„Óvenjuleg“ tungumál í Eurovision

Evrópa er suðupottur ólíkra menningarheima og eru tungumál þar engu undanskilin. Af því tilefni ætlum við að fara aðeins yfir nokkur tungumál sem hafa heyrst í Eurovision sem ekki eru beinlínis þau algengustu í álfunni.

Lúxembúrgíska (Luxembourgish)

Lúxembúrgíska er töluð, eins og nafnið gefur til kynna, í Lúxemborg. Tungumálið er móðurmál þeirra í Lúxemborg en ásamt því er franska og þýska einnig opinber tungumál landsins og voru nánast öll framlög Lúxemborgar á frönsku. Þrjú framlög voru þó á móðurmálinu lúxembúrgísku, þ.á.m. framlag þeirra frá árinu 1992. Hin framlögin voru frá 1960 og 1993, en það síðarnefnda var þó að mestu á frönsku og var einnig síðasta framlag Lúxemborg í Eurovision áður en þeir drógu sig úr keppni. Lúxembúrgíska tilheyrir vestur-germönsku málaættinni og er náskyld þýsku. Til að leyfa ykkur að heyra lúxembúrgísku bjóðum við ykkur uppá framlag Lúxemborgar frá árinu 1992.

Lúxemborg 1992 – Sou fräi – Marion Welter

Maltneska

Maltneska er móðurmál Maltverja, en þar í landi er enska einnig opinbert tungumál og hafa Maltverjar því oftast nýtt sér að geta sungið á ensku. Maltverjar veðjuðu á móðurmálið fyrstu tvö skiptin sem þeir tóku þátt, 1971 og 1972, en lentu í neðsta sæti í bæði skiptin. Ákváðu þeir því að skipta yfir á ensku og hafa sungið á ensku síðan. Maltneska kemu af sömu ætt og arabíska og til að gefa ykkur dæmi um hvernig hún hljómar fáið þið að njóta maltneska framlagsins frá árinu 1972.

Malta 1972 – L-imhabba – Helen & Joseph

https://www.youtube.com/watch?v=8K5vbmZxVbk

Arabíska

Úr maltnesku yfir í nágrannann arabísku. Arabíska heyrðist fyrst í Eurovision árið 1980 þegar Marókkó tók þátt í fyrsta og eina skiptið. Þetta er þó ekki í eina skiptið sem arabíska hefur heyrst í Eurovision, en lag Ísraela árið 2009 var sungið á ensku, hebresku og arabísku. Lagið var flutt af dúettnum Noa & Mira Awad og þótti það nokkuð umdeilt innan Ísrael þar sem Mira er af arabískum ættum og var þetta í fyrsta skiptið sem Ísrael sendi arabískan keppanda í Eurovision. Einnig var þetta í fyrsta skiptið sem arabíska heyrðist í framlagi Ísraela. Við ætlum þó ekki að rifja upp það atriði heldur fáið þið að heyra marókóska framlagið frá 1980.

Marókkó 1980 – Bitaqat khub – Samira

https://www.youtube.com/watch?v=a5F6c4_WPJk

Rómanska (Romansh)

Svisslendingar búa yfir hvorki meira né minna en fjórum opinberum tungumálum og er rómanska eitt af þeim. Tungumálið er þó það tungumál sem fæstir í Sviss kalla móðurmál sitt, en hin tungumálin eru franska, þýska og ítalska. Það er því ekki skrýtið að tungumálið hafi ekki heyrst oft í Eurovision, en það hefur þó gerst einu sinni. Framlag Svisslendinga árið 1989 var sungið á rómönsku og náði það 13. sæti. Rómanska er af vestur-rómönsku málaættinni og er náskyld frönsku og ítölsku. Er þetta í eina skiptið sem tungumálið hefur heyrst í Eurovision og viljum við því rifja þetta framlag upp.

Sviss 1989 – Viver Senza Tei – Furbaz

Bretónska (Breton)

Bretónska er tungumál sem talað er á Bretagneskaga í Norðvestur-Frakklandi og er af keltneskum uppruna. Bretónska er flokkað sem tungumál í útrýmingahættu þar sem að á einungis 50 árum fækkaði þeim sem tala málið úr 1 milljón manns niður í 200 þúsund manns. Tungumálið hefur þó fengið að hljóma einu sinni í Eurovision, en franska framlagið árið 1996 var flutt á bretónsku. Laginu gekk þó ekkert sérlega vel, endaði í 19. sæti af 23, og hafa Frakkar ekki veðjað á þetta tungumál síðan þá. Fyrir þá sem vita ekki hvernig bretónska hljómar þá er ég smá upprifjun á framlagi Frakka frá 1996.

Frakkland 1996 – Diwanit Bugale – Dan Ar Braz

Swahili

Swahili er tungumál sem fáir tengja við Evrópu, enda er það tungumál sem á rætur sínar að rekja til Afríku. Tungumálið er talað meðal annars í Tansaníu, Kenýa, Mósambík, Sómalíu og Úganda og talið er að yfir 150 milljón manns tali tungumálið. Swahili hljómaði í Eurovision árið 2011 þegar partur af norska framlaginu var flutt á swahili. Flytjandi lagsins, Stella Mwangi, er fædd í Kenýa en ólst upp í Noregi frá fimm ára aldri og talar hún reiprennandi swahili. Til upprifjunar er hér framlag Norðmanna frá 2011, sem því miður náði ekki að komast í úrslitin það ár.

Noregur 2011 – Haba Haba – Stella Mwangi

Krímísk tataríska (Crimean Tatar)

Í ár er frumflutningur krímískrar tatarísku í Eurovision, og var það einmitt kveikjan að þessari tungumálayfirferð. Tungumál þetta er partur af tyrkneska málaflokknum, líkt og tyrkneska og aserbasíska, og er talað á Krímeuskaganum og af þeim sem eiga ættir sínar að rekja þangað. Tungumálið kemur í ár fram í úkraínska framlaginu, en flytjandi þess, Jamala, er einmitt af ættum Tatara af Krímeuskaganum. Það þarf nú ekki að rifja mikið upp þegar kemur að laginu, þar sem það er nú að taka þátt í ár, en samt sem áður leyfum við ykkur að sjá og heyra það hér.

Úkraína 2016 – 1944 – Jamala

Tilbúin tungumál

Já þið lásuð rétt, tilbúin tungumál. Þrátt fyrir að til séu um það bil 6500 töluð tungumál í heiminum þá virðist það ekki vera nóg fyrir suma. Ekki eitt, ekki tvö heldur þrjú framlög í Eurovision hafa verið flutt á tilbúnu tungumáli, sem sumir vilja kalla bulltungumál, og hafa þau komið frá tveimur löndum; Belgíu og Hollandi. Fyrsta lagið er frá árinu 2003, en það voru Belgar sem komu með það og náði það hvorki meira né minna en öðru sætinu. Belgar búa yfir tveimur opinberum tungumálum en það er greinilegast ekki nóg því þeir sendu svo annað lag á tilbúnu tungumáli árið 2008, en því gekk ekki alveg jafn vel því þeir lentu í 17. sæti af 19 í sinni undankeppni. Tilbúin tungumál virðast vera spennandi á þessu svæði því nágrannar Belga, Hollendingar, hafa líka sent inn lag á tilbúnu tungumáli. Það framlag kom árið 2006 og var gengi þess því miður ekkert sérlega gott, en Hollendingar lentu í 20. sæti af 23 í undankeppninni. Þar sem erfitt er að lýsa tungumáli sem er algjörlega búið til þá fáið þið að gæða ykkur á lögunum í staðinn.

Belgía 2003 – Sanomi – Urban Trad

Belgía 2008 – O Julissi – Ishtar

Holland 2006 – Amambanda – Treble