemmta sér, hitta annað fólk og gefa smá hluta af hjarta sínu.

Moldóva – DoReDoS

Philipp Kirkorov semur lagið My Luck Day fyrir DoReDoS og ætti að vera Eurovision aðdáendum vel kunnugur – og tók að sjálfsögðu sviðið á blaðamannafundinum í dag (þrátt fyrir að vera klæddur í pallíettubol merktum “plein”, það er ekkert einfalt við Philipp og hann kallaði sjálfan sig m.a. dívu!). Philipp átti 51 árs afmæli í gær og hélt upp á það með risaveislu hér í Lissabon þar sem m.a. íslenska sendinefndin var viðstödd. Teymið hans í kringum My Lucky Day er svo sannarlega alþjóðlegt; Grikkir, Kýpverjar, Hvít-Rússar, Svíar og Úkraínubúar, sannarlega í anda slagorðsins “All Aboard”. Sjálfur er hann Búlgari en er stoltur af því að vinna með Moldóva í ár því þar byrjaði ferill hans fyrir 30 árum síðan. Hugmyndin að sviðsetningu lagsins, sem er ákaflega lífleg og full húmors, kemur út frá misskilningnum í laginu. Heiti hljómsveitarinnar, DoReDoS, kemur frá músíknótunum og þeim finnst það sjálfum vera einfalt og skapandi um leið. Philipp uppgötvaði DoReDoS á stóru festivali í Rússlandi, New Wave, sem þau unnu og hann vildi vinna með þeim því þau voru svo ung og fersk. Marina í DoReDoS sagði sveitina heppna að vinna með Philipp og hann sé eins og stóri bróðir þeirra.

Holland – Waylon

Fyrir fjórum árum lenti Waylon í öðru sæti með dúettinum The Common Linnets. Waylon hefur saknað Eurovision og mætir núna einn til keppni. Lagið hans í ár er öðruvísi, meira rokk og ról í bland við kántrí. Waylon hefur verið í bransanum í 30 ár en þetta er samt ný upplifun fyrir hann. Salvador kallaði eftir alvöru tónlist þegar hann vann Eurovision í fyrra og Waylon ákvað að svara kallinu og þess vegna er Waylon að taka þátt í ár. Lagið er til heiðurs þeim sem hafa veitt honum innblástur í gegnum tíðina. Lagið er ekkert nýtt að hans mati, en það er enginn að gera svona lög í Evrópu lengur. Waylon var ekki lengi að svara þegar hann var spurður hvort hann syngi ennþá lagið sem hann lenti í öðru sæti með, Calm After the Storm. Hann syngur lagið ekki lengur opinberlega en spilar ennþá lög af sömu plötu. Waylon drekkur mikið af cappuccino. Hann segist hafa verið að ljúga þegar hann hafi sagt í viðtölum fyrir keppnina að hann ætlaði að vera einn á sviðinu. Hann verður með fjóra dansara með sér á sviðinu. Dansararnir dansa í krumping stíl og Waylon segir að þeir sem dansa í þeim stíl séu útlagar og þess vegna passi það vel við lagið. Ferill Waylons hófst þegar hann var 28 ára og hann byrjaði á að fikra sig áfram í soul tónlist. Núna er hann búinn að finna sig í kántrí tónlist. Í vikunni tilkynnti Waylon að hann ætti von á barni. Kærastan hans er mætt til Lissabon en meðgangan hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig og hefur hún þurft að leggjast inn á sjúkrahús tvisvar sinnum á meðgöngunni. Waylon hefur þykkan suðurríkja hreim sem hann segist hafa lært með því að hlusta á kántrí tónlist. Þegar Waylon hefur verið í Bandaríkjunum hafa Bandaríkjamenn sagt að hann hljómi meira amerískur en flestir Kanar.

Ástralía – Jessica Mauboy

Jessica byrjar blaðamannafundinn á því að rifja upp þegar hún var gestur á Eurovision 2014 og segir það hafa verið spennandi lífsreynslu. Nú sé meiri ábyrgð á henni og þrýstingur því hún sé alvöru keppandi. Jessica er mikill Eurovision aðdáandi og fyrsta minning hennar er frá unga aldri þegar hún betlaði í föður sínum að fá að vaka lengi og horfa á Eurovision preveiw. Hennar upppáhalds lag er Only Teardrops með Emile de Forest þar sem það sigraði hjarta hennar 2014. Paul fararstjóri áströlsku sendinefndarinnar segir að það hafi verið mikilvægt fyrir Ástrali að fá boð sem gestir árið 2014 því það hafi opnað dyrnar fyrir þátttöku landsins í Eurovision árið eftir. Jessica var spurð hvaða ráð 16 ára Jess myndi gefa sjálfri sér í dag – það var einfalt; ekki breytast! Jessica er annar keppandi Ástrala af frumbyggjaættum og það er mjög mikilvægt fyrir hana því hún er stolt af arfleifð sinni og menningu. Hún kemst við þegar hún deilir þessum með blaðamönnum á fundinum. Að mati ástralska teymisins gekk æfingin vel í dag og Jessica fannst rafmagn fara í gegnum líkama hennar þegar hún stóð á sviðinu. Hún er svo hamingjusöm að það er hreinlega smitandi! Jessica fékk tækifæri til að syngja fyrir Barach Obama þegar hann heimsótti herstöð í heimabæ hennar. Ef hún hefði einhverja ofurkrafta væri það að skjóta orku – og að sjálfsögðu fær Jessica það svar að hún hafi nú þegar þá krafta!