Tölfræði frá sérfræðingi FÁSES: Undankeppnir Eurovision

Í ár verða í 13. skipti haldnar forkeppnir fyrir Eurovision eftir að þær voru kynntar til sögunnar árið 2004. Það er því ekki úr vegi að kanna tölfræði þátttökuþjóðanna í forkeppnunum. Fáses.is hefur tekið saman árangur þjóðanna frá árinu 2004.

Áskrifendasætin 

8 þjóðir tróna á toppi listans sem hafa alltaf komist áfram úr undankeppninni. Af þeim eru 5 þjóðir sem keppa munu í undankeppnunum í ár. Þær eru Aserbaídsjan, Bosnía og Herzegovina, Grikkland, Rússland og Úkraína. Miðað við veðbankaspár í dag eru Grikkland og Bosnía og Herzegovina á mörkunum að komast upp úr sínum riðlum og líkur á því að þær þjóðir muni tapa sætum sínum á toppi listans.

…the loser has to fall 

Fjórar þjóðir eru á botni listans sem hafa aldrei komist áfram úr undankeppnunum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Tékkland er eina landið sem tekur þátt í ár sem hefur aldrei komist áfram úr undankeppnunum. Það er væntanlega mikil pressa á Gabrielu Gunčíkovu sem freistar þess að komast í fyrsta skipti upp úr undankeppninni í úrslitin fyrir Tékka. Ef eitthvað er að marka spár veðbankanna ætti það að takast hjá henni því henni er spáð 12. sæti.

Örvæntingarfull á botninum 

Pólverjar eru sú þjóð sem þurfti flestar tilraunir til að komast áfram í lokakeppnina úr forkeppni. Það tókst ekki fyrr en í áttundu tilraun árið 2014 þegar Donatan & Cleo sungu sig inn í hug, hjörtu og [ritskoðað] Evrópubúa með eftirminnilegum hætti.

Árangur Norðurlandanna 

Svíar eru með bestan árangur Norðurlandanna, en þeir hafa einungis einu sinni setið eftir með sárt ennið og ekki komist áfram úr undankeppninni. Það var árið 2010 þegar Önnu Bergendahl lenti í 11. sæti. Næstir koma Danir sem hafa þrisvar mistekist að komast áfram af þeim tíu skiptum sem þeir hafa keppt í undankeppnum. Norðmenn hafa þrisvar setið eftir í níu tilraunum. Íslendingar hafa fjórum sinnum ekki komist áfram í ellefu tilraunum og á botninum eru frændur okkar Finnar sem hafa fimm sinnum setið eftir í ellefu undankeppnum.

Sigurvegarar ekki alltaf sigurvegarar

Það hefur þrisvar gerst að þjóð hefur farið með sigur af hólmi í fínalnum þrátt fyrir að hafa ekki unnið undankeppnina sem þau tóku þátt í. Dima Bilan lenti í þriðja sæti í fyrri undankeppninni árið 2008. Ruslana lenti í öðru sæti árið 2004 í undankeppninni og Ell & Nikki lentu einnig í öðru sæti árið 2011 í fyrri undankeppninni.

 Listinn í heild sinni

Grikkland 9/9 100%
Rúmenía 9/9 100%
Úkraína 9/9 100%
Rússland 8/8 100%
Aserbaídsjan 7/7 100%
Bosnía og Herzegovina 7/7 100%
Serbía og Montenegro 1/1 100%
Lúxemborg 1/1 100%
Svíþjóð 7/8 88%
Armenía 7/8 88%
Tyrkland 6/7 86%
Ungverjaland 7/9 78%
Georgía 6/8 75%
Serbía 5/7 71%
Danmörk 7/10 70%
Moldóva 7/10 70%
Noregur 6/9 67%
Ísland 7/11 64%
Finnland 6/11 55%
Albanía 6/11 55%
Litháen 6/11 55%
Írland 5/10 50%
Malta 5/10 50%
Ísrael 5/11 45%
Króatía 4/9 44%
Eistland 5/12 42%
Kýpur 4/10 40%
Lettland 4/11 36%
Makedónía 4/11 36%
Austurríki 2/6 33%
Slóvenía 4/12 33%
Hvíta-Rússland 4/12 33%
Svartfjallaland 2/7 29%
Belgía 3/11 27%
Portúgal 3/11 27%
Sviss 3/11 27%
Holland 3/12 25%
Pólland 2/9 22%
San Marínó 1/6 17%
Búlgaría 1/9 11%
Andorra 0/6 0%
Tékkland 0/4 0%
Mónakó 0/3 0%
Slóvakía 0/4 0%

*Skáletraðar þjóðir taka ekki þátt 2016, fyrri talan er hversu oft þjóð hefur komist áfram úr undankeppni og seinni talan er hversu oft þjóð hefur tekið þátt í undankeppni.