Þriðji dagur æfinga í Kænugarði

Það hefur aðeins kólnað í Kænugarði en dagskráin keyrir áfram á fullu í International Exhibition Center, Eurovision höllinni, í ár. Í dag hefjast æfingar fyrir seinni undankeppni Eurovision þann 11. maí næstkomandi og stíga Serbía, Austurríki, Makedónía, Malta, Rúmenía, Holland, Ungverjaland, Danmörk og Írland.

Serbía

Tijana syngur In Too Deep fyrir Serbíu í ár. Hún mætir ein á svið í hvítum ermalausum samfesting á svið og sviðið er lýst í bláu og hvítu – ansi hefðbundin Eurovision uppskrift. Einn dansari, með opna skyrtuna, birtist síðar í atriðinu og dansar forvitnilegan nútímadans. Á sviðsgólfinu er spírall sem myndavélin snýst með á einum tímapunkti. Athygli vekur að lagið er samið af lagahöfundarteyminu Symphonics International en þeir eiga alls þrjú framlög í Eurovision í ár. Fyrir utan In Too Depp hafa þeir einnig samið framlag Búlgaríu og Makedóníu. Í heild verður að segjast að þetta er ekki alveg nógu kraftmikill byrjun á seinni undankeppninni en mikill klassi er að engu síður yfir framlagi Serba í ár.

Austurríki

Nathan Trent syngur Running On Air fyrir Austurríki í ár. Lagið byrjar á nærmynd af Nathan þar sem hann situr á tungli með álímdum glimmerflísum og það grípur augað um leið enda hvað er annað hægt þegar um svo sjarmerandi söngvara er að ræða? Hann er klæddur í hvítu og silfurlituðum strigaskóm sem minna á skófatnað Golden Boy frá Ísrael. Í bakgrunni eru draumkennd hvít, bleik og blá ský og gólfið er þakið reyk. Sviðsetningin minnir mjög á barnabókina Litli prinsinn (Le petit prince). Nathan negldi tvö af fjórum rennsli laganna en hann á í einhverjum erfiðleikum með háu nóturnar. Í lokin stígur Nathan fram á glerpall sem sést ekki í myndavélum og virðist hann þá “Running On Air” – mjög flottur endir á velheppnaðri framsetningu Austurríkismanna sem var klappað fyrir í blaðamannahöllinni.

Makedónía

Jana Burčeska syngur Dance Alone fyrir Makedóníu þetta árið. Hún er ein á sviðinu í anda lagsins og skakar sér með þokkafullum hætti svo nokkur andköf voru tekin hér í blaðamannahöllinni. Bakgrunnurinn er hvítur, rauður og blár en frekar kaótískur. Sviðsetningin kallar ekki fram nein sérstök viðbrögð enda nokkuð hefðbundin en þó má nefna að Makedónar hafa bætt við borgarljósunum sem Belgar hefðu átt að varpa í sínum bakgrunni. Jana virtist vera frekar þreytt á æfingunni en söngurinn var samt þokkalega góður.

Malta

Claudia Faniello syngur lagið Breathlessly fyrir Maltverja í ár. Claudia mætir ein á svið í hvítum síðum glimmerkjól og myndir af henni birtast í bakgrunninum. Það er gaman að sjá að Maltverjar ætla að nota ljósakrónuna sem var sérstaklega hönnuð fyrir sviðið í Kænugarði en lýsingin er enn einu sinni blá og hvít. Claudia klikkar ekki á nótunum og minnir lagið okkur aðeins á þemalagið í Pocahontas teiknimyndinni. Framlagið mun eflaust njóta þess að vera ein af fáum ballöðunum í þessari undankeppni en því miður greip sviðsetningin ekki augað.

Rúmenía

Ilinca og Alex Florea syngja Yodel It! fyrir Rúmena í ár. Það eru mjög skiptar skoðanir á jóðl-laginu í ár en það verður ekki annað sagt að þeir komi eins og ferskur andblær inn í þessa undankeppni. Rúmenar eru að vinna með mjög litríkan og gleðilega bakgrunn þar sem stendur skrifað stórum stöfum “Yodel It”, kannski eitthvað sem maður myndi búast við á KrakkaRúv. Ilinca og Alex voru klædd í svörtu á æfingu í dag en það eru eflaust ekki búningar þeirra. Þegar Ilinca tekur sólóið sitt dettur grafíkin niður sem kemur vel út og gæti heillað dómnefndarmeðlimina. Þegar líður á lagið eru tvær gríðarlega stórar glimmer fallbyssur dregnar á sviðið og Alex sveiflar sér upp á aðra þeirra. Eflaust kemur eitthvað svakalegt pýró út úr þeim á showinu en ekkert slíkt gerðist í dag. Óhapp varð í þriðja rennsli lagsins þar sem Alex datt á sviðið þegar hann reyndi að stökkvar upp á glimmerfallbyssuna! Hann kláraði samt lagið og vonandi verða ekki afleiðingar af þessu falli hans.

Holland

OG3NE (taknar blóðflokk móður systranna þriggja og sameiginlegt gengamengi þeirra) syngja lagið Lights and Shadows fyrir Hollendinga í ár. Systurnar standa þrjár saman á sviðinu í svörtum glimmerdressum, tvær í kjólum og ein í samfesting. Lýsingin er hvít, blá og gyllt og texti lagsins birtist í bakgrunni. Stelpunum tókst ákaflega vel til í dag og negldu öll þrjú rennslin sín – ótrúlega fallegar raddir!

Ungverjaland

Joci Pápai syngur lagið Origo fyrir Ungverja og ljóst er að þeir byggja á sömu sviðsetningu og í undankeppninni heima fyrir. Joci, klæddur í sama fatnað og í söngvakeppninni, er á sviðinu ásamt einum dansara sem dansar hefðbundna ungverska dansa til að undirstrika etnískt yfirbragð lagsins. Á sviðinu er einnig þjóðlagatromman góða þó Joci noti hana ekkert. Á litla sviðinu fyrir framan stóra sviðið stendur fiðluleikarinn en það er frekar augljóst að sú spilar ekkert á fiðlu. Lýsingin er gyllt, appelsínugul og rauð og í lokin sjáum við tvær friðardúfur í bakgrunni. Ungverjar nota pýrótækni í fjórða og síðasta rennslinu svo við eigum von á kraftmiklu númeri hér í seinni undankeppninni.

Danmörk

Anja stígur á svið fyrir hönd Dana með lagið Where I Am. Sviðsetningunni svipar til þeirri í Melodi Grand Prix með gylltri lýsing og spíralssviðsgólfi. Anja er ein á sviðinu með vindvélina á fullu og fer á hnén á einum tímapunkti. Búningur Önju vekur sérstaklega athygli hér í blaðamannahöllinni enda er hann afar sérstakur; ljósblárar buxur í lögum og bleikur og appelsínugulur toppur við. Hér gætum við verið að sjá Barböru Dex þessa árs, en svo eru verðlaun fyrir versta búningin nefnd á júróvisjónísku. Anja átti góða æfingu í dag og hún lokar atriðinu með gylltri pýrósturtu.

Írland

Brendan Murray syngur lagið Dying to Try fyrir Íra í ár. Brendan er í hvítri skyrtu og svörtum buxum og stendur einn á sviðinu í gríðarstórum loftbelg. Af hverju loftbelg? Það veit enginn. Bakgrunnurinn er fjallasýn ásamt rauðum og hvítum ljósum. Brendan átti í nokkrum vandræðum með röddina í dag en var studdur af mjög öflugum bakröddum.

Færslan verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram í Kænugarði.