Sigurstranglegasta lagið að mati sjónvarpssérfræðinga

FÁSES.is kíkti aðeins á hvað Eurovisionspekingar á RÚV og SVT, sænska sjónvarpinu, segja um Eurovision í ár. 

Sérfræðingar Inför Eurovision Song Contest

Sænska sjónvarpið stendur alltaf fyrir sérfræðingaþætti um Eurovision ár hvert eins og Eurovision aðdáendum ætti að vera vel kunnugt um. Í ár leiddi Christer Björkman þáttinn og fékk til sín Eurovision stjörnurnar Helena Paparizou (sigurvegari Eurovision 2005), Njol Badjie (úr hljómsveitinni Panetoz sem tók m.a. þátt í Melodifestivalen í ár), Oscar Zia (þátttakandi í Melodifestivalen 2016) og Wiktoria Johansson (þátttakandi í Melodifestivalen 2016). Hér má sjá topp tíu hjá þeim en efst með jafn mörg stig voru Ástralía, Frakkland og Svíþjóð. 

Inför 2016 panelenstopplista-jpgInför sérfræðingarnir spá Gretu Salóme ekki áfram upp úr fyrri undankeppninni en við á FÁSES.is eru sannfærð um að þeir hafi rangt fyrir sér og hlökkum til að sjá þá éta þetta ofan í sig! 

Sérfræðingar Alla leið

Felix Bergsson hefur ásamt sérfræðingum sínum, Selmu Björnsdóttur og Friðriki Dór Jónssyni og gestum, farið yfir öll 42 Eurovision framlögin í fimm sjónvarpsþáttum á RÚV. Topp 10 hjá þeim eru:

  1. Svíþjóð
  2. Frakkland
  3. Holland
  4. Malta
  5. Ítalía
  6. Ísland
  7. Armenía
  8. Ástralía
  9. Króatía
  10. Búlgaría

Næstir inn á eftir Búlgaríu eru Georgía og Litháen. Athygli vekur að Rússland með Sergey Lazarev, sem spáð hefur verið sigri hér í Stokkhólmi, kemst ekki á blað hjá Alla leið sérfræðingunum.

Uppáhaldslag Svarta hrossið (e. dark horse) Vinningslag
Friðrik Dór Svíþjóð Makedónía Rússland
Selma Svíþjóð Ísland Svíþjóð
Birgitta Rússland -pass- Frakkland
Gísli Marteinn Ítalía Úkraína Svíþjóð

Þau halda öll að Greta Salóme og Hear them calling komist áfram í lokakeppnina – auðvitað gerir hún það!