Ukraine, l’Ukraine, Україна – Úkraína í Eurovision – Fyrsti hluti

Ferðatöskurnar eru að fyllast og vegabréfin eru komin upp á borð. Ferðalagið til Úkraínu þetta árið er handan við hornið og því ekki úr vegi að fara aðeins yfir sögu gestgjafanna frá Úkraínu í Eurovision. Það vill svo skemmtilega til að Úkraína er einmit að halda upp á 15 ára afmæli sitt í Eurovision og af því tilefni höfum við ákveðið að skipta sögu landsins í keppninni upp í þrjá hluta, fimm ár í senn.

 

 

Fyrstu 5 árin – Frumraun, sigur, ‘flopp og flipp’

Frumraun Úkraínu í Eurovision átti sér stað árið 2003. Það var í höndum hins þá þrítuga Oleksandrs Ponomariov að kynna Úkraínu fyrir Evrópubúum og flutti hann lagið Hasta La Vista. Hann tók milliveginn á þetta, en hann endaði í 14.sæti af 26 keppendum.

Atriði þetta vakti athygli fyrir mikla akróbatík sýningu sem flutt var af ansi liðamótalausri ungri konu, og átti þetta einungis eftir að vera forsmekkurinn af hugmyndaríkum og frumlegum sviðsetningum sem Úkraína átti eftir að bjóða upp á.

Úkraína 2003 – Oleksandr Ponomariov – Hasta la Vista

Annað framlag Úkraínu átti eftir að heilla Evrópu upp úr skónum og er enn þann dag í dag talið eitt af epískari Eurovision-lögum í seinni tíð, ef ekki í sögunni.

Við erum auðvitað að tala um hina orkumiklu Ruslönu sem flutti framlag sitt Wild Dances ásamt fríðu föruneyti dansara.

Sögur herma að Ruslana og félagar hafi farið svo miklu offorsi við æfingar á sviðinu í Istanbul að fleiri en ein sprunga hafi myndast í glergólfinu og að skipta hafi þurft um gler oftar en einu sinni.

Burt séð frá því þá var atriðið stórkostlegt, hvort sem það var krúttlega slæmur framburður Ruslönu á enskunni, innblásturinn frá  Xena:Warrior Princess þegar kom að búningavalinu eða óvenju orkumikið danssatriði sem gerði útslagið. En það var Ruslana, og Úkraína, sem stóð uppi sem sigurvegari í Istanbúl, með 280 stig, einungis 17 stigum á undan nýliðunum frá Serbíu og Svartfjallalandi í öðru sætinu.

Úkraína 2004 – Ruslana – Wild Dances

 

Úkraína tók hlutverki sínu sem gestgjafa alvarlega, þrátt fyrir pólitískt uppnám heima fyrir. Hin svokallaða “appelsínugula bylting” átti sér stað í Úkraínu frá nóvember 2004 fram til janúar 2005, og var í raun röð mótmæla og annarra pólitískra viðburða sem spruttu upp í kjölfar úkraínsku forsetakosninganna árið 2004. Þó nokkur ólga var á svæðinu og létu nokkrar áhyggjuraddir heyra í sér. En Úkraínumönnum tókst samt sem áður að setja upp og halda góða keppni og notuðu keppnina sem vettvang til að meðal annars auglýsa Úkraínu sem kjörinn áfangastað ferðamanna.

Þrátt fyrir að reglur Eurovision séu á þann veg að óheimilt sé að framlög í keppninni innihaldi á einhvern hátt skýrar pólitískar tengingar, áróður eða skírskotanir, þá var framlag Úkraínumanna á heimavelli frekar litað af pólitík.

Lagið bar titilinn Razom Nas Bahato, sem útleggst á íslensku sem “Sameinaðir eru við margir”, og varð að eins konar einkennislagi appelsínugulu byltingarinnar. Upprunalega útgáfa lagsins var eingöngu á úkraínsku og bjó yfir þó nokkrum pólitískum skírskotunum. Þar á meðal var annar frambjóðandinn í úkraínsku kosningunum, Yushchenko, beinlínis nefndur á nafn. Eftir að lagið hafði verið valið sem framlag Úkraínu í Eurovision þurftu lagahöfundar hins vegar að strípa textann af allri pólitískri meiningu, nafn Yushchenko var því þurrkað út. Einnig breyttu þeir parti af textanum og færðu hann yfir á ensku.

Gengi lagsins á stóra sviðinu var þó ekki neitt til að hrópa húrra fyrir, en það lenti í 19. sæti með einungis 30 stig.

Úkraína 2005 – Greenjolly – Razom Nas Bahato

 

“Flopp” á heimavelli fékk þó Úkraínumenn ekki til að draga saman seglin, heldur mættu þeir fílefldir til leiks árið 2006. Úkraínska sjónvarpið efndi til undankeppni þar sem þrjú atriði kepptu um heiðurinn að fá að flytja framlag Úkraínu í Grikklandi 2006.

Að keppni lokinni var það hin 20 ára gamla Tina Karol sem stóð uppi sem sigurvegari. Þar sem Úkraína hafði ekki náð inn á topp 10 árið áður þurfti Úkraína að taka þátt í undankeppninni árið 2005 (reglurnar voru þannig þangað til að tvær undankeppnir voru settar á árið 2008). Tinu tókst að komast upp úr undankeppninni og endaði í sjöunda sæti á lokakvöldinu, ekki slæmur árangur þar á ferð.

Úkraína 2006 – Tina Karol – Show Me Your Love

 

Þökk sé Tinu Karol og snú-snúandi danshópnum hennar þurfti Úkraínu ekki að fara í undankeppnina árið eftir og fór beint í úrslitin. Atriði Úkraínu árið 2007 átti eftir að vekja mikla athygli og er enn þann dag í dag með þeim eftirminnilegustu, ekki bara af atriðum Úkraínu heldur af öllum atriðum í Eurovision svona í seinni tíð.

Við erum að sjálfsögðu að tala um hina eldhressu Verku Serduchku sem kom, sá og næstum því sigraði í álpappírsbúningnum sínum og með stjörnuhatt á höfðinu, en lagið innihélt textabúta á hvorki meira né minna en fjórum tungumálum; þýsku, ensku, rússnesku og úkraínsku. Þegar við segjum næstum því sigraði þá meinum við það svo sannarlega, en Úkraína náði öðru sætinu þetta árið með 235 stig, 33 stigum á eftir sigurvegaranum frá Serbíu.

Úkraína 2007 – Verka Serduchka – Dancing Lasha Tumbai

 

Við munum staldra hér við í stutta stund, en í næsta pistli munum við fara yfir framlög Úkraínu í Eurovision á árunu 2008-2012.