Ukraine, l’Ukraine, Україна – Úkraína í Eurovision – Annar hluti

Umfjöllun okkur um Úkraínu í Eurovision heldur áfram, en við skildum við ykkur síðast með hinni álpappírsglöðu Verku Serducku árið 2007. Í þessum pistli eru næstu fimm árin viðfangsefnið og farið verður yfir gengi landsins á árunum 2008-2012.

 

 

 

 

Miðju-árin fimm: Silfur, topp 10, almennt miðjumoð og drama fyrir allan peninginn

Árið 2008 var tímamótaár þar sem þetta var fyrsta árið þar sem tvær undankeppnir voru og þar með þurftu allar þjóðir, fyrir utan “Big Four” og gestgjafana, að fara í gegnum undankeppnirnar til að komast í úrslitin. Silfursæti Verku Serduckhu hjálpaði því ekki mikið til þegar kom að keppninni 2008, en það átti þó ekki eftir að koma að sök.

Það var í höndum (eða kannski meira í raddböndum) hennar “skuggalega dömulegu” Ani Lorak að halda uppi heiðri Úkraínu þetta árið og segja má að henni hafi tekist það með ágætum, þar sem Úkraína flaug upp úr seinni undankeppninni (í efsta sæti meira að segja) og endaði að lokum í öðru sæti með 230 stig, 42 stigum á eftir sigurvegurunum Rússum.

Úkraína 2008 – Ani Lorak – Shady Lady

 

Með tvö silfur í röð í farteskinu mættu Úkraínumenn með miklar væntingar til Moskvu, og með miklu offorsi mætti segja. Svetlana Loboda flutti framlag Úkraínu þetta árið og mætti með eitt stærsta props Eurovision-sögunnar, fyrr og síðar. Atriðið vakti mikla athygli fyrir keppnina og var því spáð þó nokkurri velgegni. Úkraínu tókst þó ekki að komast inn á topp 10 þetta árið, en þeir enduðu í 12. sæti með 76 stig, sem þóttu ákveðin vonbrigði af hálfu Úkraínumanna (þótt að við lítilmagninn tækjum þessum árangri með góðum þökkum).

Úkraína 2009 – Svetlana Loboda – Be My Valentine! (Anti-Crisis Girl)

 

Valinu á framlagi Úkraínu fyrir árið 2010 fylgdi þó nokkuð drama. Í upphafi fór valið þannig fram að úkraínska sjónvarpið valdi söngvarann Vasyl Lazarovych sem flytjanda og haldin var undankeppni þann 6. mars þar sem lag var valið fyrir hann. Fimm lög stóðu til boða og var það lagið I Love You sem stóð uppi sem sigurvegari. Stuttu eftir keppnina, nánar tiltekið 17. mars, tilkynnti úkraínska sjónvarpið hins vegar að haldin yrði önnur undankeppni, þar sem hávær mótmæli gegn valinu á Vasyl Lazarovych sem flytjanda höfðu fengið ráðamenn sjónvarpsins til að snúast hugur.

Við tók undirbúningur að undankeppni á mettíma, en úkraínska sjónvarpinu tókst á einhvern undraverðan hátt að smala saman 20 nýjum flytjendum á einum degi, þar sem þeir voru tilkynntir þann 18. mars, og svo smala saman 20 nýjum lögum á einum degi í viðbót, en þau voru tilkynnt þann 19. mars. Keppnin sjálf var svo haldin þann 20. mars. Talandi um að vinna hratt.

Eftir spennandi keppni, þar sem úrslit voru ráðin með blöndu af símakosningu og dómaraatkvæðum, var það söngkonan Alyosha sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið To Be Free. En dramanu var þar með ekki lokið. Ekki nóg með að lagahöfundar hafi verið sakaðir um lagastuld þá kom í ljós að lagið hafði verið spilað opinberlega tveimur árum áður, sem er skýrt brot á reglum Eurovision, og var lagið þar með dregið úr keppni. Alyosha fékk þó að halda áfram sem flytjandi og valið var nýtt lag handa henni sem var gert opinbert þann 24. mars. Á tveimur og hálfri viku hafði framlag Úkraínu því breyst hvorki meira né minna en þrisvar sinnum.

En það var Alyosha sem steig á svið í Osló og vakti atriðið athygli fyrir látleysi sitt, en atriði Úkraínu síðustu árin á undan höfðu einmitt vakið athygli fyrir akkúrat öfugt. Úkraínu gekk ágætlega þetta árið, rétt mörðu það inn á topp 10 með 108 stig.

Úkraína 2010 – Alyosha – Sweet People

 

Valið á framlagi Úkraínu 2011 var ekki síður dramatískt eins og árið áður. Ferlið hófst í ágúst 2010 þar sem 7 manna dómnefnd valdi 35 atriði úr innsendum atriðum til þess að halda áfram. Þar á meðal var engin önnur en Verka Serduchka sem flutti framlag Úkraínu 2007. Verka dró sig hins vegar úr keppninni í október og eftir frekar langt og strangt valferli sem samanstóð af fimm undanriðlum og þremur undankeppnum voru það 19 lög sem stóðu eftir til að keppa í úrslitunum.

Úrslitin voru haldin í lok febrúar 2011 og þar mátti sjá eitt þegar kunnugt andlit og nokkur andlit sem áttu eftir að verða kunnug seinna meir. Þessi nú þegar kunnuga var Anastasiu Prikhodku sem flutti framlag Rússa árið 2009, en þau sem áttu eftir að vekja athygli seinna meir voru meðal annars Zlata Ognevich sem flutti framlag Úkraínu 2013, Eduard Romanyuta sem flutti framlag Moldóvu 2015 og engin önnur en sigurvegari keppninnar 2016, hún Jamala.

Dramað byrjaði með því að tvö lög voru dæmd úr leik þar sem fleiri en sex höfðu verið á sviðinu. Eftir að úrslit höfðu verið ráðin með 45% dómaraatkvæðum, 45% símaatkvæðum og 10% internet atkvæðum var það Mika Newton sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið Angel. Úrslitin þóttu þó strax umdeild og var farið fram á endurtalningu atkvæða af einum dómnefndarmeðlimi vegna sögusagna um að atkvæði hefðu verið talin vitlaust vísvitandi og að fitlað hefði við símakosningu með svokölluðum ‘síhringingum’ úr sama símanúmerinu.

Úkraínska sjónvarpið greip til þess ráðs að halda önnur úrslit á milli þriggja efstu atriðanna (Jamala, Zlata Ognevich og Mika Newton) þar sem úrslit yrðu ráðin með hreinni símakosningu, en að einungis væri hægt að hringja einu sinni úr hverju símanúmeri. Þóttu þessi loforð ekki vera mjög trúverðug og ákvað Jamala fljótlega að draga sitt atriði úr keppninni vegna þessa. Stuttu seinna ákvað Zlata einnig að draga sig úr keppninni, en kvaðst þó gera það vegna þess að hún væri bókuð í annað sama dag og nýju úrslitin áttu að eiga sér stað. Það var því einungis Mika Newton sem stóð eftir og var hún tilkynnt sem flytjandi úkraínska framlagsins 2011. Í nokkra daga var þó einhver óvissa með hvaða lag hún myndi flytja, en að lokum var það tilkynnt að hún myndi flytja lagið sem hún vann upprunalegu úrslitakeppnina með, Angel. 

Mika Newton fór því til Düsseldorf fyrir hönd Úkraínu og gekk bara nokkuð vel, en hún endaði í 4. sæti með 159 stig.

Úkraína 2011 – Mika Newton – Angel

 

Framlag Úkraínu árið 2012 fór fram á mun rólegri hátt en tvö árin áður. Úkraínska sjónvarpið tilkynnti að valið færi fram í gegnum undankeppni og auglýsti eftir framlögum í keppnina. Keppnin fór frekar dramalaust af stað og endaði með því að einungis eitt lag hafði verið dregið úr keppni, vegna náinna tengsla flytjandans við einn af dómnefndarmeðlimunum. 21 lag keppti um heiðurinn að fara fyrir hönd Úkraínu til Baku og voru úrslit ráðin með blöndu af dómaraatkvæðum og símaatkvæðum og að lokum var það Gaitana sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið Be My Guest. 

Gaitana fór til Aserbaídsjan full eldmóði, en náði þó “einungis” 15. sætinu með 65 stig sem var versti árangur Úkraínu síðan 2005. Lagið átti þó eftir að öðlast endurnýjun lífdaga eftir Eurovision sem eins konar óopinbert þemalag EM í fótbolta sem haldið var um sumarið í Úkraínu og Póllandi.

Úkraína 2012 – Gaitana – Be My Guest

 

Við munum staldra hér við, en í næsta pistli munum við fjalla um framlög Úkraínu síðustu fimm árin, 2013-2017.