Eurovision 2018: Það verður Lissabon!

MEO Arena, Lissabon

 

Skipuleggjendur Eurovision keppninnar í Portúgal 2018 (ríkissjónvarpsstöðin RTP) tilkynntu í dag hvaða borg í Portúgal fær þann heiður að halda 63. Eurovision keppnina og hvenær hún verður haldin. Á fundinum var tilkynnt að Lissabon verði gestgjafaborgin á næsta ári og keppnin verði haldin i MEO Arena, sem rúmar 20 þúsund manns. Þó að fleiri borgir hafi verið skoðaðar í aðdraganda tilkynningarinnar (Gondomar, Santa Maria da Feira, Guimarães og Braga) kemur eflaust ekki mörgum á óvart að Lissabon hafi verið valin enda í raun eina borgin sem uppfyllti öll skilyrði EBU. Þau eru:

  • Höll sem rúmar 7-10 þúsund manns
  • Aðstöðu fyrir 1600 blaðamenn nálægt höll
  • Aðstöðu fyrir opnunarhátíð og lokahátíð Eurovision (á að rúma 3 þúsund manns)
  • 2000 hótelherbergi (á sanngjörnu verði og ágætlega staðsett)
  • Öryggi tryggt
  • Nútíma samgöngur (alþjóðaflugvöllur og aðrar samgöngur til staðar)
  • Góðar aðstæður fyrir þátttakendur
  • Skemmtidagskrá (lesist Euroclub!)

Keppnin verður haldin 8., 10. og 12. maí 2018. Ljóst var að þrengt var að skipuleggjendum hvað varðar dagsetningar þar sem undankeppni Evrópudeildarinnar er 1.-3. maí og lokakeppnin 26. maí. Fyrirfram var því talið að 12. og 19. maí væru líklegastar dagsetningar fyrir lokakeppni Eurovision.

FÁSES hefur orðið var við mikinn áhuga meðal félagsmanna á að fara á keppnina á næsta ári. Við minnum á upplýsingar um hvernig skrá má sig í félagið og aðrar nytsamar upplýsingar á spurt og svarað siðunni.

Við vekjum athygli á því að samkvæmt samþykktum FÁSES skulu allir gildir félagar greiða félagsgjöld fyrir 15. október fyrir komandi félagsár til að geta nýtt forkaupsrétt á miðum á aðalkeppni Eurovision.

Þetta þýðir:

  • FÁSES félagar sem stefna á að fara á Eurovision til Portúgals 2018 þurfa að greiða félagsgjald FÁSES fyrir 15. október 2017.
  • Nýir félagar sem stefna á að fara á Eurovision til Portúgals 2018 verða að ganga í FÁSES og greiða félagsgjald fyrir 15. október 2017.