Ó, mikið er ég þakklát fyrir vinskapinn

Heimilistónar flytja lagið Kúst og fæjó eftir Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, Elvu Ósk Ólafsdóttur, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur og Vigdísi Gunnarsdóttur í fyrri undankeppni Söngvakeppninnar 10. febrúar næstkomandi.

Heimilistónar er íslensk kvennahljómsveit í anda sjöunda áratugarins skipuð þekktum íslenskum leikkonum. FÁSES.is hitti á þær Heimilistónadömur, Ólafíu Hrönn, Kötlu Margréti, Elvu Ósk og Vigdísi, í sínu fínasta pússi rétt fyrir æfingu hjá RÚV. Hljómsveitin hefur áður sent inn lög í Söngvakeppnina en ekki hlotið náð fyrir augum dómnefndar fyrr en núna. Ólafía Hrönn sagði okkur reyndar að hún hefði sent inn ófá lögin í keppnina fyrir nokkrum árum síðan án árangurs. Það er því sannarlega fagnaðarefni að Heimilistónar, þessir miklu Eurovision aðdáendur, fái að syngja fyrir landann svolítið um vinskapinn í Söngvakeppninni. Á sviðinu verður hljómsveitin við fimmta og sjötta mann og hafa þeir fengið leikarana Sigurð Þór Óskarsson og Odd Júlíusson til að bregða á leik. Ekki fékkst uppgefið hvert hlutverk þeirra verður en við veltum fyrir okkur hvort þeir muni kannski sinna heimilisstörfum á sviðinu, nú eða jafnvel leika Sólrúnu Diego eða Mr. Muscle. Eitthvað hefur borið á því að erlendir áhangendur Söngvakeppninnar halda að Kúst og fæjó sé grínatriðið í ár en svo er nú aldeilis ekki, þær stöllur segja það sem þær meina og meina það sem þær segja um boðskap lagsins sem er að sjálfsögu þakklæti fyrir vinskapinn.

Heimilistónar hafa gert óskaplega huggulegt myndband við lagið sem eins og kunnugt er var tekið upp heima hjá Eddu Björgvins.

Kúst og fæjó

Nýja myndbandið okkar við Kúst og fæjó er komið út. Gjöriði svo vel 🙂 Takk elsku elsku vinkona Edda Björgvinsdóttir fyrir að leyfa okkur að mynda heima hjá þér og nota allt þitt fína dót. Njótið kæru vinir 🙂 #söngvakeppnin Söngvakeppnin

Posted by Heimilistónar on 26. janúar 2018