Eurovision 2017 er lokið en það þýðir ekki að við aðdáendur séu komnir í dvala. Nú tekur við hið svokallaða PED-tímabil (Post Eurovision Depression) þar sem aðdáendur dunda sér meðal annars við að rýna í tölfræði og ýmsar staðreyndir sem finna má úr nýliðinni keppni. Við hér á FÁSES.is erum virkir PED-þátttakendur og að tilefni þess höfum við farið yfir hvaða þjóðir uppskáru sinn besta árangur í ár og hvaða þjóð uppskar þann versta.
Portúgal
Það ætti að vera nokkuð augljóst að árangur Portúgala í ár er þeirra langbesti í sögunni. Portúgalir tóku fyrst þátt fyrir hvorki meira né minna en 53 árum síðan og var framlag ársins í ár þeirra 49. í röðinni. Salvador Sobral og systur hans Luisu tókst hið (nánast) ómögulega, að sigra keppnina fyrir hönd Portúgala og það líka með ekkert smá yfirburðum. Árangurinn þykir einnig einstaklega sætur fyrir þær sakir að Portúgal hafði ekki verið með í úrslitunum síðan 2010, þeir drógu sig reyndar úr keppni 2013 og 2016, og frá því að undankeppnirnar voru settar hafði Portúgölum einungis tekist að komast í úrslitin í þrjú önnur skipti.
Fram að þessu hafði besti árangur Portúgala verið sjötta sætið árið 1996, lagið var flutt af Lúciu Moniz og bar heitið O meu coração não tem cor.
Topp 5 árangur
1.sæti – 2017 – Amar Pelois Dos – Salvador Sobral
6. sæti – 1996 – O meu coração não tem cor – Lúcia Moniz
7. sæti – 1980 – Um grande, grande amor – José Cid
8. sæti – 1994 – Chamar a música – Sara Tavares
8. sæti – 1991 – Lusitana paixão – Dulce Pontes
Búlgaría
Annað sæti Búlgaranna í ár var þeirra besti árangur til þessa, og segja mætti að ákveðin pressa sé sett á fulltrúa Búlgara í framtíðinni þar sem eina leiðin til að toppa þann árangur er að vinna allt heila klabbið. Áður en hinn 17 ára Kristian Kostov steig á svið og sópaði til sín rúmlega 600 stigum var besti árangur Búlgara 4. sætið sem hún Poli Genova náði í fyrra með lagið If Love Was A Crime.
Búlgaría tók fyrst þátt árið 2005 og hefur einungis tekist að komast í úrslitin þrisvar sinnum (með árinu í ár meðtöldu), en í öll þau þrjú skipti hefur þeim tekist að komast inn á topp 5. Segja mætti að það sé því allt eða ekkert hjá Búlgörunum.
Topp 5 árangur
2. sæti – 2017 – Beautiful Mess – Kristian Kostov
4. sæti – 2016 – If Love Was A Crime – Poli Genova
5. sæti – 2007 – Water – Elitsa & Stoyan
11. sæti (undankeppni) – 2008 – DJ, Take Me Away – Deep Zone & Balthazar
11. sæti (undankeppni) – 2012 – Love Unlimited – Sofia Marinova
Moldóva
Fram að árinu í ár hafði Moldóvu einungis tekist að komast inn á topp 10 tvisvar sinnum. Þeim hafði meira að segja mistekist að komast í úrslitin síðastliðnu þrjú ár í röð. Þetta er þó ekkert stórkostlega slæmur árangur hjá Moldóvumönnum, en þeir tóku fyrst þátt árið 2005 og hefur tekist að komast í úrslitin í níu af þrettán skiptum.
Fram að árinu í ár hafði besti árangur Moldóvu verið frumraun þeirra árið 2005 þegar Moldóva lenti í 6. sæti með lagið Bunica Bate Toba sem flutt var af hljómsveitinni Zdob si Zdub.
Topp 5 árangur
3. sæti – 2017 – Hey Mamma – SunStroke Project
6. sæti – 2005 – Bunica Bate Toba – Zdob si Zdub
10. sæti – 2007 – Fight – Natalia Barbu
11. sæti – 2012 – Lautar – Pasha Parfeny
11. sæti – 2013 – O Mie – Aliona Moon
San Marínó
Smáríkið San Marínó hefur svo sem ekki riðið feitum hesti frá keppninni, hefur þó komist einu sinni í úrslitin en það var í þriðju tilraun hennar Valentinu árið 2013. Er það einnig besti árangur landsins en Valentina lenti í 24.sæti með lagið Maybe. Valentinu gekk þó ekki eins vel í ár, því miður, en San Marínó uppskáru sinn versta árangur í 18. sæti í seinni undankeppninni með aðeins 1 stig. Frumraun þeirra lenti þó í 19. sæti árið 2008, en þar sem San Marínó fékk færri stig í ár en þá tökum við árinu í ár sem verri árangur. Greyið Valentina, það er víst hægt að taka mark á orðatiltækinu ‘allt er þegar þrennt er ‘ í tilfelli hennar.