FÁSES tekur púlsinn á Rúnari Eff

Rúnar Eff Rúnarsson, 38 ára gamall Akureyringur, flytur lag eftir sig, Mér við hlið eða Make your way back home, í Söngvakeppninni annað kvöld. FÁSES.is hitti á Rúnar Eff rétt fyrir æfingu í RÚV en þar voru einnig góðkunningjar Söngvakeppninnar; Gísli Magna, Erna Hrönn, Kristján Gísla og Pétur Örn en þau munu öll syngja raddir með Rúnari á sviðinu. Á meðan við græjuðum upp eitt stykki viðtal þræddi Rúnar bláan streng á gítarinn til stuðnings átaki til að vekja athygli á að einn af hverjum sex drengjum verður fyrir kynferðisofbeldi á ævinni, sbr. einn af sex strengjum blár.

FÁSES.is forvitnaðist meðal annars um um hvernig væri að vera nýliði í Söngvakeppninni, sviðsetningu lagsins og sýn Rúnars á hina klassísku tungumálareglu. Þar sem Rúnar Eff er frá Akureyri og flengist um allt land að spila lá beint við að spyrja hvort hann ætlaði ekki að herja á landsbyggðaratkvæðin í kosningunni á laugardaginn. Við fengum svo Rúnar til að taka lagið sitt fyrir okkur og leysti hann það aldeilis vel af hendi með þessar frábæru bakraddir sér við hlið. Í lokin megum við til með að segja ykkur frá ótrúlega vel heppnuðu og stjörnum prýddu óskalagatónleikunum sem Rúnar Eff var með á facebook live í fyrrakvöld – endilega tjekkið á þeim hér.