Waylon snýr aftur fyrir hönd Hollands með “Outlaw in´em”.


Hollendingar hafa sigrað 4 sinnum og töldust stórveldi í Eurovision hér áður fyrr. En þeir hafa þó verið með óheppnari þjóðum seinustu árin, sérstaklega eftir að forkeppnirnar hófu göngu sína árið 2004, en á þeim 14 árum sem liðin eru síðan þá, hafa þeir einungis komist fimm sinnum í aðalkeppnina. En aldrei hafa þessar elskur misst móðinn, þrátt fyrir hrikalegt gengi.

Árið 2013 þótti þó hollenska sjónvarpinu nóg komið af svo “góðu”, enda áhuginn fyrir keppninni farin að dala allsvakalega í Hollandi. Þeir brugðu því á það ráð að fá stórstjörnuna Anouk til vera fulltrúi þjóðarinnar í Malmö, með lagið “Birds”. Skemmst er frá því að segja að Anouk sló gjörsamlega í gegn og kom Hollendingum alla leið í 9. sæti í aðalkeppninni, sem var þeirra besti árangur síðan að Marlayne keppti árið 1999 með “One good reason” og endaði i 8. sæti. Anouk var hyllt sem þjóðhetja þegar að heim var komið og Hollendingar voru allt í einu búnir að finna módjóið sitt. Nú lágu allar leiðir upp á við og þangað fóru þeir svo sannarlega árið eftir, þegar að Common Linnets mættu með lágstemmt og kántrískotið lag, sem hét “Calm after the storm” og sigldu beinustu leið í 2. sætið. Fengu m.a.s 12 stig frá Íslandi. Amen og hallelúja!

Forval en samt ekki forval.

Common Linnets voru skipuð þeim Ilse DeLange og Waylon, og varð tvíeykið svakalega vinsælt eftir frábært gengi sitt í Eurovision. En upp úr samstarfinu slitnaði þó þegar á leið á sumarið 2014, og Ilse og Waylon fóru hvort í sína áttina. En Waylon kallinn fór nú ekki langt, því nú er hann mættur aftur á svæðið, en sóló að þessu sinni. Waylon er, eins og flestir vita, mikill kántríunnandi (hann tók sér þetta sviðsnafn t.d. í heiðursskyni við kántrígoðsögnina Waylon Jennings) og hans bakgrunnur í tónlist liggur þar. Hann hefur undanfarna viku, kynnt eitt lag á dag, eins og til að athuga hvert þeirra myndi falla best í kramið, þrátt fyrir að hafa verið búinn að velja lagið fyrir lifandis löngu. Þetta kallast sko að stríða og byggja upp spennu! Hollendingar og aðdáendur víðsvegar um Evrópu voru áberandi hrifnastir af gullfallegu ballöðunni “Thanks, but no thanks” og töldu víst að Waylon hefði valið það, úr því að hann kynnti það lag seinast til leiks. En Waylon fer greinilega sínar eigin leiðir, hvað sem aðdáendum líður og öllum að óvörum var það að lokum hið rokkaða “Outlaw in´em” sem hann valdi að flytja fyrir hönd Hollands í maí og það er klárt mál að þetta er eins langt frá hinu lágstemmda og þýða “Calm after the storm”, og mögulegt er því Waylon er nákvæmlega ekkert að spara kraftinn, og gjörsamlega tætir og tryllir allt í flutningnum.  Það verður því hreinræktað kántrírokk sem fær að hljóma á stóra sviðinu í Lissabon og nú er bara spurning hvort að Waylon tekst að toppa fyrri árangur sinn í keppninni. Hvað segið þið? Rétt val á lagi?

 

Hver er Waylon?

Waylon heitir réttu nafni Willem Bijkerk og er 37 ára gamall söngvari og lagahöfundur. Hann hóf feril sinn þegar hann var aðeins 15 ára, í sjónvarpsþættinum Telekids, og ekki leið á löngu uns búið var að gera samning við hann og lá leið hans til Bandaríkjanna og alla leið til fyrirheitna landsins í Nashville, Tennessee, þar sem hann byrjaði að taka upp sína fyrstu sólóplötu, sem var þó reyndar aldrei lokið við. En það kom þó ekki að sök, því eftir að hann snéri aftur til Hollands, tók hann þátt í Holland´s Got Talent og endaði þar í öðru sæti. Skyndilega vissu allir hver Waylon var, og hann gat farið að starfa að tónlist sinni af fullum krafti, sem hefur skilað honum fjölda verðlauna og viðurkenninga í hollenska tónlistarheiminum. Og nú er tappinn mættur aftur í Eurovision með kántrírokkið sitt “Outlaw in´em” , en tilkynnt var um valið þann 3. mars. Komi hann fagnandi og veri hann velkominn!