Cześć Polska!! Á meðan við Íslendingar tjúttuðum af okkur skóna í höllinni á laugardaginn, voru vinir okkar í Póllandi að gera slíkt hið sama í Varsjá, þar sem fram fór úrslitakeppnin í Krajowe Eliminacje 2018.
Pólverjar mættu fyrst til leiks árið 1994 og tóku keppnina í nefið, þegar að Edyta Gorniak söng sig beinustu leið í 2. sætið. Síðan þá hafa þeir þó ekki verið happasælir, og hafa hæst komist í 7. sætið árið 2003 með laginu “Keine Grenzen” sem flutt var af sönghópnum Ich Troje. En árin 2004-2011 voru ekki sérlega gjöful, því að Pólland sat sem fastast í undankeppninni og ekkert gekk. Svo fór að þeir ákváðu að taka hlé í tvö ár, til að safna kröftum og íhuga hvort þetta samband við Evrópu væri að ganga upp. En pólska sjónvarpið var til í að gefa annan séns, og Pólverjar mættu tvíefldir til Kaupmannahafnar með brjóstgóða ballslagarann “Mi Slowanie – We are Slavic”, og flaug upp í aðalkeppnina og þaðan í 14. sætið, einu sæti hærra en Pollapönk. Sumir vilja nú meina að sú velgengni hafi verið unglingsstrákum víðsvegar úr Evrópu að þakka, en við tjáum okkur nú ekkert frekar um það…. Allavega hafa Pólverjar alltaf komist í aðalkeppnina síðan þeir snéru aftur, og lentu m.a.s. í 8. sæti árið 2016, þegar Michal Szpak varð í 4. sæti í símakosningunni og skaust óvænt upp í topp tíu.
Eftir þrjú ár af ballöðum, ákvað pólska þjóðin að hleypa smá stuði í mannskapinn og valdi plötusnúðinn Gromee og söngvarann Lukas Meijer til að halda uppi heiðri sínum í Lissabon. Þeir sigruðu símakosninguna með yfirburðum, en lagið sem varð í öðru sæti, var í meira uppáhaldi hjá dómnefndum. Samanlögð stig, þegar á hólminn var komið, skaut Gromee og Lukasi í 1. sæti með einungis einu stigi meira en Happy Prince, sem endaði í öðru sæti. “Light me up” er ekki fyrsta verkefni þessara ólíku en flottu tónlistarmanna. Þeir hafa unnið saman síðan í fyrra og áttu lagið “Without you”, sem varð feikivinsælt í Póllandi. Þegar horft er á strákana, dettur manni óneitanlega í hug JOWST, Aleksander Walman og “Grab the Moment”, en líkindin enda þar enda er “Light me up” allt öðruvísi uppbyggt. Þetta er afskaplega hressilegt og flott innlegg frá Pólverjum og það verður gaman að fylgjast með þessum töffurum í Portúgal.