Frændrækni og nágrannahollusta í kosningum

Nú er alveg að koma að stóru stundinni. Fyrri undankeppnin er í kvöld og margir farnir að iða af spennu. Á kaffistofum vinnustaða rjúka vinsældir Eurovision-nörda upp á methraða því að pöpullinn vill vita hvernig hann eigi að stilla upp listanum sínum fyrir veðmálspottinn í vinnunni.

Við sem lifum og hrærumst í þessu gefum okkar álit, bendum á hvað sé líklegt til árangurs og hvað ekki, styðjumst við sögulegar staðreyndir og tölfræði og vísum í Euro-skynjunina sem er ofurnæm á þessum árstíma. Pínulítið svona eins og Spiderman; “My Euro-sense is tingling…”

Og svo kemur að árlegu spurningunum og fullyrðingunum; “Er þetta ekki bara pólitík? Kjósa ekki allir bara nágranna sína? Erum við ekki langverst í nágrannakosningunum? Þessar kosningablokkir eru að eyðileggja keppnina. Vestur-Evrópa á ekki séns gegn Austur-Evrópu.”

Við í FÁSES höfum mjög gaman af því að rýna í tölfræðina og finna svör við þessum spurningum. Í þessum pistli verður miðað við tímabilið 2010-2016 en árið 2010 var í fyrsta skipti stuðst við 50% símakosningu á móti 50% dómnefndakosningu í undankeppnunum. Hvert land gaf stig í tveimur keppnum hvert ár, annarri undankeppninni og úrslitunum. Erum við verst af öllum í nágrannakosningum? Frá árinu 2010 höfum við gefið frændum okkar í Skandinavíu 9 sinnum 12 stig og 6 sinnum 10 stig. En áður en Skúli fúli og Nonni neikvæði fara á flug og líta á þetta sem staðfestingu á því að við séum sek um stórfelldar nágrannakosningar skulum við kíkja aðeins nánar á þetta.

12 stig 10 stig
2016 úrslit (dómnefnd) Holland Ástralía
2016 úrslit (símakosning) Svíþjóð Pólland
2016 fyrri undankeppni (dómnefnd) Holland Rússland
2016 fyrri undankeppni (símakosning) Rússland Holland
2015 úrslit Svíþjóð Noregur
2015 seinni undankeppni Svíþjóð Noregur
2014 úrslit Holland Austurríki
2014 fyrri undankeppni Holland Svíþjóð
2013 úrslit Danmörk Noregur
2013 seinni undankeppni Noregur Rúmenía
2012 úrslit Svíþjóð Eistland
2012 fyrri undankeppni Kýpur Írland
2011 úrslit Danmörk Finnland
2011 fyrri undankeppni Finnland Noregur
2010 úrslit Danmörk Belgía
2010 fyrri undankeppni Belgía Albanía

Á tímabilinu sem um ræðir hafa frændur okkar Svíar sigrað tvisvar og Danir einu sinni. Er í raun hægt að tala um nágrannakosningu ef við gerumst sek um að gefa sigurlaginu 12 stig? Við gáfum Loreen auðvitað bara 12 stig af fjölskyldurækninni einni saman árið 2012. Af því að Loreen er náskyld sænsk frænka okkar… frá Marokkó.

En hvað ef við fjarlægjum skandinavísku sigurvegarana úr greiningunni? Fáum við þá skýrari mynd á frændrækni íslenskra Eurovision-kjósenda?

Svíar hafa aðeins einu sinni fengið 12 stig frá okkur á þessu tímabili og einu sinni 10 stig. Frans fékk 12 stig í símakosningu í fyrra og Sanna Nielsen fékk 10 stig í fyrri undankeppni árið 2014. Það verður að teljast nokkuð merkilegt þar sem Svíar hafa tvívegis lent í 3. sæti (2011 og 2014), einu sinni í 5. sæti (2016), einu sinni í 1. sæti í undankeppninni (2011) og einu sinni í 2. sæti í undankeppninni (2014). Og aðeins einu sinni í fyrrnefndum tilvikum hafði Ísland ekki kosningarétt (seinni undankeppnin árið 2011). Svíar eru kannski bara búnir að venja okkur við svo gott að við spanderum ekkert 12 stigum í þá nema þeir séu með sigurlag í höndunum.

Frændur okkar Danir hafa í tvígang fengið 12 stig frá gömlu nýlendunni í norðri ef sigur Emmu frænku árið 2013 er undanskilinn. Chanée & Nevergreen og A Friend in London fengu 12 íslensk stig árin 2010 og 2011. Nágrannahollustan var ekki beinlínis áberandi því að Chanée & Nevergreen endurðu í 4. sæti og A Friend in London í 5. sæti. 12 stig frá Íslandi komu því ekkert sérstaklega á óvart.

Margaret Berger frá Noregi varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá 12 skyldleikastig frá Íslandi í seinni undankeppninni árið 2013 en hún hefur sennilega átt fleiri skyldmenni um alla Evrópu því að hún endaði í 3. sæti í undankeppninni og svo í 4. sæti í úrslitunum. Í úrslitunum voru íslensku 12 stigin frátekin fyrir Emmu frænku sem vann svo að Magga frænka þurfti að sætta sig við 10 stig. Mørland & Debrah Scarlett fengu 10 stig frá Íslandi bæði í seinni undankeppninni og úrslitum árið 2015 en örugglega bara af því að Debrah er rauðhærð og allir á Akranesi héldu að þeir ættu að kjósa rauðhærðasta næstum-Íslendinginn.

Finnar eru fjarskyldi frændinn sem maður hittir bara á ættarmótum. Hann er ekki nágranninn í næsta húsi sem maður hittir í bílageymslunni á morgnana og þess vegna er kannski ekki eins mikil ástæða til að sýna honum sömu hollustu og Norðmönnum, Dönum og Svíum. Það skýrir örugglega hvers vegna Ísland hefur bara einu sinni gefið Finnum 12 stig á tímabilinu sem um ræðir og einu sinni 10 stig en Paradise Oscar fékk umrædd stig í fyrri undankeppninni 2011 og úrslitunum sama ár.

Það er auðvelt að afgreiða stigagjöf í Eurovision á þennan hátt. Vissulega eru til dæmi um kosningablokkir í Eurovision en þær hafa sáralítil (ef nokkur) áhrif á úrslit keppninnar. Það þarf ekki 5 háskólagráður til að átta sig á að Grikkir og Kýpverjar gefa hverjir öðrum nánast alltaf 12 stig og samt hafa Grikkir aðeins sigrað einu sinni og Kýpverjar aldrei. Aserar og Armenar eru nágrannar og svarnir óvinir og gefa hverjir öðrum aldrei stig. Þrátt fyrir það hafa Aserar sigrað einu sinni. Ef nágrannakosning hefði úrslitaáhrif þá ættu Rússar að sigra á hverju ári. Samt hafa þeir bara einu sinni unnið. Og á Vestur-Evrópa virkilega undir högg að sækja? Síðan 2010 hafa Svíar unnið tvisvar, Danir einu sinni, Þjóðverjar einu sinni og Austurríki einu sinni. Öll þessi lönd flokkast til Vestur-Evrópu en aðeins tvö lönd frá Austur-Evrópu hafa sigrað á þessum tíma, Aserbaídsjan 2011 og Úkraína 2016.

Það segir ekkert til um norrænt samstarf hvort Íslendingar gefa Finnum stig eða ekki. Aðeins ein breyta sem hefur áhrif á hvert íslensku stigin fara og sú breyta er smekkur kjósenda. Smekkur kjósenda litast svo iðulega af gæðum laganna og/eða því sjónarspili sem verður til á sviðinu. Það má nefnilega ekki gleyma því að þegar öllu er á botninn hvolft er Eurovision sjónvarpsefni og langoftast er það eitt af bestu atriðunum sem sigrar, þ.e.a.s. eitt af þeim atriðum sem flestir kjósendur í Evrópu og Ástralíu eru sammála um að sé best.