Rýnt í stigagjöfina 2017

Við höldum PED-inu áfram og að þessu sinni rýnum við aðeins í stigagjöfina í ár. Farið verður yfir ósamræmi á milli dómnefnda og áhorfenda, bæði í undanúrslitunum og úrslitunum, ásamt öðrum áhugaverðum staðreyndum meðal annars um afgerandi sigur Portúgala.

Dómnefndir vs. símakosning

Þótt ekki sé ætlast til að algjört samræmi sé á milli atkvæða dómnefnda og símakosningar þá er alltaf gaman að skoða hvaða framlög sátu á sitthvorum endanum þegar uppi var staðið.

Fyrri undankeppni

Ef rýnt er í úrslitin úr fyrri undankeppninni má sjá að nokkur atriði nutu mismikillar velgengni hjá dómnefndum og áhorfendum.

Mest áberandi hlýtur að vera staðsetning og stigafjöldi Ástralíu. Ástralir sópuðu inn 139 stigum frá dómnefndum sem gáfu þeim annað sætið. En áhorfendur gáfu þeim einungis 21 stig og 15. sætið. Þegar atkvæði voru lögð saman enduðu Ástralir með 160 stig og enduðu í 6. sæti. Það er því nokkuð augljóst að Ástralir geta þakkað dómnefndum fyrir úrslitasæti sitt.

 

Á hinum endanum er Belgía, en dómnefndir gáfu framlagi Belga einungis 40 stig og 13. sætið en áhorfendur 197 stig og 4. sætið. Belgar fengu samanlagt 165 stig og 4. sætið og flaug inn í úrslitin. Hin unga Blanche getur því þakkað áhorfendum að hún fékk að spreyta sig aftur á stóra sviðinu.

 

Annað sem vekur athygli er munurinn á stigum til framlags Tékka en framlag þeirra vakti ágæta lukku á meðal dómnefnda sem gaf þeim 81 stig og 7. sætið. Áhorfendur voru langt því frá að vera jafn gjafmildir og gáfu framlaginu einungis 2 stig og átjánda og síðasta sætið. Samanlagt fékk Tékkland því 83 stig og endaði í 13. sæti.

 

Seinni undankeppni

Sjá má enn meira ósamræmi á milli dómnefndar og áhorfenda í seinni undankeppninni. Dómnefndir eru hliðhollari frændum okkar Dönum en áhorfendur þar sem dómnefndir gefa því framlagi 96 stig og 5. sætið en áhorfendur einungis 5 stig og 16. sætið. Samtals hlaut Danmörk 101 stig og rétt náði að skríða upp í 10. sætið og þar með í úrslitin.

Malta gat þó ekki þakkað dómnefndum jafn mikið, nema þá að koma framlagi þeirra úr síðasta sætinu. Dómnefndir gáfu því nefnilega 55 stig og 8. sætið en áhorfendur hundsuðu framlagið algjörlega og fékk Malta ekki eitt stig úr símakosingunni og þar af leiðandi síðasta sætið. Þökk sé dómnefndunum náði Malta þó að hífa sig upp í 16. sætið samanlagt.

Á hinum endanum voru það þrjú framlög sem vöktu augljóslega meiri lukku meðal áhorfenda enn dómnefnda.

Rúmenska framlagið höfðaði mun meira til áhorfenda en dómnefnda, en áhorfendur gáfu því 148 stig og 3. sætið en dómnefndir einungis 26 stig og 15. sætið. Var þetta það framlag þar sem munurinn á milli áhorfenda og dómnefndar var hvað mestur.

Annað framlag sem getur þakkað áhorfendum veru sína í úrslitunum er Króatía, en það hlaut 104 stig frá áhorfendum og 5. sætið en einungis 37 stig frá dómnefndum og 13. sætið. Samanlagt endaði Króatía í 8. sæti með 141 stig.

Því miður náðu áhorfendur ekki að bjarga Eistlandi frá því að fara snemma heim þrátt fyrir að hafa gefið þeim 69 stig og 6. sætið, en dómnefndir kunnu víst ekki að meta eistneska framlagið og gáfu þeim einungis 16 stig og 17. sætið. Eistland endaði í 14. sæti með 85 stig.

 

Úrslit

Nokkur munur var einnig á atkvæðum dómnefnda og áhorfenda í úrslitunum sem forvitnilegt er að líta á.

Dómnefndir vs símakosning

Land Dómnefndir Áhorfendur Mismunur Lokasæti
Ástralía 171 stig 2 stig -169 stig 9. sæti
Holland 135 stig 15 stig -120 stig 11. sæti
Noregur 129 stig 29 stig -100 stig 10. sæti
Austurríki 93 stig 0 stig -93 stig 16. sæti
Svíþjóð 218 stig 126 stig -92 stig 5. sæti
Bretland 99 stig 12 stig -87 stig 15. sæti
Danmörk 69 stig 8 stig -61 stig 20. sæti

 

Símakosning vs. Dómnefndir

Land Áhorfendur Dómnefndir Mismunur Lokasæti
Rúmenía 224 stig 58 stig -166 stig 7. sæti
Moldóva 264 stig 110 stig -154 stig 3. sæti
Belgía 255 stig 108 stig -147 stig 4. sæti
Ungverjaland 152 stig 48 stig -104 stig 8. sæti
Ítalía 208 stig 126 stig -82 stig 6. sæti
Króatía 103 stig 25 stig -78 stig 13. sæti

 Oft hafa heyrst fremur háværar gagnrýnisraddir varðandi tilveru dómnefndanna þegar kemur að stigagjöfinni í Eurovision, aðallega frá þeim sem telja að úrslitin ættu alfarið að vera ráðin af áhorfendum. Ef litið er á þessar tölur má þó sjá að áhorfendur fengu nokkurn veginn það sem þeir vildu hvað varðar lögin inn á topp 10, þótt að dómnefndin hafi nú hjálpað talsvert til við að koma Noregi og Ástralíu inn á topp 10 og hjálpað Svíþjóð að einhverju leyti.

 

Ótvíræður sigurvegar

Ekki er á nokkurn hátt hægt að efast um að Portúgal eigi sigurinn skilið eftir að stigataflan er grandskoðuð. Portúgal fékk samtals 758 stig en það eru 143 stigum meira en Búlgaría fékk í öðru sæti og 384 stigum meira en Moldóva fékk í þriðja sæti. Moldóva fékk 374 stig í heildina og er þetta því tvöfalt fleiri stig en Hey Mamma smellurinn og náladofadansinn fékk. Hlýtur þetta að vera í fyrsta skiptið sem að meira en tvöfaldur munur er á fyrsta og þriðja sætinu, að minnsta kosti núna í seinni tíð eftir að stigafjöldinn jókst.

Til gamans má geta að stigafjöldi Portúgal er 20 stigum meiri heldur en löndin sem voru í  15. til 26. sæti fengu til samans.

Dómnefndir og áhorfendur voru algjörlega sammála hvað varðar sigurvegara ársins í ár, en Portúgal var í fyrsta sæti bæði hjá dómnefnd og áhorfendum í úrslitum sem og í fyrri undankeppninni. Til gamans má geta að slíkt hið sama á við um annað sæti Búlgaranna, en búlgarska framlagið var í öðru sæti hjá bæði dómnefnd og áhorfendum í úrslitunum og var í fyrsta sæti hjá báðum í seinni undankeppninni.