Til hamingju Svala!

Mynd: Vísir.is

Svala Björgvins kom, sá og sigraði Söngvakeppnina 2017! Símakosning almennings og dómnefnd voru sammála um að lagið Paper, sem er eftir Svölu, Einar Egilsson, Lester Mendez og Lily Elise (texti er eftir Svölu og Lily Elise) hafi verið besta lag kvöldsins. Eftir fyrri kosningu kvöldsins, samanlagða símakosningu almennings og kosningu 7 alþjóðlegra dómnefndarmeðlima, voru lögin Paper og Is this Love? í efstu sætunum. Daði og Svala (Daðla eins og einhver kallaði þau svo skemmtilega á Twitter) háðu því einvígi sem Svala sigraði. Íslandsmet var slegið símakosningunni í gær samkvæmt Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra sjónvarps hjá RÚV, en alls voru greidd um það bil 245 þúsund atkvæði í kosningunni sem Svala sigraði örugglega.

Á blaðamannafundi strax eftir úrslitin með Svölu, Einar Egilssyni manni hennar og bakröddunum úr Gospelkór Fíladelfíu, kom fram að nú yrði unnið í því að koma laginu á næsta stigi; Svala er með frábært teymi á bak við sig og stórkostlegar bakraddir. Hún mun þó leitast við að halda í frumleikann og forðast það týpíska. Hún er aðeins farin að kynnast Eurovision brjálæðinu en margir vefmiðlar og aðdáendur hafa sett sig í samband við hana fyrir viðtöl og slíkt og hlakkar Svala til að kynnast því nánar. Carpoolkareokeið hennar Svölu með Selmu Björns og Jóhönnu Guðrúnu vakti mikla athygli sem og nýja myndbandið sem Einar leikstýrði og klippti. Það verður því forvitnilegt að vita hverju Svala bryddar upp á fyrir Kænugarð í maí en að hennar sögn var hún alls ekki sigurviss svo öll auglýsinga- og kynningarplön byrja bara nú á næstu dögum.

Við óskum Svölu hjartanlega til hamingju með sigurinn og við hlökkum til að fylgja henni til Kænugarðs!

Ekki missa af viðtalinu sem FÁSES tók við Svölu fyrir undankeppnina í Söngvakeppnina. Auðvitað ættu svo allir að vera búnir að sjá nýja myndbandið við Paper – en við látum það fylgja með svo enginn verði út undan!

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook